17.04.1973
Efri deild: 98. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3693 í B-deild Alþingistíðinda. (3307)

223. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson) :

Herra forseti. Mér þykir það furðu sæta, ef það er aðalatriðið fyrir hv. þm. að vita um orsökina til þess, hvort það hafi verið af misskilningi eða af ásettu ráði, að byggingarsjóður ríkisins varð fyrir tekjuskerðingu. Mér finnst þetta vera algert aukaatriði. Hitt er aðalatriðið, hvort byggingarsjóður ríkisins verður fyrir tekjuskerðingu eða ekki, og um það atriði vil ég segja það, að hafi um misskilning verið að ræða varðandi tekjuskerðingu, held ég, að sá misskilningur hljóti að verða leiðréttur, og ég treysti hæstv. fjmrh. fyllilega til að leiðrétta allan slíkan misskilning. Ég veit, að byggingarsjóði ríkisins þarf að sjá fyrir nýjum tekjustofnum, og ég treysti á það, að áhugamenn um húsnæðismál, bæði í stjórnarflokkunum og í stjórnarandstöðu, leggi sig alla fram, svo sem þeir mega og megna, til þess að byggingarsjóði ríkisins verði séð fyrir nægilegum tekjum, svo að afturkippur verði ekki í byggingu nauðsynlegs íbúðarhúsnæðis. innan hóflegra marka, sem byggingalöggjöfin hefur sett. Ég treysti á allra manna samstöðu, og fyrst og fremst treysti ég þá á hina mestu áhugamenn um lausn húsnæðismálavandans í því efni.

Hér er alls ekki um ásetning að ræða í því að skerða tekjur byggingarsjóðs ríkisins, því að ég veit, að allir vilja auka tekjur byggingarsjóðs ríkisins, til þess að hann geti gegnt sínu hlutverki. Ég horfist í augu við þennan vanda í þeirri fullvissu, að allir verði samtaka um að leysa þennan vanda. En ég tel einskis virði að svara því, hvort þarna hafi verið um ásetning að ræða um að skerða tekjur sjóðsins. Það er alveg víst, að það hefur enginn haft slíkan ásetning, og hafi um misskilning verið að ræða, verður áreiðanlega úr því bætt af hendi fjmrh. Ég treysti því.