17.04.1973
Efri deild: 98. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3696 í B-deild Alþingistíðinda. (3312)

76. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. meiri hl. (Ragnar Arnalds) :

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. hefur haft til athugunar frv. til l. um breyt. á l. um tekjuskatt og eignarskatt. Frv. það, sem hér um ræðir, er upphaflega komið til Alþ. sem væntanleg staðfesting á brbl., sem sett voru á s.l. sumri, 11. ágúst 1972, og fjölluðu um tekjuskatt þeirra manna, sem náð höfðu 67 ára aldri á skattárinu. Lögin voru þess efnis, að tekjuskatt þessara manna skyldi fella niður, ef hann væri 14 þús. kr. eða lægri hjá einstaklingum, en 22 þús. kr. eða lægri hjá hjónum, og síðan hlutfallslega lægri upphæð, eftir því sem tekjuskattur manna var meiri, allt upp í 56 þús. kr. fyrir einstakling og 88 þús. kr. fyrir hjón.

Í meðförum þingsins hafa komið fram ýmsar brtt. við þetta frv. og þá í fyrsta lagi varðandi tekjuskatt gamla fólksins, og þær breytingar hafa verið gerðar, að tölurnar í brbl. hafa verið hækkaðar úr 14 þús. kr. í 18 þús. kr. hvað snertir einstaklinga, úr 22 þús. kr. í 26 þús. kr. hvað snertir hjón, þannig að tekjuskatt að upphæð 18 þús. kr. og 26 þús. kr. ber að fella niður, en þar til viðbótar breytast þessar tölur í hlutfalli við skattvísitölu, þannig að í rauninni má segja, að hækkunin nemi tvöfaldri skattvísitölu, því að breytingin úr 14 þús. í 18 þús. og 22 þús. í 26 þús. er einnig miðuð við breytingu á skattvísitölu. Hér er því um mjög verulega hagsbót að ræða fyrir aldraða fólkið. Það er um það að ræða sem sagt, að reikna má með, að tekjuskattur hjá einstaklingum 22 þús. kr. og lægri verði algerlega felldur niður og tekjuskattur hjá hjónum 30 þús. kr. og lægri verði felldur niður og síðan hlutfallslega minna hjá þeim, sem meiri tekjur hafa og meiri skatt, þannig að lækkunin deyr væntanlega út við 88 þús. kr. tekjuskatt hjá einstaklingum og 120 þús. kr. tekjuskatt hjá hjónum.

Ég held, að það liggi því nokkuð ljóst fyrir, að eftir þessar breytingar þarf gamalt fólk að hafa talsvert miklar tekjur, ef það á ekki að njóta þessarar skattalækkunar. Og ég held þess vegna, að það megi nokkuð vel við una hvað snertir tekjuskatt aldraða fólksins, eftir að þessi breyting hefur verið gerð.

Ýmsar aðrar breytingar hafa verið gerðar á frv. eftir till. fjh: og viðskn. Nd., sbr. þskj. 691, eftir till., sem komu frá Vilhjálmi Hjálmarssyni og frá sjútvrh. á þskj. 614 og 670. Allar þessar breytingar eru fyrst og fremst tæknilegs eðlis, má segja, en eru þó ekki neinar stórvægilegar efnisbreytingar.

Meiri hl. fjh.- og viðskn. leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt eins og það kom frá Nd.