16.04.1973
Neðri deild: 93. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3688 í B-deild Alþingistíðinda. (3294)

198. mál, sveitarstjórnarlög

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Það er almenn trú hér í þinginu, að mál batni við það að fara í gegnum þn., en ég er mjög efins um, að svo hafi orðið í sambandi við þetta mál. Þegar þetta mál kom fram hér í hv. d., sýndist mér, að hér mundi vera um gott mál að ræða, eins og það var þá formað og 1. gr. þá orðuð. Þess vegna er afstaða mín til þessa máls sú, að rétt sé af okkur hér í hv. deild að halda okkur að upphaflegu orðalagi 1. gr., sem mest hefur verið um deilt. Að mínum dómi eru þær brtt., sem fram hafa komið, bæði frá meiri hl. n. og minni hl., þess eðlis, að ég get ekki fellt mig við þær.

Ef ég tek fyrst fyrir þá brtt., sem liggur fyrir á þskj. 658, frá hv. 2. landsk. þm., Pétri Péturssyni, og hv. 5. þm. Norðurl. v., Birni Pálssyni, er ég þeirri till. algerlega andvígur, vegna þess að hún merkir í raun og veru klofning Fjórðungssambands Norðurlands. Ég tel þetta vera óþurftarmál og það sé gerræði að ætla með lögum frá Alþ. að kljúfa frjáls samtök, sem stofnuð hafa verið að réttum lögum. Auk þess tel ég sjálfsagt að halda núv. skipulagi þessara mála, eins og nú er á fjórðungssambandinu, að það nái yfir bæði kjördæmin á Norðurlandi. Ég tel, að það stuðli að æskilegri samvinnu og samstarfi milli allra Norðlendinga, og þetta samstarf yrði rofið, ef þessi till. hv. þm. yrði samþ. Ég er fyrst og fremst andvígur þessari till. af þessum ástæðum. Auk þess er alveg ljóst, að það hafa ekki komið fram nein skýr tilmæli úr fjórðungnum um að hafa þennan hátt á, sem lagt er til í þessari brtt., að skipta fjórðungssambandinu. Hv. 2. landsk., Pétur Pétursson, hefur að vísu greint frá því, að meiri hl. fundar sveitarstjórnarmanna í Norðurl. v., haldinn á Sauðárkróki í fyrra, hafi ályktað sem svo, að rétt væri að vinna að stofnun sérstaks landshlutasambands fyrir það kjördæmi. En mér er alveg ókunnugt um, að þessi tilmæli hafi borizt hingað til þingsins. Ég hef a.m.k. ekki séð þau.

Svo að ég víki aftur að breytingu meiri hl. n., þá sýnist mér, að hún sé sízt til bóta, miðað við það, sem stendur upphaflega í frv., eins og það var lagt fram. Frv. gerir upphaflega ráð fyrir því, að löggild séu þau landshlutasamtök sveitarfélaga, sem þegar hafa verið stofnuð sem frjáls samtök. Þessu er ég sammála. Ég tel eðlilegt, að það sé gert, ef við á annað borð förum að löggilda eitthvað í þessa átt hér. En breytingin gerir aftur ráð fyrir því, sýnist mér, að ráðherra sé gefið vald til þess að ráðskast með svæðaskipun fjórðungssambandanna, að vísu að höfðu samráði, eins og þar segir, við Samband ísl. sveitarfélaga. Þetta fullnægir ekki mínum skilningi á þessu máli, og ég tel, að þessi till. sé sízt til bóta, og get því ekki stutt hana.

Ég vil aðeins af gefnu tilefni frá hv. 2. landsk. þm. minnast hér örlitið á Skagastrandaráætlunina. Það sanna í málinu er, að Skagastrandaráætlunin svonefnd má heita fullbúin og unnin á vegum Framkvæmdastofnunarinnar og trúlegt, að hún verði birt fljótlega. En í framhaldi af því vil ég geta þess, að það verður gengið í það mjög bráðlega að gera áætlun fyrir allt Norðurl. v. og fyrir Húnaflóabyggðir sérstaklega og Strandabyggðir þar með. Ég vil, ef hv. þm. hefur eitthvað misskilið þetta, koma þeirri leiðréttingu að, að Skagastrandaráætlunin má heita fullbúin og víðtækri áætlunargerð í undirbúningi. Við skulum vona, að hún sjái dagsins ljós, áður en langt um líður.