17.04.1973
Sameinað þing: 74. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3733 í B-deild Alþingistíðinda. (3367)

308. mál, olíumöl

Jón Árnason:

Herra forseti. Það er aðeins stutt athugasemd. - Eins og kunnugt er, hefur um allmörg undanfarin ár verið nokkur upphæð í vegáætluninni, sem ætlunin er að verja til athugunar og tilrauna á lagningu vega úr varanlegu efni. Nú er það svo, að það liggja litlar upplýsingar fyrir hér á hinu háa Alþ. um það, hver árangurinn hefur orðið í þessum efnum hjá Vegagerðinni, og væri fróðlegt að fá upplýsingar um það. Menn muna eftir því, að um það var deilt allmikið, þegar Reykjanesbrautin var lögð, hvort ætti að leggja hana úr malbiki eða steinsteypu. Það sjá allir sjálfsagt í dag, að það var mikið happaspor, sem stigið var, þegar var horfið frá því að nota malbikið. Sérstaklega ætti það að vera mönnum ljóst í dag, þegar menn sjá höfuðborgargöturnar, hvernig þær eru útlitandi eftir veturinn, að það hefði kannske orðið nokkuð svipað með þá fjölförnu umferðarbraut, Reykjanesbrautina, ef hún hefði verið lögð úr eitthvað svipuðu efni. Sama má segja í sambandi við hraðbrautina frá Elliðaám upp í Kollafjörð. Það var upphaflega gert ráð fyrir því, að sá vegarkafli yrði lagður malbiki, en það kom í ljós, að mismunur á verði vegarins með því að gera hann úr steinsteypu, en ekki malbiki, var ekki nema um 11 millj. kr. Sjá allir, að hér er um óverulega fjárupphæð að ræða í sambandi við það, hvað notagildi vegarins verður miklu öruggara og betra um langa framtíð. Ég hygg, að Vegagerðin og þeir sérfræðingar, sem hafa þessi mál með höndum, ættu sem fyrst að gera sér grein fyrir því, að þrátt fyrir fjárfestingarkostnaðarmun, sem liggur í því að leggja vegina, sérstaklega hraðbrautirnar, fjölförnustu akvegina, úr steinsteypu, mun það, þegar til lengdar lætur, verða miklu hagstæðara og affarasælla fyrir þjóðina.