17.04.1973
Neðri deild: 94. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3711 í B-deild Alþingistíðinda. (3334)

238. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Frsm. (Stefán Valgeirason) :

Herra forseti. Landbn. hefur rætt þetta frv. á fundum sínum og leggur til, að það verði samþ. Einstakir nm. áskilja sér rétt til þess að flytja eða fylgja brtt., sem fram kunna að koma. Benedikt Gröndal, hv. þm., var fjarstaddur við afgreiðslu málsins.

Ég sé ekki ástæðu til að rekja efni frv., því að hæstv. landbrh. talaði fyrir því hér í hv. d. í gær, en ég sé hins vegar ástæðu til þess að segja hér nokkur orð í sambandi við ummæli, sem voru höfð hér í þd. í gær, og enn fremur í sambandi við skrif í Morgunblaðinu undanfarna daga.

Það hefur verið fullyrt, að það sé alveg nýtt, að stofnlánadeildina vanti fjármagn, og hv. 1. þm. Sunnl., Ingólfur Jónsson, kemst þannig að orði í laugardagsgrein sinni 14. apríl, með leyfi forseta: „Fullyrt er, að ekki verði unnt að fullnægja lánsfjárþörfinni á þessu ári“ Hver fullyrðir það? Svo heldur hv. þm. áfram: „Ef svo fer sem horfir, verður að taka upp nýja stefnu og neita bændum um lán, þótt þeir uppfylli öll skilyrði til lána, en til þess hefur ekki komið áður.“

Ég man nú ekki betur en að þegar þessi hv. þm. var ráðherra, væri breytt lánareglunum, sennilega fyrir fjárskort, þannig að bændur fengu ekki lán nema út á eina framkvæmd í hvert skipti, jafnvel þó að það væru t.d. hlaða og fjós, sem í raun og veru þarf að byggja í einu. Það hefur líka verið þannig á undanförnum árum, að vinnslustöðvarnar hafa verði látnar mæta afgangi. Þær hafa ekki fengið lán, nema það hafi verið eitthvað til um áramót.

Árið 1962 lánaði deildin 70,5 millj., 1970 lánaði hún 141,2 millj., en á þessu ári 369,6 millj. En eftir bókun bankans lánaði deildin t.d. á árinu 1967 134,2 millj., en skuld við Búnaðarbankann um áramót var rúmar 32 millj. Það er auðséð á þessum tölum, að það hefur ekki alltaf verið nægilegt fjármagn til í stofnlánadeildinni.

Það er alveg rétt, að nú eins og oftast áður er ekki nægilegt fjármagn miðað við þær beiðnir, sem hafa komið fram. En ég man aldrei til þess, síðan ég fór að hafa afskipti af þessum málum, að það hafi ekki einmitt verið óvissa um það, hvernig leyst yrði úr þessum málum.

Vegna skrifa í Morgunblaðinu og vegna þeirra ummæla, sem hafa heyrzt hér í hv. þingi um þessi mál, gat ég ekki hjá því komizt að drepa á þessi atriði. Ef það hefði verið nægur tími, þá hefði verið gaman að fara ofan í þessi mál frekar,en ég ætla ekki að láta það eftir mér í þetta skipti. En í sambandi við þær brtt., sem minni hl. hv. landbn. flytur, vil ég aðeins segja það, að ég hef látið athuga um byggingarkostnað í sambandi við t.d. 12 kúa fjós og allt tilheyrandi, 24 kúa fjós og allt tilheyrandi og 48 kúa fjós og allt tilheyrandi. Og það kemur í ljós, að t.d. 24 kúa fjós er um 25% dýrara hver bás heldur en básinn með öllu í 48 kúa fjósi og í 12 kúa fjósi um 40% eða rúmlega það dýrari en er í 48 kúa fjósi. Ég benti á þetta í sambandi við þær brtt., sem hv. minni hl. flytur hér í sambandi við, að það sé óeðlilegt, að þeir, sem byggja stórar byggingar, þurfi að taka einhvern hluta af lánunum með t.d. hærri vöxtum.

Ég held, að ég láti þetta duga í bili.