17.10.1972
Sameinað þing: 3. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 43 í B-deild Alþingistíðinda. (35)

Stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Við höfum nú heyrt svokallaða „stefnuræðu“ forsrh., sem hér er til umræðu.

Það getur verið saklaust, að menn gleðjist af eigin verkum. En oflof um eigin verk er sjálfshól, sem eigi síður getur vakið háð en hrifningu í hugum annarra.

Hæstv. forsrh. lítur yfir feril ríkisstj. og verður eftirfarandi að orði:

„En það gildir nær einu, hvert litið er, hvort heldur til verklegra framkvæmda, atvinnuuppbyggingar á hvaða sviði sem er, félagsmála, tryggingamála, heilbrigðismála, menntamála eða skattamála. Alls staðar blasa við framfarir, endurbætur í löggjöf og breytingar af ýmsu tagi, sem fólkið í landinu er vitni að.“

Hvað sagði ekki Jón sterki í Skugga-Sveini: „Sáuð þið, hvernig ég tók hann.“

Er hæstv. forsrh. viss um, að fólkið í landinu hafi orðið vitni að svo mikilli dýrð?

Var eldra fólkið hrifið af endurbótunum í skattalöggjöfinni? Eru þeir hrifnir, launþegarnir, sem nú fá ríkissjóðsávísanir eða greiðslur í launaumslögunum upp á kr. 0.00? Sumir fá minna en ekki neitt.

Við sjálfstæðismenn vöruðum alvarlega við hinni hóflausu álagningu beinna skatta, sem geri allt í senn: dragi úr tekjuöflunarlöngun einstaklinga, rýri afköst þeirra í verðmætasköpun þjóðarbúsins og freisti til skattsvika í sjálfsvörn. Stjórnarsinnar eru nú margir farnir að viðurkenna okkar sjónarmið.

Eru umbrotin í félagsmálum svo mikil, að undrum sæti? Hvað segja húshyggjendur, sem bíða óþreyjufullir eftir afgreiðslu hyggingalána, en fá enga úrlausn? Steypa þeir stömpum í menntmrn. í röggsamri afgr. mála og auknum tilþrifum? Í tryggingamálum var grundvöllur lagður að umbótum í tíð fyrrv. stjórnar. En þar verða heldur ekki framkvæmdar umbætur án samhengis við skattamál.

Á þessum sviðum sem öðrum skortir yfirsýn og samræmi í aðgerðum. Af því leiðir þann glundroða, sem gerir áframhaldandi endurskoðun óhjákvæmilega, sem hefur neytt ríkisstj. og neyðir hana áfram til þess að éta ofan í sig gerða hluti og gefa út bráðabirgðalög til þess að breyta nýsettri eigin löggjöf.

Einn helzti sérfræðingur ríkisstj. í efnahagsmálum lýsir ástandinu í þjóðfélaginu með öðrum hlæ en hæstv. forsrh., en nú bíða ráðherrarnir ráðlegginga frá þessum manni m.a. Leyfist mér að tilfæra nokkrar glefsur úr þeirri lýsingu, sem birtist í Þjóðviljanum þann 30. sept. s.l. frá þessum ráðgjafa?

Hann segir að framleiðsluatvinnuvegirnir svokölluðu, sjávarútvegur, landbúnaður og iðnaður, „séu ýmist reknir með tapi, eins og sjávarútvegur og landbúnaður, eða taplausir, en án gróða, eins og iðnaður.“

Hann segir, að á næsta ári sé ekki gert ráð fyrir aukningu á afkastagetu þjóðarbúsins. Búizt sé við hallarekstri, bæði bátaflotans og frystingar á yfirstandandi ári og togaraflotann skorti rekstrargrundvöll, enda haldið gangandi á sérstökum uppbótum.

