18.04.1973
Neðri deild: 97. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3813 í B-deild Alþingistíðinda. (3456)

18. mál, Landhelgisgæsla Íslands

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég hef sjaldan eða aldrei vitað stjórnarliða verða sér til jafnmikillar háðungar á Alþ. eins og við meðferð þessa máls og afgreiðslu. Við sjálfstæðismenn fluttum í fyrra frv. til l. um eflingu landhelgissjóðs. Það var látið daga uppi. Við fluttum einnig till: um byggingu nýs varðskips og áætlunargerð um eflingu landhelgisgæzlunnar. Það var einnig látið daga uppi. Ríkisstj. aflaði sér svo heimildar rétt fyrir jólin til þess að mega kaupa varðskip. En það gat hún gert í fyrra, ef þessi till. okkar hefði verið samþ. Það, sem fram kemur í nál. meiri hl. allshn. um greiðslur til landhelgisgæzlunnar og landhelgissjóðs, er ekkert sem hægt var að komast hjá, eins og á stóð, og vitaskuld hæstv. ríkisstj. á engan hátt þakkarvert, nema síður sé. Og það þarf lítil geð guma til þess að láta það sjást á prenti eftir sig, að samkvæmt þessu hafi ríkisstj. tekið mjög myndarlega á þessum málum og ekkert til sparað að búa landhelgisgæzluna sem bezt úr garði. Er þá ekki líklegt, að á því verði nein breyting. Hún hefur nú búið hana svo vel úr garði, að hún tók af henni það húsnæði, sem henni var fyrirhugað, og annað er eftir þessu. Þetta eru mér sár vonbrigði og okkur sjálfstæðismönnum, sem stöndum að flutningi þessa frv., alveg sérstaklega vegna þess, hversu málið hlaut góðar og jákvæðar undirtektir hjá hæstv. forsrh., sem ég hef áður þakkað fyrir hér í þingsölunum og er reyndar gerð grein fyrir í minnihlutaáliti allshn. á þskj. 473.

Auðvitað getur ríkisstj. ekki fyrt sig ábyrgð á meðferð málsins, máls eins og hér er um að ræða, eftir svo litlar upplýsingar fyrir nm., sem að þessu standa, og stjórnarpeðin að öðru leyti, sem hafa látið hafa sig í að leggja til það, sem hér er lagt til.

Þá er rétt, að ég minni á það, að sjálfur hefur hæstv. forsrh. í bók sinni um stjórnskipun Íslands, gert grein fyrir því, hver geti orðið afdrif máls, ef það er ekki samþykkt. Þar segir hann m.a., að mál geti verið beinlínis fellt, í öðru lagi geti mál dagað uppi, sem svo er kallað, og í þriðja lagi eftir 56. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 41. gr. þingskapalaga, geti þingnefnd vísað máli til ráðh., ef henni þyki ekki ástæða til að gera aðra ályktun um það. Þetta þykir vægari aðferð til að koma málum fyrir kattarnef en að fella það, segir hæstv. forsrh. Og taki þeir nú það til sín og hirði sneiðina, sem eiga.

Það hefur verið nokkur ágreiningur um það, hvað gera bæri á 11 hundruð ára landnámshátíð okkar Íslendinga, og ein till., sem nýlega hefur komið fram, er að efla landgræðsluna. Landgræðslunni hefur stundum verið líkt við okkar landhelgismál. Henni er ætlað að græða landið inn á við, eins og við verðum að vernda fiskimiðin. Ég held, að það væri rétt að athuga það, þegar höfð er í huga fyrirhuguð meðferð þessa máls, að taka nú upp þá till., að landhelgissjóður verði alvarlega efldur af einhug og djörfung á 11 hundruð ára afmælishátíð landnáms á Íslandi, og við skiljum ekki við málin með þeim lúsablesahætti, sem nú á að gera í þessari hv. deild.