08.11.1972
Neðri deild: 11. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 587 í B-deild Alþingistíðinda. (344)

36. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Flm. (Ellert B. Schram):

Herra forseti. Hæstv. landbrh. lagði á það áherzlu í ræðu sinni, að núgildandi fyrirkomulag um mjólkursölu í þessu landi hefði varað lengi, á fjórða áratug, og það væri sönnun þess, að þetta hefði reynzt vel. Það er rétt, að kerfið hefur verið við lýði þennan tíma, 38 ár, en að sjálfsögðu dregur maður ekki þá ályktun, að það sé endilega sönnun þess, að þetta fyrirkomulag hafi reynzt ákaflega vel. Ég held þvert á móti, að það mætti miklu fremur ætla, að þegar búið er að sitja við sams konar fyrirkomulag á tímum svo mikilla breytinga sem raun ber vitni um, þegar mjólkurvörur eru komnar í allt annan búning og afgreiddar með allt öðrum hætti en áður, þegar kröfur neytenda eru miklu meiri en áður, þegar markaðurinn er miklu stærri en fyrir 4 áratugum, þá sé þvert á móti miklu meiri nauðsyn á því að endurskoða þessa hluti. Nú viljum við ekki breyta breytinganna vegna, og margoft hefur verið tekið fram í umr. um mjólkursölumálin, að núgildandi lög heimila vissulega breytingar innan síns ramma. Samkv. þeim hefur mjólkursamsölustjórnin hér og mjólkursamlög annars staðar á landinu heimild til þess að leyfa sölu mjólkur á fleiri stöðum en nú er gert. En það er vegna þess, að mjög áberandi mismunun og ég vil segja afturhald hefur ríkt hjá þeim aðilum, sem hafa ráðið ferðinni í þessum málum, að aðra hefur brostið langlundargerð og knýja nú á, að lögunum sé hreinlega breytt til þess að fá fram eðlilegar og sanngjarnar breytingar. Í þessum orðum mínum felast ekki ásakanir um það, að ekki hafi færzt nokkuð í rétta átt, en þróunin hefur verið hæg. Hún hefur verið allt of hæg og breytingarnar, sem orðið hafa, eru ekki í takt við þær kröfur, sem gerðar eru og verður .ið ætlast til í nútímaþjóðfélagi.

Ég hafði búið mig undir það að víkja hér nokkuð að ræðu hv. 2. þm. Sunnl., sem flutt var hér á mánudag, en mun jafnframt koma inn á þær röksemdir, sem fram komu í máli hæstv. ráðh., eftir því sem tilefni gefst til.

Ég vil í fyrstu segja það, að þegar frv. sama efnis var til umr. hér á síðasta þingi, þá mætti það mjög harðri andstöðu, m.a. hv. 2. þm. Sunnl. Þá vildi ég trúa því a.m.k., að sú andstaða af hans hálfu og þeirra aðila, sem hann talaði fyrir, væri af málefnalegum ástæðum, hún væri eðlileg afstaða þeirra manna og þeirra aðila, sem teldu sig þurfa að gæta hagsmuna mjólkurframleiðenda, en vildu engu að siður vel í þessu máli. Af þeim ástæðum m.a. hefur nú verið lagt fram frv., sem ber það mjög augljóslega með sér, að reynt er að koma til móts við sjónarmið framleiðenda og sjónarmið þau, sem hv. 2. þm. Sunnl. setti fram hér í umr. í fyrra. Frv. á síðasta þingi fékk ekki afgreiðslu, en þá mælti framleiðsluráð með því, að það yrði skipuð n. til þess að rannsaka mjólkursölumálin og gera um það till. til úrbóta. Þessi n. var aldrei skipuð. Nú talar hins vegar hæstv. landbrh. um, að það sé rétt að kanna það mál aftur, hvort ekki sé rétt að setja þessa n. á laggirnar, og sjálfsagt er honum það ofarlega í huga, að svo sé gert. En um leið verður hann að skilja og þeir aðilar aðrir, sem hans máli fylgja, að þolinmæði okkar er brostin og við viljum nú sjá einhverjar framkvæmdir, að eitthvað sé aðhafzt, en ekki eingöngu loforð um n., sem síðan eru aldrei settar á fót.

