07.11.1972
Sameinað þing: 13. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 579 í B-deild Alþingistíðinda. (337)

37. mál, fjárlagaáætlanir

Flm. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það er ekki ýkjalangt síðan hafin var hér á landi skýrslusöfnun, sem gæti orðið grundvöllur að gerð þjóðhagsáætlana, eins og tíðkast með þeim þjóðum, sem lengst eru komnar á því sviði. Það er raunar fyrst með tilkomu Efnahagsstofnunarinnar, sem kerfisbundið er tekið að vinna að söfnun gagna til slíkra áætlana, því að enda þótt hagstofan hafi áður verið starfandi hér, hafði hún annað verkefni, fyrst og fremst gagnasöfnun á öðrum sviðum. En þegar talað er um þjóðhagsáætlanir, þá er átt við áætlanagerð, sem leggi grundvöll að því að skoða einstaka þætti þjóðarbúskaparins og hvernig hann muni þróast í ákveðnar áttir fyrir tiltekið tímabil.

Fyrsta áætlanagerð fyrir framkvæmdir til meira en eins árs var sú framkvæmdaáætlun ríkisstj., sem gilti fyrir tímabilið 1963–1966. Síðan hafa framkvæmdaáætlanir ríkisins eingöngu verið gerðar til eins árs í senn. Aftur á móti hafa ýmsar aðrar áætlanir þróast á einstökum sviðum og hafa birzt í t.d. vegáætlun, sem nú er gerð til fjögurra ára, endurskoðuð að vísu á tveggja ára tímabili. Það hafa verið gerð drög að hafnaáætlunum, að áætlanagerð hefur verið unnið í sambandi við skólabyggingar, og ýmsir fleiri þættir hafa komið til meðferðar í sambandi við þróun framkvæmda í þjóðfélaginu. Það er hins vegar svo, að fjárhagsáætlun hefur aldrei verið gerð nema fyrir næsta fjárhagsár, þ.e.a.s. þau fjárlög. sem eru til meðferðar á hverju þingi og gilda eiga fyrir næsta fjárhagsár. Hjá þeim þjóðum, sem lengra eru komnar í áætlanagerð, og má þar nefna allar Norðurlandaþjóðirnar, hefur þótt sjálfsagt og alllengi verið framkvæmt að birta áætlanir, þ.e.a.s. rammaáætlanir til lengri tíma. Það er gert vegna þess, að nauðsynlegt þykir að fylgjast með og gera sér nokkra hugmynd um það, hvernig þjóðarbúskapurinn, þ.e.a.s. ríkisbúskapurinn í þrengri merkingu muni þróast, jafnhliða því sem reynt er að gera sér grein fyrir, hvernig efnahagsþróunin verður að öðru leyti.

Það gefur auga leið, hversu mikla þýðingu það hefur, ef hægt væri að gera slíkar rammaáætlanir nokkur ár fram í tímann, t.d. 3, 4, 5 ár fram í tímann. Alþ. hefur til meðferðar á hverju ári fjölda till., ýmist bornar fram af ríkisstj. eða einstökum þm, bæði í frumvarpsformi og þál., þar sem grundvöllur er lagður að stórauknum útgjöldum ríkisins. Það er mjög sjaldan, að menn geri sér nokkra raunhæfa grein fyrir því og að fyrir liggi nokkrar áætlanir um það, hvað þetta muni kosta og hverjar afleiðingarnar muni verða, þegar til lengri tíma er horft. Þessir baggar eru teknir á ríkissjóðinn á hverju þingi án allrar yfirsýnar um það að þingi loknu, hvað mann í rauninni hafa samþykkt að leggja á herðar borgaranna.

