17.04.1973
Neðri deild: 95. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3713 í B-deild Alþingistíðinda. (3339)

214. mál, atvinnuréttindi skipstjórnarmanna

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að taka undir orð síðasta hv. ræðumanns, því að svo virðist vera orðið í sambandi við öll sjávarútvegsmál hér á hv. þingi, að það er bara um leið og það kemur annað hvort frá hæstv. sjútvrh. eða hæstv. samgrh., þá hleypur formaður viðkomandi n., samgn. eða sjútvn., til og afgreiðir það, þótt menn séu ekki viðstaddir og án þess að fá nokkrar umsagnir. Hann bara les hér upp í belg og biðu: við mælum með þessu, við mælum með þessu, — þótt menn hafi ekki tækifæri til þess að mæta á fundum. Og auðvitað lýsir það alveg óskaplega miklum bjálfahætti, að hann leyfir sér að lýsa því yfir, að skipstjóri hjá landhelgisgæzlunni geti ekki orðið skipstjóri á verzlunarskipi. Hvers konar fáráðlingsháttur er þetta hjá samgn. þingsins, Alþingis Íslendinga, að láta sér þetta um munn fara? Ég er hissa á því. Ég heyri það og sé eða sé það miklu frekar á hv. 3. þm. Norðurl. v., okkar ágæta bónda, Birni Pálssyni að hann er farinn að skammast sin fyrir slíka afgreiðslu, sem von er. Ef það kemur fram ósk um það frá L.Í.Ú., þá á að samþ. allan andskotann hér, en þó að Farmanna- og fiskimannasamband Íslands og Siglingamálastofnunin segi að það þurfi að leiðrétta og gera vissar aths. við og breytingar á frv., þá má ekki hlusta á það. Gott og vel. Ef hv. frsm. svokallaðs meiri hl. n. telur, að hann sé hér málsvari afgreiðslustofnunar fyrir L.Í.Ú., þá hann um það. En ég tek undir orð síðasta ræðumanns um það, að þetta eru ekki nokkur vinnubrögð. Það hafa að vísu góðir menn unnið að þessu máli, en það er hins vegar alveg rétt, að það er ekki hægt að bera saman ákveðin störf innan þess hóps manna, sem tekur það próf frá stýrimannaskólanum og sjómannaskólanum, sem þarna er um að ræða. Sá maður, sem hefur unnið í landhelgisgæzlunni allan sinn starfsferil, er á engan hátt hæfur til annars en að sigla varðskipum. Hann hefur enga þá þekkingu til að bera, sem þarf til að meðhöndla vörur, hvorki við vörulestun né losun, og allt, sem tilheyrir, sem er miklu stærra atriði í starfi þeirra en nokkurn tíma siglingin eða það að skjóta púðurskotum á enska landhelgisbrjóta.