Í millitíðinni, eða frá því að þetta frv. var hér til umr. í fyrra, hefur Mjólkursamsalan í Reykjavík gert ályktun, þar sem segir beinlínis, að hún vilji ekki neinar breytingar. Út af fyrir sig segir sú ályktun sína sögu, að yfirstjórn þessara mála lýsir sig mótfallna hvers konar breytingum og er ekki til viðtals um neitt, hvort sem öðrum líkar betur eða verr. En eftir að hafa hlýtt á málflutning hv. 2. þm. Sunnl. kemur þessi afstaða ekki á óvart, en þessi þm. á jafnframt sæti í stjórn samsölunnar. Það er ekki að mínu viti málefnaleg andstaða. Það hefur komið mjög skýrt fram, að það er ekki málefnaleg andstaða, sem veldur þeirra mótbárum, það er ekki, að hann eða þeir aðilar, sem hann talar fyrir, séu hlynntir breytingum. Þeir eru einfaldlega á móti hvers konar breytingum, eins og reyndar mjólkursamsölustjórnin er búin að álykta um. Ég held, að þetta sé orðið fyrir löngu ljóst og það hafi verið mjög kirfilega staðfest með ræðu hv. 2. þm. Sunnl. Ég get ekki varizt því, að mér fannst hans ræða stríða gegn öllum þeim frjálsræðiskenningum, sem flokkur hans boðar og reyndar allir vilja fylgja og fyrir löngu ættu raunverulega að vera viðurkenndar svo að ekki sé talað um sanngirni og réttlæti í þessu máli. Ræða hans var boðskapur, sem einokunarfélagi hefði verið sæmd að og er ekki til þess að leysa þetta mál með þeim hlutlausa hætti, sem hæstv. ráðh. vill, að viðhafður sé, ef marka má orð hans við þessa umr. Þetta eru stór orð af minni hálfu, og mér þykir leitt að þurfa að láta þau falla um jafnágætan og velviljaðan þm. og hv. 2. þm. Sunnl. En þessi dómur er óumflýjanlegur og krefst og þarfnast um leið skýringa. Hann þarfnast mjög rækilegra svara við þeim málflutningi, sem hér var fluttur af þessum hv. þm, og hann hefur gefið fullt tilefni til.

Þm. hóf ræðu sína með því að halda því fram, að þetta frv. hefði aðeins það hlutverk að mæta óskum kaupmanna. Hann taldi það vera eina tilgang frv. Þetta er sams konar sleggjudómur og kveðinn var hér upp fyrir ári af þessum sama hv. þm., en þá átti ég að vera sérstakur talsmaður kaupmannavaldsins. Sjálfsagt miðar þetta hvort tveggja að því að gera lítið úr þessu frv. og okkur flm., og læt ég mér fátt um finnast. En jafnvel þótt svo væri, að tilgangur þessa frv. væri sá einn að mæta óskum kaupmanna, þá rýrir það ekki gildi frv., svo sannarlega ekki. Hv. 2. þm. Sunnl. getur gert lítið úr hagsmunum kaupmanna eða kaupsýslumanna, en ég geri það ekki. Ég álít, að kaupmenn reki sína atvinnu af dugnaði og eigi stóran, ef ekki stærsta þáttinn í því, að hér þrífst frjáls verzlun á flestum sviðum. Og ég held, að þingheimur mætti oftar taka tillit til þessarar stéttar, og víst er hún nógu góð, þegar hún þarf að selja aðrar landbúnaðarvörur en mjólkurvörurnar, — aðrar vörur, sem koma frá bændum. Þá hefur ekki annað heyrzt en bændur kunni vel að meta þá þjónustu. Hitt er annað mál, að tilgangur þessa frv. er skýrt tekinn fram í grg. frv., og þarf ég ekki að fara fleiri orðum um það og hirði ekki um að eltast við það, ef menn vilja ekki taka mark á því, sem sagt er í frv. og aths.

