18.04.1973
Neðri deild: 97. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3821 í B-deild Alþingistíðinda. (3461)

214. mál, atvinnuréttindi skipstjórnarmanna

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ekki alls fyrir löngu kom í einu helgarblaði dagblaðs hér í Reykjavík mikill þáttur, sem skýrði frá því, undir hvaða stjörnumerki hv. þm. væru fæddir. Þar mátti sjá m.a. myndir af mörgum hv. þm., og fyrir neðan myndir þeirra stóðu nöfn þeirra. Ég minnist t.d. tveggja mynda, þar sem annars vegar var talað um Pétur Sigurðsson, og stóð innan sviga krabbi, og svo hins vegar Björn Pálsson, fiskur. Nú minnist ég þess ekki, undir hvaða merki hæstv. samgrh. er fæddur, en eftir að hann flutti sína ræðu hér áðan, geri ég ráð fyrir, að hann sé fæddur undir voginni, — nú það er rangt. En helzt datt mér það í hug, þegar hann leggur það ofurkapp á að láta þetta mál ná fram. Var engu líkara en hann væri að ná þarna einhverju jafnvægi við aðra ráðherra um það að ná málum fram og það algerlega þýðingarlausum málum eins og þessu, eins og hann sjálfur hefur bezt lýst.

Það, sem verið er að gera með þessu máli, er að samræma við lögin um Stýrimannaskólann í Reykjavík og við lögin um Stýrimannaskólann sem var í Vestmannaeyjum og er nú hér í Reykjavík . En það eina, sem verið er að gera, er; að þeir. sem ljúka prófi nú úr 2. bekk stýrimannaskólans, þ.e. 2. bekk farmannadeildar, fái sömu réttindi og þeir, sem ljúka meira fiskimannaprófi frá fiskimannadeild. Þetta er svo hlálegt, að hafa þetta í huga, þegar obbinn af öllum þeim réttindum, sem við sjáum í þessu frv., er algerlega marklaus og þýðingarlaus. Það má ganga niður í hæstv. rn. til hæstv. ráðh. og kaupa sér réttindi fyrir 200 kr. Og það er ekki nóg með það, heldur er hér farið inn á að þessir menn, sem fara í þennan skóla, fara í langt nám og ná þessum réttindum, verði að skila ákveðnum kröfum, ekki aðeins námskröfum, heldur verði þeir bæði að hafa sjón og heyrn, en það er ekki eitt einasta ákvæði um það í nýju lögunum um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna, hvers sé krafizt af þeim mönnum, sem geta farið upp í rn. til hæstv. samgrh. og keypt sér undanþágu fyrir 200 kr.

Svo fáum við lýsinguna frá hv. nm., og ég bið afsökunar þá nm., sem ég hef kannske ráðizt heldur óviðurkvæmilega að í gær, sérstaklega þó eftir að heyra hv. síðasta ræðumann tala hér, þegar hann biður sjálfur afsökunar á þessari einstæðu málsmeðferð og afgreiðslu á þessu máli. En það er ekkert annað verið að gera en að þóknast ráðh. í því, að hann nái jafnvægi í málaafgreiðslu á Alþ. gagnvart öðrum ráðh. í nauðaþýðingarlausu máli á þessu stigi, sem hefur ekkert að segja út af fyrir sig. En vissulega þyrfti að fá ákvæði um það efni, sem ég hef margoft minnzt á hér á Alþingi í vetur. Og það er einmitt það, sem hann sjálfur kom inn á og viðurkennir að þurfi að gera. En það er enginn vandi fyrir þá menn, sem hljóta þessi nýju réttindi í vor frá Stýrimannaskólnaum í Reykjavík og væntanlega Stýrimannaskólanum í Vestmannaeyjum, sem starfar hér í Reykjavík nú, að hafa þessi réttindi í sínu starfi, sem þetta frv. ætlast til að þeir hafi.

Það eru fjölmörg atriði, sem má tala hér um og ræða nánar. Ýmiss konar ósamræmi er í frv. Það má vel vera að hæstv. samgrh. þekki nokkuð til verðbólguþróunarinnar á Íslandi, en að það skuli allt í einu vera farið úr 20 þús. kr. sekt upp í 100 þús. kr. sekt fyrir brot á þessum lögum, mér þykir þetta nokkuð stórt stökk, ég verð að segja það.

Ég skal ekki, herra forseti, ræða efnislega um einstök atriði í frv., en mun auðvitað ætla mér rétt til þess, ef þetta mál verður ekki dregið til baka núna. Ég álit, að það eigi að senda það heim til föðurhúsanna og láta endurskoða það. Ég ber mikla virðingu fyrir öðrum höfundi þessa frv., sem er Jónas Sigurðsson, skólastjóri stýrimannaskólans. Hann hefur unnið sitt verk, eins og honum hefur verið falið og segir í grg, samræmt það, sem samræma átti.