17.04.1973
Sameinað þing: 74. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3741 í B-deild Alþingistíðinda. (3380)

249. mál, endurskoðun bankakerfisins

Fyrirspyrjandi (Bjarni Guðnason):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir svörin. Það kom fram, að málið væri enn í athugun, og af því virðist hægt að álykta, að ráðh. hafi verið of bráður, þegar hann lýsti því tvívegis yfir, að frv. yrði lagt fram á þessu þingi. En það er ekkert við það að athuga, þó að menn sjái síðar meir, að málið þurfi frekari athugunar við. Aðalatriðið er, að sjálfsögðu, að þetta frv. og þessi endurskoðun komi fram, þannig að hér verði rösklega tekið á málum.

Ég vil í þessu sambandi þakka fyrir það, að áliti bankamálanefndar hefur verið útbýtt meðal þm. Þar eru mörg fróðleg og athyglisverð atriði dregin fram. Ég vil aðeins leyfa mér til áréttingar því máli, sem ég hef flutt, að lesa upp úr þessari skýrslu örstutta klausu á bls. 2, með leyfi hæstv. forseta:

„Hér á landi eru nú starfandi alls 96 innlánasstofnanir: 7 viðskiptabankar, 51 sparisjóður, 37 innlánsdeildir samvinnufélaga og Söfnunarsjóður Íslands, auk 17 fjárfestingarlánasjóða og Seðlabanka Íslands. Enginn vafi er á því, að hér er miklu meiri fjöldi stofnana en hagkvæmt getur talizt, auk þess sem margar þeirra eru of smáar, til þess að þær geti uppfyllt sjálfsagðar öryggiskröfur. Af samanburði við hin Norðurlöndin má ráða, að bankastarfsemi hér á landi taki hlutfallslega meira af mannafla og framleiðslugetu þjóðarinnar en á hinum Norðurlöndunum. Þótt strjálbýli landsins og fámenni kunni að valda hér nokkru um, er orsakanna áreiðanlega ekki síður að leita í því skipulagi, sem hér ríkir í þessum málum“.

Svo mörg eru þau orð. En ég vil aðeins að endingu segja það, að ég vænti þess, að þessu máli verði fylgt eftir og ekki horfið frá því stefnumáli, sem mótað er í málefnasamningi ríkisstj.