Hv. 2. þm. Sunnl. nefnir hér eitt dæmi um það, að neytendur hafi mælt gegn því, að mjólkursala yrði flutt úr verzlun samsölunnar í kjörbúð. En þó að hann geti nefnt eitt slíkt dæmi, sem ég er ekki að vefengja eða rengja, að hann þar styðjist við sannleika, þá fær bann aldrei hnekkt þeirri staðreynd, að það er yfirgnæfandi vilji neytenda, að mjólk fáist keypt í þeim verzlunum, sem neytandinn skiptir við, og ég gæti nefnt 10 dæmi fyrir hvert eitt, sem hann nefnir, sem eru á öndverðan hátt við það, sem hann er að tala um. Ég á þá ekki endilega við sölusvæði samsölustjórnarinnar, sem hv. 2. þm. Sunnl. batt sig nú mjög við, heldur á ég við um landið allt, því að þetta vandamál einskorðast alls ekki við þetta sölusvæði. Eða heldur þessi hv m. að það sé vilji neytenda á stöðum eins og Ísafirði, Sauðárkróki, Ólafsvík, Húsavík, Seyðisfirði og fleiri og fleiri stöðum, að mjólkin sé eingöngu seld í kaupfélögum þessara staða, en ekki þeim kjörbúðum, sem þar eru til staðar og fólk skiptir jöfnum höndum við? Ég held, að það þýði ekki að einblína á eitt einstakt tilvik og segja síðan: Neytendur eru hlynntir núverandi fyrirkomulagi. — Það er að berja höfðinu við steininn.

Hv. 2. þm. Sunnl. og hæstv. landbrh. undirstrikuðu þýðingu þess, að fyllsta hreinlætis væri gætt, og skal ég vissulega taka undir það. En hv. 2, þm. Sunnl. gekk hér skrefi lengra, því að hann gaf mjög í skyn í ræðu sinni, að hreinlæti og vandaðri meðferð mjólkurvara yrði stefnt í hættu með því að samþykkja þetta frv. Hann talaði um gerla og geymsluþol og lét í ljósi efasemdir um, að kaupmenn eða almennar verzlanir gætu uppfyllt ströngustu kröfur heilbrigðiseftirlits. Í þessu sambandi lítur hann enn einu sinni fram hjá því afdráttarlausa ákvæði, sem í frv. er, þar sem segir, að mjólkurframleiðendur sjálfir hafi það algerlega á valdi sínu, hvaða skilyrði þeir setja um aðbúnað og meðferð. Það fer ekkert milli mála. Þeir þurfa ekki að heimila einni einustu verzlun mjólkursölu, sem að þeirra mati uppfyllir ekki kröfur þeirra sjálfra. Og framleiðendur, mjólkursamsalan og mjólkursamlög geta að sjálfsögðu fylgzt nákvæmlega jafnvel með þessari hlið málsins, hvort sem verzlanir eru fleiri eða færri. Hv. 2. þm. Sunnl. upplýsti m.a., að á sölusvæði Mjólkursamsölunnar hér syðra væru 84 verzlanir utan þeirra eigin verzlana, þ.e.a.s. fyrir utan sérstakar mjólkurbúðir, sem seldu mjólk, og ég hef engar aths. heyrt um það, að eftirlit með þessum verzlunum gangi erfiðlega. Allir, sem þekkja til kjörbúða, sem nú ryðja sér til rúms, geta borið um það, að umgangur og hreinlæti er þar að sjálfsögðu engu lakara en bezt gerist í verzlunum samsölunnar.

En í þessu sambandi vil ég vekja athygli á því, að Mjólkursamsalan veitti núna nýlega verzlun hér í Reykjavík mjólkursöluleyfi, — verzlun, sem getur kallazt nokkurs konar „súper“-markaður. Þessi verzlun rekur starfsemi sína í húsnæði, sem var byggt sem verksmiðjuhús og er í iðnaðarhverfi. Ytri frágangur bússins og reyndar innri aðbúnaður er ekki þannig, sem mætti ætla, að væri beztur fyrir kjörbúðir, og reyndar ber allt það með sér, að ætlunin hafi verið að meðhöndla ýmislegt annað en matvörur á þessum stað. Nú er ég ekki endilega að gagnrýna þessa verzlun eða aðbúnaðinn þar. En ég vek athygli á því, að þessari verzlun er veitt heimild til mjólkursölu. Þarna úir og grúir af alls kyns vörutegundum, allt frá klæðnaði og búsáhöldum niður í matvörur og mjólkurvörur, og ef Mjólkursamsalan gerir ekki aths. við hreinlæti og aðbúnað á þessum stað, sem ég er ekki að segja, að sé ekki alveg í fullkomnu lagi, og ef hún telur hann uppfylla ströngustu heilbrigðiskröfur, þá leyfi ég mér að fullyrða, að flestar, ef ekki allar kjörbúðir hér á Stór-Reykjavíkursvæðinu standast þessar sömu kröfur, sem Mjólkursamsalan hefur gert til þessarar verzlunar.

