09.11.1972
Sameinað þing: 14. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 630 í B-deild Alþingistíðinda. (357)

35. mál, nýting orkulinda til raforkuframleiðslu

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Ég sé ástæðu til þess að fagna því, að þessi mál eru tekin hér til umr. í sambandi við þá þáltill., sem hér er flutt af þremur hv. alþm. Mér finnst að vísu þessi ályktunartill. vera fullþröng, eins og hún er orðuð þarna, og mun kannske víkja svolítið að því síðar í ræðu minni, en fyrst vildi ég geta þess, að þegar þessi þáltill. kom fram, sendi ég hana Orkustofnun til umsagnar, og ég hef nú fengið svar frá Orkustofnun, sem mér þykir rétt, að þm. fái að heyra, því að í því er að finna ýmiss konar fróðleik um starfsemi Orkustofnunar á þessu sviði. Ég vil leyfa mér að lesa upp þetta svar Orkustofnunar, með leyfi hæstv. forseta:

„Í dag hefur hið háa rn. sent Orkustofnun til umsagnar till. til þál. um áætlun um nýtingu íslenzkra orkulinda til raforkuframleiðslu. Meginmarkmið till. virðist vera að tryggja, að tekið verði tillit til vistfræðilegra sjónarmiða við virkjunarrannsóknir og nýtingu orkulinda. Í grg. er gefið í skyn, að svo hafi eigi verið gert til þessa. Hér er rétt að benda á, að enn þá er einungis lítill hluti þeirrar orku virkjaðar, sem talið er, að hagkvæmt muni að nýta, um 8.2%, þegar yfirstandandi virkjunarframkvæmdum lýkur. Enn hefur því ekki á það reynt að neinu marki, hverjir árekstrar kunna að verða milli vistfræðilegra og efnahagslegra sjónarmiða við hagnýtingu orkulinda. Laxárdeilan er aðeins að hluta vistfræðilegs eðlis, en að hinum hlutanum snýst hún um ýmiss konar grundvallarsjónarmið í eignarrétti og stjórnsýslu, sem eru allt annars eðlis og má ekki blanda saman við vistfræði. Að Þjórsárveramálinu er vikið hér á eftir.

Rétt er að leiðrétta það, sem kemur fram í grg., að þessi skilningur á hinum mikilvægu samverkandi áhrífum lands og lífs hafi leitt til nýrrar vísindagreinar, sem nefnd er vistfræði. Vistfræði er vísindagrein, sem er miklu eldri en umr. síðustu ára um umhverfísmál, þótt þær umr. hafi hins vegar orðið til þess að efla hana.

Orkustofnun er sammála flm. um mikilvægi vistfræði í sambandi við orkunýtingu og vill jafnframt skýra frá því, að umhverfisrannsóknir, sem vistfræðilegar rannsóknir eru hluti af, eru nú þegar hluti af virkjunarrannsóknum stofnunarinnar. Þannig hefur Orkustofnun haft með höndum nú í þrjú sumur rannsóknir á Þjórsárverum og varið til þeirra í lok yfirstandandi árs um 6 millj. kr. Eru þær unnar fyrir Orkustofnun af Náttúrufræðistofnun Íslands eftir sérstökum rannsóknarsamningi. Á rannsóknaráætlun fyrir 1973, sem send var fjárveitingayfirvöldum í maí í ár, er gert ráð fyrir að verja alls 3 millj. 680 þús. kr. til umhverfisrannsókna á árinu 1973, þar af 2.6 millj. til rannsókna á Þjórsárverum. Á fskj. í hér með er útdráttur úr grg. stofnunarinnar með fjárveitingatill., þar sem lýst er þeim verkefnum á sviði umhverfisrannsókna, sem ráðgert er að fást við árið 1973. Hversu miklu af þessum verkefnum reyndist unnt að ljúka 1973, er vitaskuld undir fjárveitingum komið fyrst og fremst, þótt mannaflamál komi þar einnig til. Eins og sjá má af fskj. I, eru það margir fleiri virkjunarstaðir en Þjórsárver, sem Orkustofnun ráðgerir vistfræðilegar rannsóknir á. Segja má því, að vistfræði skipi nú þegar fastan sess í virkjunarrannsóknum Orkustofnunar.

