17.04.1973
Sameinað þing: 74. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3733 í B-deild Alþingistíðinda. (3368)

309. mál, aflsþörf raforku á Norðurlandi

Fyrirspyrjandi (Lárus Jónsson) :

Herra forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 499 að leggja fram tvær fsp. til orkuráðherra í nokkrum liðum. Fsp. eru varðandi áform ríkisstj. um að afla raforku fyrir Norðlendinga með háspennulínu yfir öræfi landsins. Með þeirri ákvörðun er það mat forustumanna Norðlendinga, að ríkisstj. hafi tekið frumkvæði í orkumálum úr höndum heimamanna, sbr. samhljóða ályktun Fjórðungsráðs Norðlendinga á nýlega afstöðnum fundi ráðsins. Með tilliti til hinnar miklu óvissu, sem nú er í raforkumálum Norðlendinga og raunverulegs neyðarástands, sem skapazt hefur í kjölfar þessarar ákvörðunar, leikur forustumönnum Norðlendinga eðlilega forvitni á að vita gerla, á hvaða forsendum þessi ákvörðun hefur verið tekin og hvaða afleiðingar hún hefur.

Fsp. mínar eru nær samhljóða spurningum, sem Fjórðungssamband Norðlendinga hefur beint fyrir allnokkru til orkuráðherra, en ekki fengið svar við, að því er ég bezt veit. Það hefur áður komið fram hér á hinu háa Alþ., að frumáætlanir benda til þess, að umrædd háspennulína kosti ekki minna en 300–600 millj. kr., eftir því, hvernig hönnun er háttað, en mér er tjáð, að nýjustu rannsóknir bendi til þess, að hún verði miklu dýrari. Það hefur einnig komið fram hér á hinu háa Alþ., að flutningskostnaðurinn með línunni fyrstu árin yrði margfalt hærri en raforkuverð frá virkjun á Norðurlandi, t.d. gufuaflsvirkjun við Námafjall eða Kröflu, auk þess sem öryggi yrði meira í orkuöflun með þeim hætti en með háspennulínu yfir öræfi landsins.

Ég fer þó ekki frekar út í þessa sálma hér, þar sem hæstv. orkuráðherra er ekki viðlátinn, en vil vænta þess, að hæstv. ráðherra, sem gegnir störfum hans, muni svara þessum fsp.