17.04.1973
Sameinað þing: 75. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3801 í B-deild Alþingistíðinda. (3415)

Skýrsla forsætisráðherra um Framkvæmdastofnun ríkisins

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson) :

Herra forseti. Það er rétt, að í skýrslu minni var ekki sérstaklega getið um Vestfjarðaáætlun. En það var hins vegar tekið almennt fram, að ég hygg, að það væri unnið að landshlutaáætlunum. Það voru sérstaklega nefndar þrjár áætlanir. En að sjálfsögðu fer fram undirbúningur að fleiri landshlutaáætlunum og þar í er Vestfjarðaáætlun. Eins og kom fram hjá hv. þm. Þorvaldi Garðari, svaraði ég því á sínum tíma eftir upplýsingum, sem ég fékk hjá Efnahagsstofnuninni, ef ég man rétt, að það tæki 5–6 ár að ganga frá áætluninni, þannig að það er ekki eðlilegt, að hún sé komin strax í gang. En ég held, að ég geti svarað því, að það hefur engin breyting orðið á í þessu efni og það er unnið undirbúningsstarf að þessu. Ég hef hins vegar ekki í höndunum upplýsingar um, hversu langt það sé komið.