17.04.1973
Efri deild: 98. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3700 í B-deild Alþingistíðinda. (3316)

76. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. meiri hl. (Ragnar Arnalds) :

Herra forseti. Þar sem hæstv. fjmrh. er hér ekki viðstaddur til þess að gefa skýringu á orðalagi 8. gr. frv., tel ég mér skylt að skorast ekki undan þeim tilmælum, sem hér komu fram frá hv. þm. Magnúsi Jónssyni, að túlka þetta ákvæði, sem honum fannst svo illskiljanlegt.

Í lögunum, eins og þau eru nú, segir með leyfi forseta:

„Fjmrh. getur með reglugerð ákveðið, að innheimta skuli fyrir fram upp í væntanlegt þinggjald yfirstandandi árs hjá hverjum gjaldanda fjárhæð, er nemi allt að 3/5 hlutum þeirra þinggjalda, sem honum bar að greiða næstliðið ár“.

Með þeim breytingum, sem nú eru fyrirhugaðar, og hugmyndin mun eiga upptök sín hjá embættismönnum fjmrn., sem munu hafa orðað þetta á þann veg, sem gert er í frv., þá er ætlunin sú, að við fyrirframgreiðslu upp í væntanleg þinggjöld sé ekki aðeins miðað við það, sem gjaldanda bar að greiða á næstliðnu ári, heldur sé það að vísu sá grunnur, sem miðað er við, en heimilt að bæta við þeirri meðaltekjuaukningu, sem talið er, að átt hafi sér stað í þjóðfélaginu á milli ára. Sem sagt, það er miðað við tvennt, það er annars vegar miðað við gjöldin, sem gjaldandi þurfti að greiða á s.l. ári, og miðað við þá meðaltekjuaukningu, sem átt hefur sér stað á milli ára. Þetta er sem sagt það, sem höfundur er að reyna að koma orðum að í áðurnefndri gr., þegar hann tekur þannig til orða, . með leyfi forseta :

„Fjmrh. getur með reglugerð ákveðið, að innheimta skuli fyrir fram upp í væntanleg þing- gjöld yfirstandandi árs hjá hverjum gjaldanda fjáræð, er nemi ákveðnum hluta þeirra þinggjalda, sem honum ber að greiða næstliðið ár“. Þetta er næstum alveg eins og það er í frv., að öðru leyti en því, að þarna stendur „ber“ í staðinn fyrir „bar“, sem allar líkur benda til, að sé prentvilla, og er ekki þess eðlis, að flestir ættu ekki að geta lesið í málið. Síðan er bætt við setningunni: „Við ákvörðun fyrirframgreiðslunnar skal gætt þeirra tekjubreytinga, sem orðið hafa, og almenns efnahagsástands í landinu“. Og til nánari skýringar á þessu er síðan bætt við setningunni: „Ráðh. er heimilt að miða fyrirframgreiðslu samkv. þessari mgr. við hlutfall af tekjum yfirstandandi árs í stað hlutfalls af gjöldum næstliðins árs, telji hann þá aðferð betur henta“. (MJ: Hvernig fellur þetta inn í?) Ég skil þetta fyrst og fremst þannig, að grundvöllurinn hljóti ævinlega að vera gjöld liðins árs, ég get ekki skilið það á annan veg, en það sé svo heimilt að .... (Gripið fram í.) Já, ég get fúslega viðurkennt það, að orðalagið á þessari setningu er alls ekki með þeim hætti, sem æskilegast væri, því að það er þungskiljanlegt, og væri sjálfsagt rétt að skoða þetta nánar. — En ég hef skilið þetta á þennan veg, og það er vel hugsanlegt, eins og hv. þm. segir, að athuga þetta svolítið nánar á milli umr., hvort hægt væri að orða þetta með tryggilegri hætti en gert er. Ég tel ekki ástæðu til þess að fara að flytja hér brtt. við orðið „ber“, vegna þess að ég tel, að það sé svo augljóst mál, að það verði engin vandræði, og ekki tel ég ástæðu til að fara að senda frv. á milli d. út af þeirri breytingu einni. En það má vel vera, að þessi setning, sem síðast bar á góma, sé torskildari en svo, að ástæða sé til að hafa hana óbreytta í lögum.

Í næstu mgr. segir: „Nú verður ljóst, þegar álagningu skatta lýkur, að gjaldandi hefur þegar greitt meira en álagða skatta, og skal þá endurgreiða það, sem ofgreitt var“. Ég er út af fyrir sig ekkert hissa á því, þó að mönnum þyki þetta heldur einkennilegt fyrirbrigði. En ég skil þetta þannig, að þarna sé aðeins verið að ræða um hugsanlegan möguleika, sem hljóti þó að teljast afar ólíklegur. En hann getur orðið að veruleika í því tilviki, að tekjur bresti algerlega hjá einstaklingi, hann hafi haft miklar tekjur árið á undan, hafi síðan mjög litlar tekjur og um leið verði mjög almennar breytingar til hækkunar almennt í þjóðfélaginu. (Forseti: Ég vil spyrja hv. ræðumann, hvort hann eigi mikið eftir af ræðunni, þar sem boðaður er fundur fyrir 5 mín. eða rösklega það í Sþ.?) Ég skal ljúka ræðu minni alveg á næstunni. En ég skal sem sagt lýsa því yfir, að ég er reiðubúinn að gangast fyrir því, að orðalag þetta verði athugað svolítið betur en gert hefur verið.

Varðandi það, sem hér hefur verið rætt um gamla fólkið, og endurteknar yfirlýsingar um, að það hafi nú ekki fundizt önnur breiðari bök í þjóðfélaginu en á gamla fólkinu, þá vil ég taka það fram, að þetta eru auðvitað svo fjarstæðukenndar fullyrðingar, að þær eru ekki svara verðar. Ég tel, að það leiki ekki vafi á því, að eftir þær breytingar, sem gerðar hafa verið til lækkunar á tekjuskatti gamla fólksins með brbl., þá er sá hópur manna, sem ekki fær lækkun, mjög fámennur, og það er fyrst og fremst gamalt fólk með talsvert miklar tekjur, sem ekki fær lækkun. (MJ: Af hverju þurfti brbl.?) Brbl. þurfti hins vegar til þess að veita því aldraða fólki, sem litlar tekjur hefur, nokkra ívilnun. Og það var gert, það var leiðrétt. Eftir að brbl. voru sett, er fjarstæða að tala um, að þetta hafi verið ósanngirnismál gagnvart öldruðu fólki, og enn fráleitara að sjálfsögðu, eflir að sú breyting hefur verið samþ., sem hér er gerð till. um.