Hv. 2. þm. Sunnl. og hæstv. landbrh. hafa gert hér aths. við skipan væntanlegrar n., sem taka ber umsóknir til athugunar. Þeir telja hlut framleiðenda rýran í þessari n. Um það má sjálfsagt endalaust deila, og það er heldur ekkert aðalatriði. Það skiptir ekki meginmáli og ræður ekki úrslitum, hvernig n. í sjálfu sér er skipuð, og ég gizka á, að við flm. séum til viðtals um að breyta eitthvað til um nefndarskipun, ef það ræður úrslitum í hugum þessara hv. þm. Fyrir okkur flm. vakti fyrst og fremst að gefa öllum aðilum, sem málið snertir, tækifæri til að setja fram sín sjónarmíð og láta engan einn hafa þar allsráðandi ítök. Og samkv. frv. hafa framleiðendur sinn fulltrúa í n., mjólkursamsölustjórn eða mjólkursamlag hefur þar sinn fulltrúa, heilbrigðiseftirlit hefur sinn fulltrúa og fulltrúi þeirra sjónarmiða úr sveitarstjórn, sem hv. þm. og hæstv. landbrh. hafa, þessi fulltrúi sveitarstjórnarinnar og þessi fulltrúi þessara sjónarmíða hefur líka eða getur átt sæti í þessari n. Þegar talað er um tvo menn frá sveitarstjórn, er reiknað með því, að þeir komi frá hinum tveim stríðandi aðilum, ef hægt er að tala um stríðandi aðila í þessu efni.

Ég spyr: Getur þetta kallazt ósanngjörn lausn, að vera þarna með þrjá, ef ekki fjóra aðila, sem hafa sömu sjónarmið, verður maður fyrirfram að reikna með? Ég spyr líka: Er hv. 2. þm. Sunnl. á móti því, að fulltrúi neytenda eigi sæti í slíkri n.? Ég tala nú ekki um, ef hann telur, eins og ég hef áður minnzt á, að neytendur séu alls ekki hlynntir breytingum á mjólkursölunni, þá ætti ekki að vera mikil hætta á því, að fulltrúi neytenda tæki þátt í þessari n.

Í þessu sambandi vil ég enn einu sinni ítreka, að þetta frv. er flutt til þess að knýja fram breytingar á ófremdarástandi. Það er engin launung á því. Við höfum margoft tekið það fram. Við erum orðnir þreyttir á þessu ástandi og aðgerðarleysi, við viljum einhverjar breytingar, og við sjáum okkur ekki annað fært en að flytja hér frv., þegar allar óskir og kröfur um vinsamlegar athuganir og hlutlausar athuganir eru virtar að vettugi. Við flytjum þetta frv. til að knýja fram breytingarnar og koma í veg fyrir óréttlæti og mismunun, og frv. er flutt vegna þeirrar einföldu en augljósu staðreyndar, að a.m.k. annarleg sjónarmið, svo að ekki sé meira sagt, meðal forráðamanna mjólkursölunnar ríghalda í forréttindi og valdstjórn. Þeir eru á móti breytingum, og þeir hafa gefið út yfirlýsingar um, að þeir séu á móti hvers konar breytingum, og hafa komið í veg fyrir, að þessi mál séu skipuð og leyst af sanngirni. Getur þá nokkur reiknað með því, að við flm. þessa frv. fylgjum úr hlaði till. um breytingar, sem séu í því einu fólgnar, að valdið sé áfram í höndum þessara sömu manna? Ég held ekki.

