17.04.1973
Neðri deild: 94. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3705 í B-deild Alþingistíðinda. (3326)

235. mál, tollheimta og tolleftirlit

Matthias Á. Mathiesen:

Herra forseti. Út af orðum hv. 10. þm. Reykv. skal ég fúslega viðurkenna það, að ég hef ekki stundað farsiglingar, svo að mér er alls ókunnugt um, hversu mikið magn af slíkum hlutum þarf um borð að koma. En ég held, að ef það er rétt, sem hv. þm. hefur sagt hér, geri þessi gr. það að verkum, að hún leggur ríkari ábyrgð á skipstjórnarmenn og stjórnanda fars og hans undirmenn að undirrita ekki skjöl, sem þeim er ekki ljóst, hvað þýða.

Það er með þessu ákvæði verið að gera stjórnanda fars og öðrum mönnum í skipshöfninni grein fyrir því, að þeir verða að gera sér grein fyrir, hvað það er, sem þeir móttaka, og hvaða skilríki það eru, sem þeir undirrita. Ef þeir gera sér grein fyrir því, á ekki að vera nein hætta hér á ferðum, þ.e. a. s. að bakari verði hengdur fyrir smið.