08.11.1972
Neðri deild: 11. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 605 í B-deild Alþingistíðinda. (347)

36. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Ég vil mælast til þess, að það væri athugað, hvort hæstv. landbrh. gæti ekki verið við. Ég ætla ekki að flytja langa ræðu, en þyrfti aðeins að tala við hann.

Ágætt, hæstv. landbrh. er kominn. Ég sagði, að ég ætlaði ekki að halda langa ræðu um þetta mál að þessu sinni. Ég hlustaði á hæstv. landbrh. hér áðan, og hann var ákaflega hógvær í sínum málflutningi og talaði um nauðsyn á því að ræða þessi mál öfgalaust og athuga þau ofan í kjölinn. Þar er ég alveg sammála hæstv. ráðh. Þessa skoðun hafði ég fyrir ári eins og ég hef nú. Ég var þá og er enn á sama máli og Framleiðsluráð landbúnaðarins. Framleiðsluráð landbúnaðarins sendi hv. landbn. bréf með áskorun til hæstv. landbrh., — það var eftir að frv. um þessi mál kom fram í fyrra. Framleiðsluráðið taldi ýmislegt athugavert við frv. og það væri eðlilegt, að það væri rannsakað ofan í kjölinn, hvort það væri heppilegt. Ef nauðsynlegt þætti að breyta þessum málum, þá yrðu þau rannsökuð nákvæmlega. Þess vegna segir í bréfinu: „Því skorar Framleiðsluráð landbúnaðarins á landbrh. að beita sér fyrir því, að frestað verði afgreiðslu þessa máls á Alþ., en að málið verði tekið til sérstakrar athugunar af n. manna, sem skipuð yrði af ríkisstj. í samráði við Framleiðsluráð landbúnaðarins og Mjólkursamsöluna í Reykjavík.“

Nú er mér kunnugt um, að það hefur ekkert orðið af þessari nefndarskipan, og ég undrast, að hæstv. ráðh. skuli hafa hunzað svona eindreginn vilji framleiðsluráðsins. Ég taldi sjálfsagt í fyrra, að nefnd yrði skipuð, en ekki eingöngu fulltrúum bænda og Mjólkursamsölunnar, heldur einnig fleiri aðilum, og það yrði leitazt við að fá það bezta út úr þessu máli. Ef svo hefði orðið, má vel vera, að það frv., sem hér er til umr. nú, væri í öðrum búningi en það er. Gæti líka verið, að ýmsir, sem hafa mælt gegn þessu frv. nú, hefðu sannfærzt um, að ekki væri ástæða til að mæla svo ákveðið gegn því sem gert hefur verið.

Hv. 2. þm. Sunnl. minntist á það, sem ég sagði hér í fyrradag, og talaði um, að það hefði ekki verið samræmi í upphafi þess, sem ég sagði, og því, sem ég sagði síðast. Þetta er reginmisskilningur hjá hv. þm. Þegar hv. 2. þm. Sunnl. var búinn að tæta þetta frv. niður og fann því í rauninni ekkert til málsbóta, þá vildi ég draga fram það, sem ég taldi vera gott í frv. Og ég fann ýmislegt, sem gat verið ágætt í frv. En ég lauk máli mínu með því að segja, að ég teldi ekki eðlilegt að flaustra að neinu. Og nú hefur hv. 1. flm. þessa frv. lýst því yfir, að hann sé reiðubúinn til samstarfs og athugunar á því, hvort ekki sé heppilegt að breyta frv. á einhvern hátt, m.a. nefndarskipuninni. Það vantar þess vegna ekki samkomulagsviljann. En það, sem hv. 2. þm. Sunnl. hefur rætt um þetta mál og nú síðast hv. þm. Stefán Valgeirsson, það er allt á eina hlið. Þar er ekkert dregið fram af því, sem til málsbóta er, heldur aðeins það, sem — (SV: Við erum ekki bæði með og á móti.) Hv. þm. hefur stundum játazt undir þá stefnu að vera bæði með og móti. — En það, sem ég hef verið að halda hér fram, er það, að þetta mál þyrfti að athuga og það ætti að nýta úr þessu Frv. það, sem væri til bóta, og bæta við það eða taka í burtu, ef það mætti verða til þess, að það gæti farið betur.