Enn segir sérfræðingur ríkisstj.:

„En það eru fleiri svið efnahagslífsins, sem komin eru úr jafnvægi. Fjárfestingarsjóðir landsmanna eru tómir, og má ætla, að þá vanti nokkur hundruð milljónir til þess að geta annað því, sem þegar er búið að ákveða, svo og því, sem þegar er vitað að ráðstafa á.“

Síðan átelur sérfræðingurinn hina gálausu og hóflausu skuldasöfnun ríkisstj. erlendis og segir loks:

„En eitt ætti að vera orðið ljóst og það er misræmið milli framleiðslu þjóðarinnar og eyðslu hennar. Framleiðslan stendur ekki undir eyðslunni. Bruðlið er að sliga þjóðfélagið og skapar vítahring jafnvægisleysis í þjóðarbúskapnum gagnvart útlöndum og jafnvægisleysi milli atvinnuvega og einstaklinga innanlands.“

Þessi ráðgjafi ríkisstj. sér auðvitað, að dæmið gengur ekki upp. Einkaneyzlan á að dómi forsrh. að aukast um 14–15% og samneyzlan um 6–7%, en þjóðartekjurnar eiga á sama tíma að vaxa aðeins um 4–5%. Enn á að lifa á yfirdrætti í viðskiptum við útlönd, aukinni skuldasöfnun eða því að eyða gjaldeyrissjóði þjóðarinnar, rétt eins or öðrum sjóðum er eytt. En því sjá ekki ráðherrarnir þetta sjálfir og þá einkum forsætisráðherrann, án ábendingar frá sérstökum ráðgjöfum?

Ég held að fólkið í landinu telji sig hafa orðið vitni að því á rúmlega árs stjórnarferli þessarar „Vinstristjórnar“, sem svo er kölluð, að hún hafi afrekað ótrúlega miklu á skömmum tíma í því efni að snúa traustum og blómlegum þjóðarbúskap í ráðleysi og fullkomna óvissu þar sem öllum vandanum er frestað að einum degi: 1. janúar 1973.

Vikjum þá aftur að „stefnuræðunni“.

Um tvö aðalmálin, landhelgismálið og varnarmálin, er í raun og veru ekkert sagt af hálfu hæstv. forsrh. Engin greinargerð er gefin um stöðu samninganna í landhelgimálinu né að hverju stefnir, og um varnarmálin er bókstaflega ekkert sagt — ekkert!

Við sjálfstæðismenn lögðum áherzlu á að fylgja landsgrunnsstefnunni við útfærslu landhelginnar. Við höfum sífellt lagt mikla áherzlu á friðunarsjónarmiðin, sérstaklega að friða uppeldisstöðvar ungfisks og stöðva þar fyrirhyggjulausa rányrkju. Að felldum tillögum okkar höfum við horið gæfu til að mynda einingu svo að við stæðum sem einn maður út á við.

Okkar tillögur um eflingu Landhelgissjóðs og Landhelgisgæzlunnar hafa verið hunzaðar. Það er því miður, síður en svo, að ekki mætti gagnrýna margt í framkvæmdinni hjá ríkisstj. Ég skal láta gagnrýnina liggja milli hluta að sinni, einkum vegna þess, að öll sólarmerki hafa verið á lofti um það að undanförnu, að ríkisstj. væri mest þörf á því að hreinsa loftið í þessum meginmáli landsmanna í eigin herbúðum, ef ekki á að hljótast stórskaði af.

Þegar kemur að efnahagsmálunum tekur forsrh. skýrt fram, að hann sneiði algerlega hjá fjármálum ríkisins og þar á meðal skattamálum. Hann gleymir alveg að minnast á framkvæmdaáætlun ríkisins og fjárþörfina þar. Þessir meginþættir efnahagsmála spanna þó meira en þriðjung allra þjóðartekna.

Ætli þessi kafli „stefnuræðunnar“ sé ekki örugglega merkastur fyrir það, sem ekki er minnzt á? Skyldi nokkur forsrh. nálægra landa fjalla um ástand og horfur í efnahagsmálum almennt án þess að fjalla um þróun utanríkisviðskipta og greiðslujafnaðar og án þess að fjalla um ríkisfjármál og peningamál, þar á meðal skattamál? Í Njálu stendur: „Engum manni er Kári líkur.“

Í „stefnuræðunni“ er aðeins að finna slitróttar upplýsingar um nokkra þætti efnahagsmála, en ekkert heildaryfirlit um ástand og þróun þeirra mála. Staðreyndir þeirra mála eru hins vegar þessar:

Árin 1971 og 1972 hefur verið einstakt góðæri frá náttúrunnar hendi, þrátt fyrir nokkra minnkun þorskafla á þessu ári. Jafnframt hefur verðlag erlendis verið þjóðarbúinu hagstæðara en í manna minnum. Þrátt fyrir þetta er nú svo komið, að helztu atvinnuvegir landsins, sem enn bjuggu við blómlegan rekstur á árinu 1971, eru reknir með miklum og vaxandi halla og að styrkveitingar hafa verið teknar upp til afkastamestu og mikilvægustu atvinnugreinar landsins, fiskveiða og fiskverkunar. Í þessu skyni á að nota sjóði, sem stofnaðir voru í tíð fyrrverandi ríkisstj. í því skyni að tryggja þjóðina fyrir áföllum af völdum verðfalls erlendis, og þetta á að gerast á þeim tíma, sem verð erlendis er hærra en nokkur dæmi eru til um áður.

