16.04.1973
Neðri deild: 93. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3677 í B-deild Alþingistíðinda. (3288)

191. mál, Iðnrekstrarsjóður

Jón Snorri Þorleifsson:

Herra forseti. Ég skal verða við því að hafa þetta örstutt. Mér leiðist bara alltaf að heyra félaga mína hér á Alþ. tala af fávizku. Hér hefur því verið haldið fram a.m.k. tvisvar af sama manni í ræðustóli í kvöld, að það sé hætt að kjósa í verkalýðsfélögunum og það sé ástæðan fyrir því, að þau séu orðin einhvers konar bankastofnanir. Það var kallað hér fram í af nokkrum þm., hvort hv. þm. vissi, hvað væri langt síðan kosið var í Dagsbrún, það væri á s.l. ári, hvort hann vissi, hvað væri langt síðan kosið var í Sjómannafélagi Reykjavíkur, það var á s.l. ári, hvort hann vissi, hvað væri langt síðan hefði verið kosið í verkakvennafélaginu Sókn, það var á þessu ári. þessu til viðbótar get ég upplýst hv. þm. og aðra, sem kynnu að vera jafnfávísir — sem ég held, að sé ekki — um þessi mál hér á Alþ., um það, að þessi félög halda mjög oft fundi og öll eru nýbúin að halda aðalfundi. Á öllum þessum aðalfundum fara fram hörkukosningar í mörgum málum og um menn í n. Það er langt frá því, að það sé hætt að kjósa í verkalýðsfélögunum. En til þess að menn viti eitthvað um það, þurfa þeir að hafa lágmarksvitneskju og þekkingu um verkalýðsmál. Það er alger frumforsenda.