Ég held, að það mundi vera ákaflega gagnlegt, ef auðið væri að gera sér einhverja grein fyrir því, hvaða horfur væru nokkur ár fram í tímann um afleiðingar þeirra verka, sem við erum hér á hverju þingi að vinna að. Margt er þetta gott og nytsamlegt, en það verður að sjálfsögðu að velja og hafna. Eitt atriði skiptir meginmáli að sjálfsögðu í því sambandi, og það er að gera sér grein fyrir, hvað menn eru reiðubúnir að leggja miklar heildarkvaðir á þjóðfélagsborgarana. Þetta hafa menn í rauninni enga hugmynd um, eins og málum er nú háttað. Við sjáum fjárl. vaxa ár frá ári, mismunandi mikið, en þó með nokkuð vaxandi hraða. Það hlýtur að valda auknum áhyggjum og vekja þær spurningar í hugum margra, ekki sízt hv. þm., hvert stefnir í þessu efni, hvaða afleiðingar hefur það, sem við erum að gera, og erum við ekki að leggja á herðar framtíðarinnar byrðar, sem ekki verður undir risið nema með þeim hætti að taka svo mikið af þjóðartekjum eða þjóðarframleiðslu til opinberra þarfa, að það lami heilbrigða þróun í þjóðfélaginu? Það er vitað, að sumar þjóðir eru þegar það langt komnar, að uggvænlega horfir, og má þar nefna þá þjóð, sem lengst er komin í þessu efni, og það eru Svíar, sem taka nú orðið mest allra þjóða til sameiginlegra þarfa eða um 40.9% af vergri þjóðarframleiðslu. Nokkrar aðrar þjóðir eru þegar komnar á sama stig, eins og t.d. bæði Noregur og Holland. Þetta er farið að valda áhyggjum í þessum löndum, og menn eru uggandi um það, hvernig eigi að snúast við þessari þróun, því að það vitum við mætavel, að erfiðara er að snúa hjólinu við, draga úr útgjöldum, eftir að þau einu sinni hafa verið ákveðin.

Till. sú, sem ég hef leyft mér hér að flytja, fjallar um það að skora á ríkisstj. að fela fjárlaga- og hagsýslustofnuninni að gera fjögurra ára áætlun um þróun útgjalda og tekna ríkissjóðs miðað við gildandi lagaskuldbindingar, eins og þær eru, þegar áætlunin er gerð, og miðað við þær tekjuleiðir, sem þá eru samkv. gildandi lögum. Varðandi ólögbundin útgjöld yrði miðað við sennilega þróun og þá höfð hliðsjón af þeirri þróun, sem verið hefur í þeim útgjöldum á undanförnum árum, og að því verði stefnt, að þessar rammaáætlanir geti fylgt fjárlagafrv., eins og hefur verið stefnt að varðandi framkvæmdaáætlun ríkisins fyrir hvert einstakt ár.

Nú munu kannske einhverjir spyrja, af hverju ekki hafi verið hlutazt til um þetta fyrr og hvernig á því standi, ef ég telji svo mikilvægt að hefjast handa um þetta nú, að ég hafi ekki gert það þau 6 ár, sem ég fór með embætti fjmrh. Því er fljótt til að svara, að ég lét hefja athugun á þessu þegar á árunum 1965 og 1966, en þá fól ég dr. Gísla Blöndal, sem nú er hagsýslustjóri, að kanna þetta mál. athuga, hvað gert væri á Norðurlöndum í sambandi við þessar langtímaáætlanir og hvaða forsendur væru fyrir því hér á landi að gera slíkar fjárlagaáætlanir til nokkurra ára. Hann vakti athygli á því, að þó að mjög æskilegt væri, að þessar áætlanir væru gerðar, þá skorti hér til þess, eins og þá stóðu sakir, vissar forsendur, ekki sízt þær, að fjárlagagerð öll og uppsetning ríkisreiknings væri með þeim hætti, að það væri ekki hægt að byggja slíkar langtímaáætlanir á jafnófullkomnum plöggum. Það væri því forsenda þessa máls að umskapa algerlega gerð ríkisreiknings og fjárlaga. Þetta var gert, eins og hv. þm. vita, með setningu nýrra laga 1966 um gerð ríkisreiknings og fjárl., sem fólu í sér algera umsköpun fjárlagafrv. Mönnum þótti að vísu sitthvað um og sýndist ekki öllum hið sama, hvort það væri til bóta fyrst í stað, en ég hygg, að allir hafi nú gert sér grein fyrir, að það hafi verið til stórra bóta. Skýrslugerð öll í sambandi við fjárl. og ríkisreikninginn var færð í það horf að gera mögulegt að framkvæma slíka áætlunargerð. Fjárl. 1968 voru fyrstu fjárl., sem samin voru eftir þessum nýju l., þannig að eftir það var ekki mikið svigrúm til þess að framkvæma þessa áætlunargerð. Það er í rauninni fyrst nú allra síðustu árin, sem hefði verið auðið að hleypa af stokkunum slíkum bráðabirgðafjárlagaáætlunum, eins og ég er að ræða um. Það er einnig ljóst, eins og ég sagði í upphafi máls míns, að ýmsar þjóðhagslegar athuganir á vegum Efnahagsstofnunarinnar og nú Framkvæmdastofnunarinnar- hafa smám saman verið að þróast með þeim hætti, að þessi fjárlagaáætlunargerð er nú orðin mun auðveldari, bæði eftir setningu l. um fjárlög og ríkisreikning og þær margvíslegu áætlanir, sem nú er farið að vinna að á vegum fjárlaga- og hagsýslustofnunarinnar annars vegar og Framkvæmdastofnunarinnar núverandi, áður Efnahagsstofnunarinnar, hins vegar.