Ástæðurnar fyrir þessari uggvænlegu þróun í mesta góðæri, sem um getur, liggja í augum uppi. Þær eru, að núverandi ríkisstj. hefur misst allt taumhald á þróun verðlags og kaupgjalds í landinu og á útgjöldum ríkisins og á framkvæmdum ríkis og ríkisstofnana. Almenningur hefur skjótt áttað sig á þessari þróun mála, og misst alla tiltrú á framtíðarjafnvægi í efnahagsmálum. Útgjöld almennings fara því sívaxandi og sparnaður minnkandi, þrátt fyrir ört hækkandi tekjur.

Viðreisnarstjórnin skildi eftir sig greiðsluafgang ríkissjóðs frá árinu 1970, sem nam. um. 460 millj. króna. Vinstri stjórnin skilar greiðsluhalla eftir góðærið 1971, sem nemur 340 millj. kr. Mismunurinn er aðeins 800 millj. kr.!

Forsrh. segir með þunga: „Það er ófrávíkjanleg stefna stjórnarinnar að afgreiða greiðsluhallalaus fjárlög.“ Þjóðina skiptir öllu máli, að greiðsluafgangur sé á ríkisbúskapnum í reynd, en ekki bara á pappírnum í áætlun fjárlaganna.

Starfsemi Framkvæmdastofnunarinnar hefur ekki leitt til skipulegs áætlunabúskapar, eins og forsrh. telur, að stefnt hafi verið að.

Togarakaupin, stærsta framkvæmdaáformið, hafa verið ákveðin, án þess að Framkvæmdastofnunin kæmi þar við sögu, og raunar án nokkurra undangenginna athugana. Hefði þó verið ástæða til nokkurrar fyrirhyggju, þegar haft er í huga að í tíð fyrrv. ríkisstj. var búið að kaupa til landsins nokkra minni skuttogara og ákveða með löggjöf kaup á 8 stórum, 1000 tonna skuttogurum, og kaup á 5 nýjum minni skuttogurum ráðin. Sama máli hefur fram að þessu gegnt um framkvæmdaáætlanir frystiiðnaðarins.

Forsrh. víkur að nokkrum þáttum atvinnumála. Annar ræðumaður Sjálfstfl. mun víkja að sjávarútvegsmálum og landbúnaðarmálum m.a.

Á árunum 1969–1971 átti sér stað meiri aukning í iðnaðarframleiðslu hérlendis en nokkru sinni áður. Þessi mikli vöxtur átti sér tvær rætur: Annars vegar tilkomu stóriðju með byggingu álversins í tengslum við fyrstu stórvirkjun á Íslandi, Búrfeilsvirkjun, og byggingu kísiliðjunnar. Hins vegar almennan vöxt þess iðnaðar, sem áður hafði verið í landinu og nú tók að skjóta nýjum greinum og beina starfsemi sinni að útflutningi. Forsendur þessarar þróunar voru hins vegar gengisbreytingin 1968 og aukning lánveitinga til iðnaðarins, er gerð var í sambandi við hana, innganga Íslands í EFTA 1970 og stofnun Norræna iðnþróunarsjóðsins og margvislegar aðrar ráðstafanir vegna iðnaðarins, er gerðar voru í því samhandi. Jafnframt var á árunum 1969–1970 og fyrri hluta árs 1971 hafizt handa um gerð iðnþróunaráætlana til lengri tíma fyrir atbeina þáverandi ríkisstj. Áður hafði verið gerð úttekt á iðnaði áratugsins 1960–1970 og samin iðnþróunaráform áratugsins fram til 1980. Sett voru lög um Útflutningsmiðstöð iðnaðarins, en áður hafði Útflutningsskrifstofa Félags íslenzkra iðnrekenda verið styrkt um tveggja til þriggja ára skeið, sett ný löggjöf um Iðnþróunarstofnun Íslands og lög um útflutningslán og samkeppnislán iðnaðinum til handa.