Við flm. teljum hins vegar eðlilegt, að sjónarmiða framleiðenda sé vel gætt í slíkri n. og þeir geti sett fram sín rök, og ef þeir hafa eitthvað til síns máls, þá verður auðvitað að treysta því, að það sé tekið tillit til þeirra. Þetta mál verður ekki sótt að jafnóbilgjörnu kappi og gegn því er barizt.

Hv. 2. þm. Sunnl. talar um að með slíku fyrirkomulagi, sem frv. gerir ráð fyrir, geti stjórn Mjólkursamsölunnar eða mjólkursamlaganna ekki borið ábyrgð á mjólkurvörunum. Sú ábyrgð verður hvorki meiri né minni heldur en hún er nú. Framleiðendur framleiða og selja sína mjólk eins og hingað til, heilbrigðiseftirlit og rannsóknarstofa samsölunnar fylgjast með hreinlæti og aðbúnaði eins og hingað til, og ábyrgð þessara aðila á mjólkinni, eftir að hún er komin í verzlanirnar, er jafnmikil eða jafnlítil, hvort heldur hún selst í 84 verzlunum eða 184 verzlunum. Á því er enginn eðlismunur. En ég tek aftur fram, að það verða áfram mjólkurframleiðendurnir, sem setja reglur um meðferð og aðbúnað og geta neitað um mjólkursöluleyfi, ef aðstæður eru ekki fullkomnar. Og þeir geta að sjálfslögðu líka tekið aftur mjólkursöluleyfi, ef út af bregður. M.ö.o.: ábyrgðin breytist ekkert samkv. þessu frv., og mjólkurframleiðendur hafa það fullkomlega á valdi sínu, að með þessa vöru sé farið þannig, að þeir geti við unað.

Þá hefur því verið slegið föstu í þessum umr., að dreifingarkostnaðurinn mundi stórhækka. Það fylgja engin frekari rök þessari fullyrðingu, og því erfitt að gripa á henni, því að ekki er að sjá, í hverju þessi kostnaðarauki á að vera fólginn. Mjólkursamsalan hér syðra hefur sitt dreifingarkerfi. Bílar hennar aka um Stór-Reykjavíkursvæðið, mjólkursölustaðir eru að sjálfsögðu í öllum hverfum og ég get ekki séð annað en það kerfi geti í allt eins dugað, þó að það sé stanzað á eitthvað fleiri stöðum en nú er gert. Ég get ekki séð, að dreifingarkostnaðurinn hækki við það. En jafnvel þótt hann hækkaði, þá hefur t.d. hv. 1. þm. Sunnl., Ingólfur Jónsson, bent á það réttilega, að sú hækkun, sem verða kynni, yrði framleiðendum ekki til tjóns. Mjólkurverð eins og annað landbúnaðarverð er reiknað út og ákveðið, og hvort sem það hækkar eða lækkar, þá kemur það fram í hærra eða lægra verði, en ekki í minni hlut framleiðenda, því að það eru neytendur, sem bera þessa hækkun, og ég leyfi mér að fullyrða, að óverulega hækkun munu þeir glaðir taka á sig, ef þægindi og þjónusta við mjólkurkaup verða meiri. Á því er enginn vafi. Hins vegar er það svo, að í þessu frv. er komið til móts við þetta sjónarmið, því að n., sem hér hefur verið rætt um, er gert skylt að taka til athugunar, hvort framleiðendur verði fyrir fjárhagslegu tjóni vegna dreifingarkostnaðar, og á þann veg er að mínu áliti girt fyrir þann leka og vangaveltur hv. 2. þm. Sunnl. óþarfar að þessu leyti. En hann minntist hins vegar ekki á fjárfestingarkostnað, sem líka skal taka tillit til samkv. þessu frv. En því er hins vegar ekki að leyna, að manni blöskrar stundum, hvernig Mjólkursamsalan hagar sér í fjárfestingarmálum, og ekki er hægt annað að segja en þar sé ekki verið að líta á það, hvort kostnaður hækki eða lækki.

Ég vil nefna bara eitt dæmi til þess að sýna fram á, hvað ég er að tala um.