Hér er að sjálfsögðu ekki um að ræða neina áætlanagerð, sem feli í sér neinn sósíalisma né neitt slíkt. Þessar áætlanir eru jafnnauðsynlegar, hvort sem er sósíalistískt hagkerfi eða frjálst hagkerfi, eins og við teljum okkur hafa hér. Þetta er aðeins spurning um það að hafa einhverjar leiðbeiningar fyrir sér. þegar menn eru að taka jafnþýðingarmiklar ákvarðanir og hér eru teknar á Alþ., ef menn vilja ekki stefna í þá átt, sem ég hygg, að enginn hv. þm. vilji gera, að ganga svo langt í skattheimtu á þjóðfélagsborgarana, að það horfi til þess samdráttar í framtaki og viðleitni til tekjuöflunar, sem það hlýtur að hafa, ef of langt er gengið í því að taka til sameiginlegra þarfa það, sem þjóðfélagsborgararnir vinna sér inn.

Í grg. með þessari till. er sagt, að Ísland sé ekki enn orðið í fremstu röð þeirra þjóða, sem mesta gjaldheimtu hafa af borgurunum. Það er rétt. En það stefnir þó í þá átt. Ég hef hér fyrir mér nokkrar tölur um það efni, aðeins til að gefa hugmynd um, hvernig þessi mál hafa þróazt. Þau hafa auðvitað ekki þróazt í samræmi við það, sem tölur fjárl. segja hverju sinni, vegna þess að þær eru ekki algildur mælikvarði á það, hvort um er að ræða aukningu skattbyrðar eða ekki, heldur er matið á því sviði fólgið í þeirri forsendu, hvort við tökum hlutfallslega meira af þjóðartekjunum til opinberra þarfa, en áður hefur verið. Þetta hefur verið nokkrum breytingum háð á undanförnum árum, og hefur það verið ýmist til hækkunar eða lækkunar, þannig að prósentutala hefur verið frá 28% til 30% fram til 1970. Hún hefur stundum farið yfir þetta mark, upp í 32% 1967 og 1968 og aftur niður í 29% 1969. 1970 eru heildarskatttekjurnar áætlaðar 32.1% af þjóðarframleiðslunni, og spáin fyrir 1972 er 34.5% eða 2.4% hækkun á þessu eina ári. Það sýnist því stefna í þá átt, með hliðsjón af þeim fjárl., sem við höfum nú til meðferðar, að þessi prósentutala fari hækkandi. Þó að við séum ekki komin í hæsta mark hinna svokölluðu velferðarríkja að þessu leyti, stefnir þróunin, að því er virðist í þá átt, að við komumst í flokk þeirra þjóða, sem efstar eru þar á blaði, þannig að fullkomin ástæða er til þess að íhuga, hvert við stefnum.

Ég sé ekki ástæðu til, herra forseti, að hafa um þetta fleiri orð, nema sérstakt tilefni gefist til. Ég held, að það geti naumast verið ágreiningur um, að það væri mjög æskilegt, ef hægt væri að gera fjárlagaáætlanir sem þessar, rammaáætlanir, sem að sjálfsögðu þyrfti þá að endurskoða á hverju ári við gerð hverra nýrra fjárlaga. Ég held, að það yrði okkur mikill leiðarvísir, þegar við erum að afgera hér mál, oft og tíðum að vísu mikil umbótamál, sem kosta mikið fé, ef við getum séð nokkuð fram í tímann, hvaða byrðar þetta hefur í för með sér. Ekki sízt er þetta mikilvægt í litlu þjóðfélagi sem okkar, þar sem við verðum óumflýjanlega að velja og hafna, velja á milli hinna ýmsu mála, sem við gjarnan vildum þoka áleiðis. Þetta gæti gefið okkur grundvöll til þess, að samtímis því sem við þokuðum áfram þeim málum, sem mikilvægust væru á hverjum tíma, gætum við þó gætt þeirrar hófsemi í skattaálögum, sem ég vona, að við öll séum sammála um að vilja gæta, að ekki verði seilzt of langt ofan í vasa þjóðfélagsborgaranna um skattheimtu til opinberra þarfa, þannig að farið sé yfir það mark, þar sem beinlínis hlýtur að stefna í öfuga átt, þ.e.a.s. ef gjaldheimtan nær vissu marki, þá veldur það samdrætti í þjóðartekjum og þjóðarframleiðslu.

Ég legg svo til, herra forseti, að till. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. fjvn.