17.04.1973
Sameinað þing: 74. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3743 í B-deild Alþingistíðinda. (3384)

251. mál, bætt aðstaða ferðafólks og verndun ferðamannastaða

Félmrh. (Hannibal Valdimarason) :

Herra forseti. Fyrir þessu hv. þingi hefur legið frv. um skipulag ferðamála, en svo virðist af einhverjum ástæðum, að ætlunin sé að kistuleggja það, og kemur þó slík lagasetning víða við. Skipulag á ferðamálum er áreiðanlega þýðingarmikið fjárhagslegt atriði fyrir marga aðila þjóðfélagsins. En af einhverjum ástæðum virðast menn vilja fresta lögfestingu þessa frv., sem mjög mundi þó festa skipulag ferðamálanna. Í þessu frv. eru ákvæði um að leggja fram verulegt fé til þeirra hluta, sem um er rætt í þessari fsp. Það þarf ekkert að velta vöngum yfir því, að framkvæmdir, sem hér er spurt um, kosta fé og það talsvert fé. Fyrir árið 1973 voru veittar 450 þús. kr. til að bæta hreinlætisaðstöðu á fjölförnum ferðamannastöðum, og það er vitanlega brýn nauðsyn, þýðingarmikið atriði. En af þeirri upphæð er helmingur bundinn við staðinn Laugarvatn. Hér er því ekki úr miklu að moða þrátt fyrir eindreginn áhuga rn. á því að sinna þessum málum. Hafa verið gerðar athuganir á helztu úrlausnarmöguleikum, og þær athuganir standa raunar yfir enn. Endanlega hefur ekki verið ákveðið, hvernig þessum kannske 200 þús. kr., sem afgangs eru frá bundnu verkefni, verði varið, en það skal tekið fram í sambandi við þessa fsp., að staðir eins og Mývatn, Ásbyrgi, ásamt Landmannalaugum og Þórsmörk, eru ofarlega á blaði. En hver þessara staða þyrfti miklu meira fjármagn til brýnustu úrbóta, að því er þessa hlið málsins snertir, ef vel ætti að vera og þeir eiga ekki að bíða meira eða minna afhroð af umferðinni. Þessu fjárhagslega atriði þarf því að sinna, þótt það sé ekki stórbrotið.

En því verður ekki sinnt án fjármagns. Svar mitt við fsp. er því, að það er engra úrbóta að vænta í þessu efni, nema hv. Alþ. annað hvort afgreiði frv. um skipulag ferðamála eða ákveði fjármagn með öðrum hætti til þessara aðgerða.