Að öllu þessu býr iðnaðurinn, þar sem sú starfsemi, sem hafin var, hefur haldið áfram, og árangurinn kemur smátt og smátt í ljós. En núv. ríkisstj. hefur ekki lagt snefil til þessara mála umfram það sem áður hafði verið unnið að eða undirbúið. Minna má einnig á setningu laga um virkjun Sigöldu og Hrauneyjafossa frá tíð fyrrverandi ríkisstj. og lög um virkjun Lagarfoss, sem nú er verið að framkvæma.

Nú er hins vegar vá fyrir dyrum hjá iðnaðinum. Stjórn Félags íslenzkra iðnrekenda hefur sent frá sér fyrstu viðvörun í ályktun frá 13. þ.m. Telur stjórn félagsins, að umskipti hafi orðið á stöðu iðnaðarins á s.l. ári, afkoman versnað þrátt fyrir aukið framleiðslumagn. Sama þróun er talin eiga sér stað á þessu ári. Þar með er enn einn aðili meginatvinnuveganna kominn til viðbótar í biðsalinn hjá ríkisstjórninni ráðlausu.

Eflaust fær iðnaðurinn sömu svör og aðrir, að bíða verði þess, að ríkisstj. fái tillögur frá nefndinni alvitru sem vissulega er skipuð ýmsum fremstu sérfræðingum og ágætismönnum og forsrh. sagði, að skipuð hefði verið til að kanna efnahagsástandið og benda ríkisstjórninni ráðlausu á leiðir og valkosti til lausnar á aðsteðjandi efnahagsvanda.

Ráðherrarnir hrukku upp við vondan draum, rétt fyrir ársafmæli ríkisstj. í sumar.

Skyldi vera rétt til getið, að það hafi einmitt verið forráðamenn eins stærsta kaupfélags landsins, sem tóku svo óþyrmilega í hnakkadrambið á hæstv. ráðherrum, að þeim tók að skiljast, að lengur varð ekki flotið sofandi að feigðarósi.

Í ársskýrslu Kaupfélags Eyfirðinga fyrir árið 1971, er að finna margar ákúrur í garð ríkisstj. Þar er talað um umskiptin frá hagstæðasta rekstri í sögu félagsins til taprekstrar fyrir tilverknað núverandi ríkisstjórnar.

Þar segir m.a.: „Mjög hefir syrt í álinn um rekstursútlit á yfirstandandi ári og um næstu framtið vegna þeirra holskeflu kostnaðarhækkana, sem nú ríður yfir.“

Loks segir í skýrslunni: „Útlit er því fyrir, að nú eigi að mæta Hrunadansi kostnaðarverðbólgu með taprekstri fyrirtækja, sem því miður hlýtur að leiða til atvinnusamdráttar, þegar til lengdar lætur.“

Svo mörg voru þau orð samvinnumannanna á Norðurlandi. Þar kennir margra fleiri „ilmgrasa“ af þessu tagi. Þessa eðlis var svefnþornið, sem forráðamenn KEA rykktu úr holdi ríkisstjórnarinnar eða ráðherra hennar. Ekki er að efa að hæstv. forsrh. hafi hnykkt við.

Ríkisstj. hafði þó nokkra tilburði að hægja á „Hrunadansi kostnaðarverðbólgunnar“. Sett voru bráðabirgðalög um tímabundnar efnahagsráðstafanir.

Hver reyndust hin nýju úrræði? Meðal annarra þessi: Verðstöðvun til áramóta.

Frestað greiðslum til launþega sem svaraði 21/2 stigi í kaupgjaldsvísitölu og raunverulegur frestur fleiri vísitölustiga dulinn í breyttu skattkerfi.

Niðurgreiðslur skyldu auknar, en það var eitt af blómunum í hnappagati fjmrh. við afgreiðslu fjárlaga rétt fyrir áramótin að lækka niðurgreiðslur á vöruverði.

Fjárlögum breytt með bráðabirgðalögum, sem er einsdæmi, og ákvæðum laga um framkvæmdaáætlun einnig.