Í alllangan tíma hefur ákveðinn kaupmaður hér í nágrenni Reykjavíkur selt mjólk í verzlun sinni, og hafa engar aths. verið gerðar við það. Hann hefur greitt fyrir þetta ákveðna upphæð til samsölustjórnar, eftir því sem mér skilst, og neytendur hafa verið ánægðir með þetta fyrirkomulag. Mjólkursamsölustjórnin hefur hins vegar haft núna í nokkuð langan tíma í byggingu sérstaka fasteign, sem nú er búið að innrétta sem mjólkurbúð, og Mjólkursamsalan er búin að hefja þarna starfsemi. Um leið og hún hefur þessa starfsemi, tekur hún mjólkursöluna af þessum kaupmanni. Það þarf ekki að taka það fram, að þessi mjólkurbúð er hinum megin á horninu, og Mjólkursamsalan byggði þetta hús. Hún setti í þetta mikið fé. Hún þarf að sjálfsögðu að reka þessa fasteign áfram, hún þarf að ráða til starfsmenn og borga þeim laun, og hún fær ekki lengur greitt frá kaupmanninum, sem hún fékk áður. Síðan geta menn spurt sjálfa sig: Hvort skyldi nú vera hagkvæmara fyrir Mjólkursamsöluna að hafa mjólkursöluna áfram í verzlun kaupmannsins og fá fyrir það ákveðna þóknun eða byggja þetta hús og greiða af því vexti og afborganir, greiða laun starfsmanna, reka þessa húseign? Ég gizka á, að það sé auðvelt reikningsdæmi.

Þetta er aðeins eitt dæmi af mjög mörgum dæmum, sem hægt er að rekja um ástandið á sölusvæði Mjólkursamsölunnar hér syðra og vestra. Ég læt svo mönnum eftir að velta fyrir sér, hvað hafi ráðið ferðinni í þessum málum, hagur framleiðenda um lágan dreifingar- og fjárfestingarkostnað eða óbilgjörn og þröngsýn stefna valdboðendanna. Hins vegar á þetta aðeins við um svæðið hér syðra. En þegar við tölum um dreifingarkostnað og fjárfestingarkostnað, þá þarf ekki að hafa miklar áhyggjur af því úti á landi, því að þar hafa mjólkurframleiðendur ekki byggt sérstakar mjólkur verzlanir, heldur hafa þeir tekið það ráð nær eingöngu að heimila kaupfélögum viðkomandi staða að selja mjólkina og neita öðrum aðilum um sömu fyrirgreiðslu. Þau þarf því enginn að hafa áhyggjur af því, þó að mjólk yrði leyfð í sölu í annarri verzlun í einhverjum ákveðnum kaupstað úti á landi, að við það hækki dreifingarkostnaður. Ég man nú í augnablikinu bara eftir staðháttum eins og á Ísafirði, þar sem kaupfélagið er á horninu beint á móti kjörbúðinni, sem þar er á staðnum, a.m.k. stærstu kjörbúðinni, sem þar er á staðnum, fyrir utan kaupfélagið. Ég get ekki séð, að það hækki mikið dreifingarkostnaðinn við það, þegar mjólkurbíllinn stanzar fyrir utan kaupfélagið, að kassarnir séu bornir út bæði til hægri og vinstri. En því miður hefur mjólkursamlagið þar vestra ekki séð neina hagkvæmni í því að leyfa mjólk selda á báðum þessum stöðum, og ég því miður kann ekki svör við þeirri ákvörðun. En kannske er hægt að útskýra það, að við það sé hætta á því, að dreifingarkostnaður hækki. Það má vel vera.

