17.04.1973
Sameinað þing: 75. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3779 í B-deild Alþingistíðinda. (3402)

Skýrsla forsætisráðherra um Framkvæmdastofnun ríkisins

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Þegar frv. um Framkvæmdastofnun ríkisins var lagt fram á sínum tíma, urðu um það í báðum deildum miklar umr., sem ég ætla ekki að rekja neitt nánar að öðru leyti en því, að ég ætla að minna á fsp., sem ég gerði til hæstv. forsrh. vegna skipulagsbreytingar, sem var gert ráð fyrir í frv., og með leyfi forseta ætla ég að lesa upp, hvað ég spurði hæstv. forsrh. um, og svar hans, og mun svo fjalla nokkru nánar um, hvað mér sýnist í því efni, að sé fram undan núna. Ég sagði svo:

„Svo vil ég aðeins minna á það, að sú var tíðin í sambandi við atvinnujöfnunarsjóð, — hann hét nú annað þá, — að þar var dregin ákveðin bannlína og .yfir þessa bannlínu fékk ekkert fjármagn að fara. Nú er það svo, að þegar jafnmikilvægur sjóður og byggðasjóður starfar hér á landi og á að fá mikið fjármagn, sbr. 33. gr., þá vil ég gjarnan vita, hvort nokkur maður hefur það í huga að draga ákveðna bannlínu og segja: Handan þessarar línu renni ekkert fjármagn frá þessum sjóði.“

Í langri svarræðu við fsp. frá okkur stjórnarandstöðumönnum svarar hæstv. forsrh. mér m.a. með þessum orðum, með leyfi forseta:

„Þá spurði hv. þm. um það, hvort það væru einhverjar bannlínur í þessu frv., þannig að byggðaaðstoð mætti ekki fara nema til ákveðinna landshluta. Það er ekki gert ráð fyrir neinni bannlínu í þessu sambandi, og geta allir landshlutar og allar byggðir komið þarna til greina, eftir því sem þörf krefur hverju sinni .“

Ég var mjög ánægður með þessa afstöðu hæstv. forsrh. og vænti þess, að hún sé ekki neitt breytt í dag. En mér virðist samt sem áður, að einhver öfl í stjórn byggðasjóðs séu mjög áhugasöm um að mynda nú þessa línu og hafa gert um það samþykktir, sbr. stjórnarfund 27. 3. 1973. Með leyfi forseta verð ég að fá að lesa hér 1. lið:

„Heimilt er að veita lán vegna fiskiskipa á svæðinu frá Akranesi vestur um, norður og austur um land til Þorlákshafnar, að báðum stöðum meðtöldum, svo og í Vestmannaeyjum. Heimilt er þó að víkja frá þessu ákvæði, verði um alvarlegt atvinnuleysi að ræða“.

Hvað er hér í uppsiglingu? Ég ætla ekki að nefna línuna. hvað hún var kölluð á sínum tíma. Það muna flestir þm. eftir því. Ég vara við þessari hugsun vegna þess, að það hlýtur að vera sanngjarnt, að stærsta vertíðarsvæði landsmanna. Reykjanesið ásamt Reykjavík, hafi möguleika á að fá eðlileg lán til uppbyggingar atvinnulífsins eins og aðrir staðir á landinu. Ég er ekki með þessu móti á nokkurn hátt að draga úr því, að byggðasjóður, eins og hv. formaður sagði áðan, meti og hafi hliðsjón af hagsmunum dreifbýlisins. Ég er ekki á nokkurn hátt að draga úr því, það er hans meginhlutverk. En ég vara við því að fara að búa til ákveðna línu, þar sem er bannað, að fjármagn fari yfir, þegar í hlut eiga t.d. ágætir útvegsmenn eða ágætir frystihúsamenn, sem halda uppi mikilvægu atvinnulífi á þessum stað. Og þetta finnst mér stinga í stúf við þau orð, er hæstv. forsrh. sagði á sínum tíma. Ég trúi ekki öðru og ég treysti honum fyllilega til þess, að hann beiti áhrifum sínum í þá átt, að sú hugsun, sem hér skýtur upp kollinum, fái ekki fylgi, því að þótt þeir meti þetta eftir þörfum, þá finnst mér þetta orðalag gefa það ótvírætt í skyn, — ég segi, mér finnst það gefa það ótvírætt í skyn, að það eigi að fara að binda þetta næstum algerlega, binda línu, sem bannar það, að mönnum sé hjálpað með eðlileg stofnlán.