„Stefna stjórnarinnar er óbreytt“! Þetta voru upphafsorðin í ræðu forsrh. Ekki minnist ég þess, að í stjórnarsáttmálanum sé minnzt á verðstöðvunarlög og vísitöluskerðingu, sem af stjórnarliðinu hefur verið talin jafngilda því að svipta launþegana samningsfrelsi. Hitt stóð í „Ólafskveri“, að lækka skyldi verðlag eða verðhækkanir hindraðar. Hefur verið staðið við það? Er stefnan óbreytt?

En nú spyr ég: Hvers vegna þurfti að gripa til þessara neyðarráðstafana?

Það fór ekkert dult á fjölmennari ráðstefnu alþýðusamtakanna, sem í skyndi var kvödd saman í júlímánuði, að það var fyrst og fremst vegna aðgerða ríkisstj. sjálfrar, sem í óefni var komið. Fjölmargar veigamiklar ráðstafanir hennar, eða aðgerðaleysi hennar, hlutu að skapa þá óðaverðbólgu, sem á var skollin. Meðan áhrifa Viðreisnarstjórnarinnar gætti, hafði framfærsluvísitalan aðeins hækkað um ca. 1% á árinu 1971. En hvernig var nú um að litast á miðju sumri:

1. Eftir fyrsta hálfa árið, sem áhrifa vinstri stjórnarinnar gætti í efnahagsmálum, hafði vísitala framfærslukostnaðar hækkað um 9.7%.

2. Ríkisstj. hafði snúið greiðsluafgangi ríkissjóðs frá árinu 1970 í greiðsluhalla Mismunurinn reyndist hvorki meira né mínna en 800 milljónir króna!

3. Yfirdráttarskuld og víxilskuldir ríkissjóðs hjá Seðlabankanum námu um 1970 milljónum króna, eða nærri tvö þúsund milljónum.

4. Skuld fiskveiðasjóðs hjá Seðlabankanum nam um 500 millj. kr., en þessum sjóði er ætlað að fjármagna togarakaupin með 20 ára lánum.

5. Sett höfðu verið glannaleg verðbólgufjárlög.

6. Framkvæmdaáætlun lögfest með ofboðslegum lántökum innanl. og erl. Alls nálægt 1500–1600 millj. kr., til helminga erlend lán.

7. Viðskiptahalli við útlönd varð á fimmta þúsund milljónir króna 1971 og stefnt að sama fyrirhyggjuleysinu og skuldasöfnun erlendis 1972.

Hér er nokkuð nefnt, sem sýnir þó ljóslega, að það er fyrst og fremst ríkisstj. sjálf, sem ber ábyrgð á óðaverðbólgunni.

Vissulega á forsrh. erfiða taflstöðu. Hann reynir að afsaka sig með aflabresti og gengishækkunum erlendis.

Til aflabrestsins hefur ríkisstj. ekki fundið meira en svo að forsrh. upplýsir, að útflutningur sjávarafurða aukist nokkuð að magni í ár vegna birgðaminnkunar, og um leið sé áætlað, að verðhækkun á útfluttum sjávarafurðum nemi að meðaltali 7% á árinu.

Hverjar eru svo þær gengishækkanir erlendis, sem forsrh. er að tala um. Það er gengislækkun krónunnar, sem vinstri stjórnin sjálf hefur ákveðið, sem um er að ræða.

Látum vera, að ríkisstj. hafi ekki ráðið við annað en lækka krónuna með lækkun Bandaríkjadollars að því marki, sem útflutningsvörur eru seldar í dollurum. En þá hefði krónan líka, í mesta góðæri, átt að geta fylgt Evrópugjaldeyri, sem ekki lækkaði, og farið bil beggja í samræmi við hlutfall útflutnings í dollurum og Evrópugjaldeyri, sem mun nálægt 60 á móti 40, eða þrír á móti tveim. En ríkisstj. kaus alhliða gengislækkun gagnvart gulli um 8%. Og enn er gengi krónunnar fellt, nú með uppbótagreiðslum á útfluttar sjávarafurðir. Annars eðlis eru uppbæturnar ekki.

Staða krónunnar var hins vegar þannig á árinu 1970 og sennilega enn fram á 1971, að þáverandi ríkisstj. hreyfði tili. um hækkun hennar í tengslum við lausa kjarasamninga.

