17.04.1973
Sameinað þing: 74. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3740 í B-deild Alþingistíðinda. (3378)

249. mál, endurskoðun bankakerfisins

Fyrirspyrjandi (Bjarni Guðnason):

Herra forseti. Tilefni þessarar fsp. er það, að hæstv. viðskrh. hefur tvívegis á þessu þingi lýst því yfir afdráttarlaust, að lagt yrði fram frv. um endurskoðun bankakerfisins á þessu þingi, sem nú stendur yfir og er að ljúka. Þetta er að sjálfsögðu stórmál og því vert að vita nokkuð um gang málsins. Þess vegna hef ég borið fram fsp. til viðskrh. á þskj. 659 um þetta mál. Hún hljóðar svo:

„Hvað veldur því, að frv. um endurskoðun bankakerfisins hefur ekki verið lagt fram á þessu þingi?“

Í þessu sambandi væri einnig vert að fá að vita, hvort ríkisstj. sé hætt við það áform sitt að leggja fram frv. varðandi þetta efni. Ef svo er ekki, hvaða ágreiningur er uppi um þessi mál, ef um ágreining er að ræða? Og í þriðja lagi má einnig bæta við: Hvernig hyggst ráðh. standa að framvindu þessa máls á næstunni?