Það kom fram í umr. um fiskveiðasjóð í hv. Ed., að hæstv. sjútvrh. taldi eðlilegt, að innanlandssmíðin fengi 75% og erlenda smíðin 67% af stofnlánum. Einnig gat hann þess, að svokölluð 5% lán og 10% lán hefðu verið í gildi, en um þau ættu að ríkja önnur sjónarmið. Þau sjónarmið skildi ég svo, að þau væru að efla iðnaðinn í landinu með sérstökum hagkvæmum lánum til þeirra skipa, sem skipasmiðastöðvarnar innlendu framleiddu. En vitanlega kaupa menn skip, hvar sem þeir eru staddir á landinu, hjá mismunandi skipasmiðastöðvum eftir getu skipasmiðastöðvanna til að smíða skipin. Mér virðist, ef þessi hugmynd kemst í framkvæmd, að það sé að nokkru leyti verið að leggja eins konar líkklæði yfir endurnýjunarmöguleika á þessu svæði í útgerðinni, og það nær ekki nokkurri átt að sætta sig við slíkt. Þessu mótmælti þm. Alþfl., sem sat þann fund, Stefán Gunnlaugsson, og lét bóka eftir sér sérstaka bókun í þessu sambandi, orðrétt þannig, með leyfi forseta:

„Tel ástæðulaust, að skilgreint sé með þeim hætti, sem gert er í 1. gr. starfsreglnanna, hvar þau fiskiskip skuli staðsett, sem heimilt er að veita lán til“.

Jafnvel þó að þessar reglur hafi nú verið samþykktar, vænti ég þess, að stjórnin beiti þeim ekki á þann veg, sem ég óttast, — ég vænti þess, — heldur meti það, hvort viðkomandi aðilar, sem sækja um lán, þótt þeir búi á Reykjanessvæðinu eða í Reykjavik, séu hæfir til þess að fá lánin og séu menn til þess að reka sín fyrirtæki á heilbrigðan og eðlilegan hátt. Það hlýtur að vera grundvallaratriði í lánsveitingum, annað er óheilbrigt. Og ég undirstrika enn, að ég styð það fyllilega, að byggðasjóður sinni landsbyggðinni eftir getu. En það er útilokað að draga svona hugsun fram, það er gersamlega útilokað í dag. Og ég treysti hæstv. forsrh. að leggja því lið, að það, sem hann sagði réttilega á sínum tíma, haldi áfram og standi, ég treysti honum til þess.

Matthías Bjarnason sagði: „Það má endalaust deila um útlánareglur byggðasjóðs“. — Auðvitað má alltaf deila um þetta. En ég held, að við hljótum allir að vera sammála um, að það er óheilbrigt að draga slíka línu um ákveðið svæði, eins og mér virðist vera ætlunin að gera þarna. Þrátt fyrir það að mikil þensla er á þessu svæði og margir óttast ofþenslu á svæðinu, þá verða þessir ágætu stjórnarmenn að meta það, að frá þessu svæði kemur gífurlegt fjármagn inn í sjóðina vegna margvíslegar skattlagningar á atvinnugreininni, og það er ekkert smáræðis fjármagn, eins og Matthíasi er mjög vel kunnugt um, sem sjávarútvegurinn á Reykjanesi og Reykjavík leggur t.d. tryggingakerfinu til vegna arðsemi þeirra báta, sem hér eiga heima. Menn þar munu því ekki sætta sig við, að þeim sé neitað um eðlilega lánafyrirgreiðslu, ég er alveg viss um það. Ég vænti þess, að ótti minn sé ástæðulaus og að hv. stjórn byggðasjóðs muni endurskoða þessa afstöðu, að útiloka ákveðið svæði frá rétti til heilbrigðra lána, þótt umfram lán séu fram yfir 75% eða 67% af smíðaverði skipa.

