08.11.1972
Neðri deild: 11. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 583 í B-deild Alþingistíðinda. (341)

15. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er flutt til staðfestingar á brbl., sem gefin voru út í sambandi við útgáfu hinnar nýju reglugerðar um stækkun fiskveiðilandhelginnar í 50 sjómílur. Frv. hefur þegar gengið í gegnum Ed., og vænti ég, að það fái greiða afgreiðslu einnig í þessari hv. deild.

Efni þessa frv. er fyrst og fremst það að taka af öll tvímæli varðandi viss ákvæði í gildandi lögum um botnvörpu- og flotvörpuveiðar í landhelginni, l. frá 1969, en í þeim l. voru veittar tilteknar heimildir fyrir íslenzk skip til þess að stunda veiðar eftir settum reglum innan fiskveiðilandhelginnar, eins og hún er ákveðin samkv. landgrunnsl. frá 1948. Það var sem sagt ekki fullkomlega skýrt, hvort þessi lög næðu yfir alla hina stækkuðu fiskveiðilandhelgi, sem nú hefur verið sett samkv. landgrunnsl. frá 1948, eða hvort ákvæði 1. næði einvörðungu til þeirrar fiskveiðilandhelgi, sem í gildi var, þegar þessi 1. voru sett, og voru uppi mismunandi skýringar lögfróðra manna á því, hvernig með mundi verða farið, ef þessi ágreiningsefni kæmu upp. Það var ákveðið að velja þá leið að taka þarna af öll tvímæli og ákveða, að öll ákvæði þessara 1. skyldu gilda yfir hina nýju fiskveiðilandhelgi, yfir 50 mílna landhelgina. Er því um það að ræða, að allar fyrri heimildir, sem stóðu samkv. l. frá 1969, standa áfram, en að því leyti til sem íslenzk skip þurfa að leita eftir sérstökum heimildum til þess að stunda veiðar innan fiskveiðilandhelginnar, þá verður nú að leita eftir heimildum jafnt til þess að stunda slíkar veiðar innan 12 mílna markanna sem utan, en áður var það auðvitað aðeins fyrir þær veiðar, sem voru innan 12 mílna markanna. Hins vegar er ekki skertur réttur íslenzkra veiðiskipa frá fyrri ákvæðum að einu eða neinu leyti. Þau halda öllum þeim réttindum til veiða, sem lög hefðu mælt fyrir um áður. Þetta eru sem sagt meginatriðin, sem þarna var um að ræða, og þótti rétt að taka þarna af öll tvímæli og gera málið hreint að þessu leyti til, og vænti ég, að allir geti verið sammála um það.

Ég vænti svo, herra forseti, að lokinni þessari umr. gangi málið til hv. sjútvn. og málið geti fengið fljóta afgreiðslu.