Þá fór hv. 2. þm. Sunnl. orðum um það, að að með þessu frv., ef að lögum yrði, yrðu framleiðendur sviptir rétti til þess að stjórna mjólkursölunni. Nú mætti að vísu spyrja, hvort það væri dauðasynd að svipta þá menn slíkri stjórn, þegar þeir misbeita þessu valdi sínu og standa gegn því, að þeir aðilar fái mjólkursöluleyfi, sem fullnægt geta öllum kröfum um meðferð og aðbúnað. En það mætti líka spyrja, eins og hv. 1. þm. Sunnl. gerði, hvort nokkur spyrji um rétt eins eða annars til þess að stjórna sölu á kjötvöru, osti eða öðrum landbúnaðarvörum eða hvort nauðsynlegt sé, að einhver ákveðinn aðili hafi yfirleitt alræðisvald á því, hvar selja megi hinar eða þessar matvörur, — að til þurfi að vera í þessu landi aðili, sem skammti vörur og deili út forréttindum, en þannig er ástandið í dag. Ég held, að það sé þess vegna engin dauðasynd, þó að í sjálfu sér samsölustjórnin sé svipt rétti til þess að stjórna mjólkursölunni. En ég held, að þessi röksemd sé mjög langt sótt og það sé afskaplega slæmur málstaður, sem sé varinn þegar farið er að grípa til hennar til þess að halda verndarhendi yfir slíkum réttindum. Þetta eru sams konar rök, því miður, — ég leyfi mér að segja, þetta eru sams konar rök og einokunaraðilarnir beittu hér á árum áður. Þeir vildu hafa þetta allt í sinni hendi. Þeir vildu ákveða, hvar mátti selja vöruna og hverjir ættu að kaupa hana. Og þetta er ekkert annað en hrein endurtekning á því. Það er verið að viðhalda þarna ákveðinni mismunun, ákveðinni einokun, og ég tek ekki mark á slíkum rökum. Ég segi það hreinskilningslega.

Að lokum voru þau rök, sem áttu endanlega að staðfesta og sanna gildi þessara skoðana, sem hv. 2. þm, Sunnl. setti fram. Það voru þau rök, að ef þetta yrði gefið eitthvað frjálsara, þá mundi verða hér mjólkurskortur. Ég veit nú ekki. Það var haldinn hér nýlega mjólkurdagur, og það var, eftir því sem mér skildist á málsvörum mjólkurframleiðenda og bænda, vegna þess, að það átti að efla mjólkursöluna, vegna þess, að þeim fannst, að mjólkin seldist ekki nægilega mikið, og þeir töldu fyllilega markað til að selja meiri mjólk. Ég tek alveg hjartanlega undir þetta. Ég held, að það sé alveg nákvæmlega rétt athugað hjá þeim. Það er hér miklu stærri markaður fyrir mjólk, og þeir vilja varla stækka markaðinn og fá fleiri kaupendur, ef það kallar á mjólkurskort. Ég held, að ástandið sé alls ekki þannig, að það þurfi neitt að óttast. Keppikefli bænda hefur hingað til verið að selja sínar afurðir og sínar vörur meira en gert er, og þetta frv. stuðlar að því, því að það er ekki nema einföld staðreynd og einfalt dæmi að reikna það upp, að eftir því sem fleiri mjólkursölustaðir eru, eftir því ætti meiri mjólk að seljast. Það þarf ekki að fara í neinar grafgötur um það.

Síðan er hv. 2. þm. Sunnl. með almennar vangaveltur um það, að nú sé tilhneiging til þess að leggja niður mjólkurbú og menn séu að loka sínum fjósum. Ég held, að það standi ekki í neinu sambandi við þetta frv. Þá er þetta stærra mál en ég gerði mér grein fyrir. Ég held, að það sé af allt öðrum ástæðum og það þurfi að kafa miklu dýpra til þess, ef það vandamál blasir við, að menn séu að loka sínum fjósum, og það breytir ekki til eða frá um þá þróun, hvort þetta frv. nær fram að ganga eða ekki. Staðreyndin er sú, að hér er framleidd mjólk í meiri mæli en hægt er að selja, hér er stærri markaður en er nýttur, og hér á að bæta þjónustuna miklu meira en nú er og með því að rýmka til um þetta. Eins og gert er ráð fyrir í þessu frv., a.m.k. tilgangur frv. er, þá er ég sannfærður um, að það leiðir ekki til mjólkurskorts.