Nú er það svo, að hæstv. landbrh. sagði hér áðan, að ég hefði verið 12 ár í landbrh: sæti og ekki séð ástæðu til þess að breyta þessu. Það er rétt. Ég sá ekki ástæðu til þess að beita mér fyrir lagsetningu, m.a. vegna þess,. að það gerðist margt á þessum tíma til breytinga og bóta. Og eins og ég sagði hér í fyrradag, þá er þetta frv. ekki stílað gegn Mjólkursamsölunni í Reykjavík, alls ekki, m.a. vegna þess, að Mjólkursamsalan hefur, — þrátt fyrir það, sem hv. 2. þm. Sunnl. sagði hér áðan, — hingað til veitt mjólkursöluleyfi til flestra þeirra búða á Reykjavíkursvæðinu, sem hafa uppfyllt sett skilyrði. Breytingarnar hafa orðið örar núna allra síðustu árin, og það er fyrst núna, að kjörbúðir eru til að nokkru ráði, sem ekki hafa fengið mjólkursöluleyfi. En þessu er öðruvísi farið á öðrum mjólkursölusvæðum, eins og lýst var hér um daginn á Vesturlandi og blaðaskrif hafa orðið um á Norðurlandi og Austurlandi. Þar er ástandið miklu verra í þessum málum heldur en hér. Og það er eindregin skoðun mín, að það eigi að fylgjast með þróuninni og þær kjörbúðir, sem hafa aðstöðu til og fullnægja öllum settum reglum, eigi að fá mjólk til sölu. En það verða ekki 170 búðir hérna á Reykjavíkursvæðinu og Kópavogi, eins og hv. 2. þm. Sunnl. var að tala um hér áðan, vegna þess að það er fjöldinn af þessum kaupmönnum, sem enga aðstöðu hefur til þess að breyta búðunum í það horf, að skilyrðunum verði fullnægt.

Hv. 2. þm. Sunnl. var að tala hér um áðan, að það þyrfti að borga bændunum eins ört út og unnt væri. Ég er samþykkur því. Ég vil enga breytingu gera á þessu fyrirkomulagi, sem leiddi til þess, að bændum yrði ekki borgað út eins ört og áður. Ég vil heldur enga breytingu gera, sem getur valdið þeim á nokkurn hátt tjóni. Og m.a. þess vegna vil ég, að þetta mál verði athugað vel. Það segir greinilega í þessu frv., að Mjólkursamsalan hafi það í hendi sinni að kveða á um greiðslufyrirkomulag og annað, sem máli skiptir, áður en leyfið er gefið út. Ég sé ekki, hvernig kaupmenn eða aðrir, sem mjólkursöluleyfi fá, hafi aðstöðu til þess að kúga Mjólkursamsöluna og ákveða greiðsluskilmálana eða verzlunarkjörin. Nei, það er áreiðanlega Mjólkursamsalan, sem hefur það í sinni hendi, en ekki dreifingaraðilinn.

Hv. þm. Stefán Valgeirsson varpaði fram einni spurningu til mín og spurði, hvort ég mundi vilja mæla með þessu frv., ef það leiddi í ljós, að Mjólkursamsalan þyrfti að loka búðum sínum. Það er ekkert um það í þessu frv., að Mjólkursamsalan þurfi að loka húðum sínum. En það kemur vitanlega fram í þeirri athugun, sem ég vil, að verði gerð á þessum málum, hvaða fyrirkomulagsbreyting gæti orðið til hagsbóta bæði fyrir framleiðendur og neytendur. Ef það sýndi sig, að það væri enginn hagnaður fyrir bændur að vera sjálfir dreifingaraðili á mjólk, þá er enginn skaði skeður, þó að mjólkurbúðum samsölunnar væri lokað. Það er áreiðanlega vel til athugunar, að Mjólkursamsalan hætti að hafa mjólkurbúðir. En ákvörðun verður ekki tekin um það nema að betur athuguðu máli.

Ég sé ekki, herra forseti, ástæðu til að fjölyrða að þessu sinni meira um málið, sízt af öllu vegna þess, að hæstv. landbrh. hefur tekið þessu frv. vel, miklu betur en hv. flokksbræður hans, og þess vegna er líklegt, að hæstv. landbrh. bæti nú fyrir vanrækslu sína, — ég segi vanrækslu, — að hafa ekki skipað n., sem Framleiðsluráð landbúnaðarins skoraði á hann að skipa í fyrra, og láti þessa athugun fara fram, — skipi menn í n., ekki einhliða, heldur þannig, að sjónarmiðin geti komið fram og verið rökrædd og að þessari n. verði fyrirlagt að hraða störfum, eftir því sem unnt er og skynsamlegt. Með því móti væri hugsanlegt að fullnægja öllu réttlæti í þessu máli og það yrði komizt að þeim niðurstöðum, sem skynsamlegastar væru. Ég er þeirrar skoðunar, að það sé hagur beggja aðila, bænda og neytenda, að dreifingaraðilarnir, sem hafa öll skilyrði til þess að fullnægja þessu máli, fái mjólk til sölu, og það þurfi ekki að verða til þess að auka kostnað. Það hefur margt verið gert erlendis, þar sem fyrirkomulaginu hefur verið breytt, til þess að sporna gegn því. Það mætti einnig gera hér.