18.04.1973
Neðri deild: 97. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3817 í B-deild Alþingistíðinda. (3459)

214. mál, atvinnuréttindi skipstjórnarmanna

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson) :

Herra forseti. Ég harma það, að ég gat ekki verið viðstaddur við 2. umr. málsins, þegar hún hófst, og veit ekki gjörla, hvort ágreiningur hefur risið um málið. En þetta frv. fór í gegnum hv. Ed. með algeru samkomulagi og án nokkurra breytinga.

Frv. er þannig til komið, að á síðasta þingi voru afgreidd lög um Stýrimannaskólann í Reykjavík, og varð ljóst, að eftir afgreiðslu þeirra laga var nokkurt ósamræmi milli þessarar nýsettu löggjafar og laganna um skipstjórnarréttindi á íslenzkum skipum. Það þótti því sjálfsagt að láta skoða það af færustu mönnum og koma fullu samræmi á þessa löggjöf, og til þess var valinn skólastjóri stýrimannaskólans, Jónas Sigurðsson; og með honum Kristinn Gunnarsson lögfræðingur, deildarstjóri í samgrn. Þeirra umboð var það eitt að endurskoða l. um skipstjórnarréttindin með það fyrir augum, að þau yrðu samræmd stýrimannaskólalögunum. Þessa samræmingarendurskoðun framkvæmdu þeir, og er meginbreytingin frá eldri l. sú, að þar sem samræmt hefur verið námsefni 2. bekkjar farmannadeildar og 2. bekkjar fiskimannadeildar, hljóti þeir, sem ljúka prófi úr 2. bekk stýrimannaskólans, sömu réttindi, en svo hafði ekki verið .áður. Þetta er meginefni frv. Síðan gera þeir margar orðalagsbreytingar, sem ganga allmargar aftur, hvað eftir annað og er þannig um .margar orðalagsbreytingar að ræða. En allt á þetta að stefna að því, að samræmi sé milli þessara tveggja laga.

Frv. var sent til umsagnar Siglingamálastofnunar ríkisins, L.Í.Ú. og Farmanna- og fiskimannasambands Íslands. Varasiglingamálastjóri, Páll Ragnarsson, nefnir eitt atriði um skipstjórnarréttindi; sem hann taldi að æskilegt væri að væri strangara, en segir þó í næstu mgr. á eftir: „Vera má þó, að slíkt tilfelli kæmi ekki til greina í praksís.“ Þýðingarmikil athugasemd er þetta nú ekki. L.Í.Ú. samþ. að mæla með, að frv. verði lagt fram og gerir enga efnislega athugasemd. Þá bendir Farmanna- og fiskimannasamband Íslands á, að lögin um skipstjórnarréttindi og kennsluna í sjómannafræðum séu mjög nátengd atriði, gerir enga brtt. eða aths. við efni þessa frv., en víkur að því, að það þurfi að skerpa og ákveða lögin um kennsluskylduna og taka fyrir nýja þætti í kennslu, miðað við nútímahætti. Það tel ég vafalaust vera á rökum reist. En þetta rekst ekkert á lögin um kennsluna og stýrimannaskólann, eins og þau lög eru nú.

Ég held því, að það hljóti allir að fallast á, að það sé heppilegt að afgreiða þetta frv., til þess að samræmi sé milli löggjafar um skipstjórnarréttindi á íslenzkum skipum og laga um stýrimannaskólann. Hitt er mér alveg ljóst, að þessu frv. var aldrei ætlað að leysa þann mikla vanda og þann margvíslega ágreining, sem er um gildandi lagaákvæði um skipstjórnarréttindi og allt það undanþágufargan, sem leita verður vegna þessa. En það mál skal tekið upp í samráði við Farmanna- og fiskimannasamband Íslands og sjómannasamtökin. Er það ósk mín og bón til þm. að blanda þessu tvennu ekki saman nú, því að ég veit, að þessu frv. er ekki ætlað að leysa þann margvíslega og margþætta vanda. Það mál verður tekið upp í samvinnu og samráði við sjómannasamtök og Farmanna og fiskimannasamband Íslands. Þar er ærinn vandi á ferðum, og sýnist sitt hverjum um skipstjórnarréttindi og hvernig eigi að komast fram hjá undanþáguveitingum og tryggja skipstjórnarlærða menn, jafnt á okkar smærri fiskiskip sem hin stærri. Það eru því tilmæli mín, að inn í þetta frv. verði ekki blandað öðrum málum, sem eru utan við verksvið þeirra manna, sem framkvæmdu þessa endurskoðun, og þetta frv. verði samþ., til þess að samræmi sé á milli laga um Stýrimannaskólann í Reykjavík annars vegar og um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna á íslenzkum skipum hins vegar. Aðrir þættir þessa vandamáls verða teknir fyrir milli þinga.