17.04.1973
Neðri deild: 96. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3723 í B-deild Alþingistíðinda. (3352)

238. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki tefja umr. eftir miðnætti, en hv. frsm. gaf mér tilefni til þess að segja hér aðeins örfáar setningar. Hann vitnaði í grein í Morgunblaðinu frá síðasta laugardegi og fannst eitthvað ekki rétt sagt þar. Í greininni er talað um, að fullyrt sé, að ekki verði unnt að fullnægja lánsfjárþörfinni, þótt þetta frv. verði samþ. En ég segi í greininni, að ef svo verður, þá verður að taka upp nýja stefnu. Ég hef aldrei fullyrt, að það verði ekki unnt að fullnægja lánsfjárþörfinni, en það hafa aðrir fullyrt. Síðar get ég sagt hv. þm. nafn eða nöfn, ef hann hefur aldrei heyrt neinn fullyrða um lánamöguleika stofnlánadeildarinnar. En ég vil taka það fram, að ég hef ekki fullyrt neitt um þetta. Ég sagði hér í gær, að e.t.v. muni hæstv. landbrh. útvega fjármagnið, enda þótt það hefði ekki verið gert í framkvæmdaáætluninni og enn hafi ekki sézt till. um, hvernig að því verði farið. En það hefur oft verið svo við landbúnaðarsjóðina, að fjármagn hefur verið útvegað eftir á, og þess vegna hef ég ekkert fullyrt. En það hafa aðrir gert, og ég er hér um bil viss um, að hv. þm., sem talaði hér áðan, hefur heyrt fullyrðingar í þessa átt, en það skiptir ekki máli.

Annað var það í greininni, sem hv. þm. var ekki alveg sáttur við. Það var, að ef ekki væri hægt að fullnægja lánsfjárþörfinni á þessu ári, þá yrði að taka upp nýja stefnu, því að áður hafi bændur alltaf fengið lán, hafi þeir uppfyllt lánaskilyrði samkv. reglum bankans. Þannig hefur þetta alltaf verið, það veit hv. þm. Hitt er rétt, að sú regla var upp tekin að veita aðeins lán út á eina framkvæmd á ári. Þeim reglum hefur verið fylgt.

Ég vildi óska þess, að hæstv. ráðh. gæti útvegað þær 220 millj. kr. sem virðist vanta, þegar miðað er við þá fjáröflun, sem núna er fyrir hendi, og þá áætlun á lánsfjárþörf, sem birt er á fskj. með því frv., sem við nú erum að ræða um.

Ég sé ekki ástæðu til, að ég eyði hér lengri tíma í nótt til þess að ræða þetta frekar. Ég vildi aðeins leiðrétta þann misskilning, sem mér virðist koma fram hjá hv. frsm. hér áðan.