17.04.1973
Sameinað þing: 74. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3725 í B-deild Alþingistíðinda. (3355)

306. mál, radíóstaðsetningartæki skipa

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson) :

Herra forseti. Spurt er um í fyrsta lagi, hvað liði framkvæmd þál. um athugun á radíóstaðsetningarkerfum fyrir siglingar með sérstöku tilliti til fiskveiða, sem samþykkt var á Sþ. 18. apríl 1967? Og í öðru lagi: „Hefur ákvörðun verið tekin um að setja slíkt kerfi upp hér á landi, annað en Loran-kerfið?“

Fsp. um þetta kom fram á Alþ. 1971, og svaraði fyrirrennari minn í embætti samgrh. því þá á Alþ. með mjög ítarlegri skýrslu, sem ég vil nú ekki eyða tíma til að endurtaka, en það mundi sjálfsagt taka einar 15—20 mínútur. Það var mjög ítarlegt svar, og ég vil vísa til þess. Samsvarandi spurningu var sem sé svarað mjög ítarlega, og er það svar til í þskj. Síðan skeði það, að ákvörðun var tekin um uppbyggingu Omega-ákvörðunarkerfisins um allan heim og á þeim grundvelli að notendur þyrftu ekki að bera neinn beinan kostnað af rekstri eða uppsetningu þess kerfis, heldur aðeins greiða móttökutækin, sem ekki eru mjög dýr. N., sem í þetta var skipuð og starfar enn, taldi því rétt, þar sem þegar voru upp settar tilraunastöðvar, að bíða með endanlegt álit, þar til fyrir lægju niðurstöður um árangur af þeim. Fullnaðarreynsla hefur þó ekki fengizt um nákvæmni eða gagnsemi Omega-kerfisins, enda eru endanlegar sendistöðvar ekki enn þá að fullu í notkun og því styrkur og fjöldi stöðva minni en verða mun síðar. N. vinnur nú að lokaskýrslu, sem gengið verður frá innan fárra vikna, en fyrirvari mun þó vera á um það, hvort réttur tími til ákvörðunar sé nú.

Í þessari n., sem hér um ræðir, eru Aðalsteinn Júlíusson vita- og hafnamálastjóri, Leifur Magnússon hjá flugmálastjórninni og Hörður Frímannsson. Ég tel þetta mál vera svo sérfræðilegs efnis, að hér verði að byggja á áliti sérfræðinga. Þessi n. hefur starfað og gefið fyrrv. ríkisstj. og núv. ríkisstj. svör um störf sín, og verð ég af minni hálfu að láta við það sitja.