17.04.1973
Neðri deild: 94. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3704 í B-deild Alþingistíðinda. (3324)

235. mál, tollheimta og tolleftirlit

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Ég vil taka undir það, sem hv. síðasti ræðumaður sagði, að við skulum varast það að semja þannig okkar tollalöggjöf, að bakari sé hengdur fyrir smið. En ég hef skilið síðari málsgr. þessarar brtt., sem n. hefur flutt, með þeim hætti, að átt sé við þá af áhöfn skipsins, aðra en stjórnanda farsins, sem taka á móti skilríkjum eða innsiglisskrá yfir slíkan varning. Það eru þessi orð: „slíkur varningur“, sem skírskota til þess, sem getið er um í fyrri gr., varðandi aðra áhafnarmeðlimi, sem taka á móti skilríkjum, sem þeim er ljóst að eru skilríki yfir áfengis- og tóbaksbirgðir, sem undir eðlilegum kringumstæðum eiga ekki að fara um borð í skipið. Það er undir þeim kringumstæðum, sem þessir aðilar mundu hljóta refsingu, þ.e. fyrir móttöku á skilríkjum eða innsiglisskrá yfir þann varning, sem fyrri málsgr. gerir ráð fyrir, að geti komið um borð í skip. Ef þeir taka á móti eðlilegum birgðum af áfengi og tóbaki fyrir skipið, er að sjálfsögðu ekkert við það að athuga. Ef þeir hins vegar taka á móti og undirrita skilríki, þar sem um er að ræða óeðlilegt magn af slíkum hlutum, og láta ekki af því vita, eru þeir þar með að baka sér refsingu.

Það eru komin inn í þessa brtt. orðin: „stjórnandi vissi eða mátti vita um“ það, sem þar gerðist. Þetta gerir það að verkum, að það leggur örlitið ríkari áherzlu á, að vitneskja verði að vera fyrir hendi hjá stjórnandanum eða hlutirnir séu svo augljósir, að hann hafi mátt um það vita. Og síðari málsgr. er að mínum dómi þannig, að það sé fyrst og fremst um að ræða móttöku á skilríkjum eða innsiglisskrá yfir hinn óeðlilega varning af áfengi og tóbaksbirgðum, sem um borð í farið mundi koma.