Hv. 2. þm. Sunnl. vitnaði hér að lokum til ályktana, sem mér skildist, að framleiðsluráð, — hann leiðréttir mig þá, — framleiðsluráð, mjólkursamsölustjórn og stjórn mjólkursamlaga hafi sent frá sér núna í sumar eða haust um þetta mál. Þar lýsa þessir aðilar sig algerlega andvíga þessu frv. og fylgja því eftir með því að segja, að það leiddi til stórhækkaðs dreifingarkostnaðar, minni vörugæða og skorts á mjólk. Ég skal ekki fara fleiri orðum um þessar röksemdir. Ég er búinn að svara þeim eins og ég tel mig bezt geta gert. Ég vil í fyrsta lagi halda fram, að vörugæði eigi ekki að geta minnkað, vegna þess að þeir hafi þetta sjálfir í sínum höndum, og þá hafi þeir við sjálfa sig að sakast. Dreifingarkostnaður ætti ekki að hækka. Það eru meiri líkur á því, að hann geti lækkað, en úr því fæst skorið, og ef dreifingarkostnaður hækkar, þá verði tillit tekið til þess jafnvel á þann hátt, að mjólkursöluleyfi verði ekki veitt. Og í þriðja lagi þykist ég hafa sýnt fram á, að það sé fráleitt að halda því fram, að það verði mjólkurskortur, þó að mjólk sé seld á fleiri stöðum.

Hins vegar kemur mér ekki á óvart, að þessir aðilar skuli senda frá sér slíka ályktun. Þeir eru að halda í sína hagsmuni og sín forréttindi. Þeir vilja áfram ráðskast með þessa hluti, og þeir hafa sýnt það í gegnum árin, að þeir vilja engu breyta, jafnvel þó að lögin, sem nú eru í gildi, leyfi slíkar breytingar. Og það er einfaldlega þess vegna, sem þetta frv. er flutt, af engu öðru, vegna þess að það er við þessa aðila að stríða. Og þegar hæstv. landbrh. talar hér um, að við eigum að forðast átök, þá er ég honum alveg sammála. En af hverju stafa þessi átök? Þau stafa af því, að það hefur verið stirfni og afturhald ríkjandi í þessum herbúðum, sem hv. 2. þm. Sunnl. kemur úr, og þeir hafa ekki verið til viðtals um eina eða neina breytingu. Þeir eru búnir að gera ályktanir um það núna, að þeir eru á móti hvers konar breytingum, fyrirfram, áður en þeir vita, hver þessi breyting er eða hvernig hún líti út. Og þá er ekki óeðlilegt, að það séu einhver átök í uppsiglingu, það verði eitthvað að gera. Ég get ekki séð aðrar leiðir.

Mér þykir vænt um að heyra það, ef hæstv. landbrh. vill taka þetta mál til athugunar og ef hann er tilbúinn til þess, ef hann meinar það í einlægni, og ég efast ekki um það. En þá viljum við líka sjá einhverjar aðgerðir og að hendur séu látnar standa fram úr ermum. Hann sagði hér, — og ég vil segja það að lokum, — hann sagði hér, að nefndartilhögunin, eins og við gengjum frá henni, stríddi gegn, að hann héldi, lífsskoðun okkar flm. Ég ætla ekki að fara að rekja það aftur, sem ég sagði um nefndarskipunina, enda þótt hæstv. ráðh. hafi, að mér sýndist, vikið sér frá. En ég tók fram, að ég væri til viðtals um að breyta þessari nefndarskipun, hún væri ekkert aðalatriði í okkar augum, hún væri sett fram til þess, að allir gætu sett fram sín sjónarmið, það væri út af fyrir sig lýðræðisleg aðferð. Ég get ekki séð, að það sé í andstöðu við mína lífsskoðun a.m.k. En hann nefndi í þessu sambandi, að það ætti enginn að lúta boði eða banni, og þá er ég honum sammála, og þá vil ég segja, að það er mín lífsskoðun. Það á enginn að lúta boði eða banni. En í þessum efnum hafa menn þurft að lúta boði eða banni í 38 ár. Og það er kominn tími til að mínu áliti, að þessu valdboði linni og hér ríki frjálsir viðskiptahættir, hér sé um að ræða heiðarlega og eðlilega og sanngjarna samkeppni á þessum sviðum og þeir aðilar, sem hafa til þess útbúnað og uppfylla ströngustu skilyrði, fái að selja þessa vöru eins og aðrar vörur, jafnt landbúnaðarvörur sem annað.