Framkvæmdastofnunin átti að verða rós í hnappagat hæstv. ríkisstj. og það er gefið í skyn, að hún muni verða það. Hún er að blómstra, hún á eftir að springa út, skildist mér á ræðu hv. formanns, og bera ávöxt. Við skulum vona það. Við skulum vona, að skipulag verði á hlutunum með heilbrigt sjónarmið í huga, en ekki þröng sjónarmið, sem þjóna ákveðnum hagsmunum, — ég vil ekki segja pólitískum hagsmunum á þessu stigi, — en það eru óeðlilegt sjónarmið að leggja slíkt bann á ákveðin svæði eins og mér virðist þessi samþykkt gefa tilefni til.

Það er talað um breytt vinnubrögð, betri athugun á málunum og þar fram eftir götunum, traust tök á fjárfestingarmálunum, sagði hv. formaður, og það miðaði í rétta átt. Ég tel þetta ekki benda neitt í þá átt, að þetta sé rétt mat á aðstæðum, öðru nær. Ef viss svæði þurfa styrki eða mjög hagkvæm lán vegna atvinnuástands, þá verða þau að fá það, án þess að það sé gert á kostnað annarra aðila, þannig að þeim sé bannað að fá lánin. Sama kom fram 1968, og viðurkenndi hæstv. forsrh, þá, Bjarni heitinn Benediktsson, að það væri engin lausn á atvinnuleysi Norðurlands og Austurlands að taka skip héðan úr umdæminu, úr Reykjavík eða Hafnarfirði, og valda þar með meira atvinnuleysi þar. Það er alveg það sama, sem á við enn í dag. Það verður að leysa vandamál byggðarinnar sem heildar án þess að loka fyrir sjálfsbjargarviðleitni annarra manna. Það er mín skoðun. Það getur vel verið, að hv. þm. hafi þá skoðun, að það megi loka fyrir sjálfsbjargarviðleitni vissra manna og veita öðrum meiri rétt, — en ég er ekki á þeirri skoðun, og ég trúi því ekki, að meiri hl. Alþ. sé þannig hugsandi. Auðvitað höfum við ekki ótakmarkað fjármagn, eins og hér hefur verið rakið, það vitum við allir, og það er eðlilegt mat á aðstæðum að veita meira á viss svæði en önnur. Ég hef ekkert á móti því. En það, sem ég vil mótmæla mjög ákveðið nú, er að setja ákveðin svæði í bann, eins og mér virðist þessi samþykkt gefa til kynna, a.m.k. opnar hún fullkominn möguleika til að framkvæma það þannig. Og það er alveg í andstöðu við þau orð, sem hæstv. forsrh. hafði á sínum tíma og ég mat mikils og ýmsir fleiri, og ég treysti honum hiklaust til þess að beita áhrifum sínum á þann veg, að hér verði ekki dregin lína, er hamlar því, að eðlileg og vel rekin fyrirtæki fái sómasamleg stofnlán, eins og lög og samþykktir byggðasjóðs gera ráð fyrir. Ég veit ekki, hvort reglugerð hefur komið út um sjóðinn, það kom ekki hér fram í umr., en það kannske kemur fram síðar, hvort hún hefur verið sett. Hitt liggur fyrir núna í skjölum Alþ., að einn af framkvæmdastjórum stofnunarinnar segir, ef ég man það orðrétt: Þróttur atvinnulífsins vex ekki í beinu hlutfalli við fjölgun stofnana. Hann hefur líklega rekið sig á það, að þrátt fyrir margt í endurskipulagningu, sem þessi stofnun átti að koma með, hefur þróttur atvinnulífsins ekki vaxið í beinu hlutfalli við það. Gott og vel. Þetta er þeirra eigin dómur. Þetta er kannske ekki 100% orðrétt, en þetta er efnislega alveg það, sem hann segir hér í skjali til Alþ.

Ég vildi aðeins undirstrika það, að við væntum góðs, þrátt fyrir allt, af þessari stofnun til eflingar atvinnulífinu úti um allt land með heilbrigt mat í huga, án þess að bannfæra einn eða neinn, sem er þess virði, að honum sé veitt eðlileg fjármagnsfyrirgreiðsla.