Liggur ekki alveg ljóst fyrir, að ríkisstj. á engra kost völ — nema að breyta um stefnu og starfshætti, ef hún ætlar sér annað og betra hlutskipti en að láta reka þar til skútan tekur niðri“ Sandurinn rennur úr stundarglasinu, tíminn er ekki langur til stefnu.

En til hvaða ráða hyggst ríkisstj. grípa? Verður lagt til grundvallar, að heilbrigt atvinnulíf og blómleg framleiðslustarfsemi geti þróazt, sem er vissulega forsenda bættra lífskjara á hverjum tíma, eða verður látið sitja við ósamræmdar handahófsaðgerðir til bráðabirgða?

Það eru slíkar spurningar, og raunar margar fleiri, sem brenna á vörum almennings í dag. Um allt þetta, eða stefnumótum framundan, er forsrh. í „stefnuræðu“ sinni þögull eins og „Sfinxinn, sem hefur sofið í sex þúsund ár“.

„Stefnan er óbreytt.“

„Rétt er að bíða þess, að myndin skýrist og álit efnahagsfræðingana komi fram,“ segir forsætisráðherra.

Þetta er sá erkibiskupsboðskapur, sem þjóðin hefur fengið að heyra í kvöld.

Ríkisstjórnin ráðlausa bíður eftir nefndinni alvitru. Þvílík reisn! Þvílík uppgjöf!

Þegar hæstv. forsrh. gerði grein fyrir stjórnarsáttmálanum í upphafi þings í fyrra, gerði ég grein fyrir afstöðu þingsflokks sjálfstæðismanna til meginatriða hans. Andstaða okkar byggðist á grundvallaratriðum og hugsjónum sjálfstæðisstefnunnar. Þær hugsjónir hefja til vegs persónufrelsi einstaklinganna, athafnaþrá og sjálfsbjargarhvöt þeirra, manngildi og mannhelgi innan frjálslyndra marka ríkisskipulagsins með virðingu fyrir samfélagsvitund og félagslegri samhjálp í formi almannatrygginga og þróun mannúðarmála og jafnri aðstöðu til persónuþroska á sviði menntakerfis og menningar.

Nú gefst ekki kostur þess að fjalla um okkar stefnu í takmörkuðum ræðutíma, um „stefnuræðu“ forsrh., þar sem þingsköp skera stakkinn.

Þingflokkur sjálfstæðismanna mótaði stjórnarandstöðu sína á Alþingi í fyrra mjög augljóslega í meginmálum.

Hann reis öndverður gegn gálausri og stefnulausri fjármálastjórn og benti á nauðsyn þess að reka ríkisbúskapinn á þenslutímum með greiðsluafgangi.

Hann reis öndverður gegn glæfralegri stefnu í öryggismálum þjóðarinnar, sem stefnir í hættu samstarfi vestrænna lýðræðisríkja er raskað gæti því jafnvægi, sem einheitt samstaða ríkja Atlantshafsbandalagsins hefur áorkað að skapa.

Hann reis öndverður gegn vanhugsuðum og illa undirbúnum skattalögum og lagði fram tillögur um mótaða stefnu við nauðsynlega framhaldsendurskoðun þeirra.

Hann reis öndverður gegn hinni sterku tilhneigingu vinstri stjórnarinnar til sívaxandi miðstjórnarvalds, hvort sem hún birtist í mynd Framkvæmdastofnunar ríkisins, — eða pýramídalöguðu raforkukerfi með toppstjórn ríkisvalds, — eða sífellt vaxandi nefndafargani pólitískra ráðam., — eða í öðrum myndum aukinna ríkisafskipta.

Ekki sízt einkenndist stjórnarandstaðan af því að eiga frumkvæði að jákvæðum málefnaflutningi, en þingmenu flokksins fluttu eða stóðu að flutningi á um 100 þingmálum í einu formi eða öðru. Svo mun fram halda.

Herra forseti.

Nú ríður á mestu fyrir allan almenning og atvinnustarfsemi í landinu að komast úr þeim pólitíska vítahring, sem ráðleysi og skaðleg stjórnarstefna hefur skapað.

Ég spái ekki um aldurtila vinstri stjórnarinnar. En það hygg ég, að þorra manna sé ljóst, að mikil vá sé fyrir dyrum, ef framvindan í stjórnmálum heldur áfram í nokkurri líkingu við það, sem verið hefur á fyrsta ári vinstri stjórnarinnar. Ég þakka þeim, sem hlýddu.