Í grg. er vikið að tölum um virkjanlegt vatnsafl á Íslandi. Orkustofnun hefur talið tæknilega nýtanlegt vatnsafl Íslands 35 þús. Gwst. á ári og efnahagslega nýtanlegt vatnsafl 28 þús. Gwst. á ári, þ.e.a.s. það vatnsafl, sem svarar kostnaði að nýta. Eins og margoft hefur verið fram tekið, byggjast þessar tölur sumpart á mjög svo ófullnægjandi rannsóknum, og hefur því orðið að gefa sér fjölmargar forsendur. Tölur þessar ber því að skilja þannig, að þær eigi við þá tæknilega og efnahagslega nýtanlega vatnsorku, sem landið ræður yfir, ef forsendur þær um aðstæður til virkjunar, sem gengið var út frá, reynast réttar. Þetta er ákaflega þýðingarmikið, ef — og raunar mörg „ef“. Það er einmitt tilgangur virkjunarrannsókna að útrýma þessum efum og sannreyna forsendur. Það getur því mætavel verið, að vatnsaflið reynist annað en nú er haldið við nánari rannsókn. Hins vegar er engin ástæða til þess að ætla, að vistfræðileg sjónarmið valdi því fremur en önnur. Er af þeim ástæðum engin ástæða til að endurskoða tölur um vatnsaflið út frá þeim efnum sér.

Segja má, að virkjunarannsóknir, þar með taldar vistfræðilegar rannsóknir, séu sú endurskoðun talnanna, sem till. miðar að. Vistfræðileg sjónarmið hafa áhrif á tilhögun virkjunar og geta valdið því, að taka verði annan kost, fara aðra leið eða breyta ráðgerðri virkjun á annan hátt. Svo fremi að menn hafi í frumtilhögun komið anga á ódýrasta kost, verður slík breyting til þess að hækka virkjunarkostnað. Ef sú hækkun er nægilega mikil, getur virkjunin þar með horfið af því kostnaðarsviði, sem efnahagslega er talið koma til greina, þ.e. hún er útilokuð, af því að hún er talin of dýr. Það er á þennan hátt, sem virkjun getur útilokazt af vistfræðilegum ástæðum. Tæknilega mun oftast unnt að gera virkjun óaðfinnanlega frá vistfræðisjónarmiðum, en hagkvæmni hennar getur þar með farið veg allrar veraldar, og enginn hefur áhuga á að gera slíka virkjun. Vistfræðilegar aðstæður eru um áhrif á virkjanir alger hliðstæða t.d. við jarðfræðilegar aðstæður. Jarðfræði virkjunarstaðar getur gert nauðsynlegar breytingar á tilhögun, er leiða til dýrari virkjunar en reiknað var með í upphafi. Sama er að segja um vatnsrennslisaðstæður og yfirleitt alla þá þætti, er áhrif hafa á virkjanir. Það er yfirleitt ekki hægt að útiloka virkjun á vistfræðiforsendum einum sé. Fyrst verður að kanna áhrif þeirra á virkjunarkostnað.

Sú spurning vaknar stundum, á hvaða atriði beri að leggja mesta áherzlu í virkjunarrannsóknum. Stefna Orkustofnunar í því máli er sú að leggja fyrst og fremst áherzlu á þá þætti, sem ætla má, að hafi mest áhrif á virkjunarkostnað, útrýma stærstu efunum sem fyrst. Það getur að vísu stundum leikið nokkur vafi á því, hverjir þeir þættir eru, og verður að meta það eftir beztu getu hverju sinni. Það er því ekki fortakslaust hægt að segja, að leggja beri meiri áherzlu á einn þátt virkjunarrannsókna, t.d. vistfræðiþáttinn, en aðra, heldur verður slíkt að fara eftir aðstæðum á hverjum stað. Það er tilgangslaust að rannsaka jarðfræði staðar, sem vistfræðikröfur gera óhóflega dýrar í virkjun. Alveg á sama hátt er meiningarlaust að rannsaka vistfræði svæðis, þar sem sýna má fram á það með jarðfræðirannsókn, að virkjunarkostnaður hljóti að verða allt of mikill. Allir þættir þurfa því að koma til álita.

Þjórsárverin eru gott dæmi um það, á hvern hátt vistfræðileg sjónarmið koma inn í virkjunarkostnað við útreikning efnahagslegs ávinnings virkjunar. Virkjun án stíflu við Norðlingaöldu lætur Þjórsárver ósnert, en gefur fremur litla orku og umfram allt fremur dýra orku, e.t.v. svo dýra, að slík virkjun kemur ekki til greina, þótt það liggi enn ekki fyrir. Því hærri stífla sem gerð er við Norðlingaöldu, því meiri verður efnahagslegur ávinningur virkjunar eða öllu heldur virkjana, því að uppistaðan hefur áhrif á aðrar virkjanir í Efri- Þjórsá. Þessi ávinningur heldur áfram að vaxa, a.m.k. upp í þá hæð, að öll Þjórsárver eru komin í kaf. Vöxturinn er hraðastur fyrst, en minni og minni, eftir því sem stíflan er hærri. Áhrifin á umhverfið, þ.e. vistkerfi Þjórsárvera, eru lítil sem engin í fyrstu, en fara vaxandi með vaxandi hæð stíflunnar. Þessi vöxtur áhrifanna á vistkerfið er hægur í fyrstu, en verður sífellt örari, unz mestöll Þjórsárver eru komin í kaf, en eftir það verður hann hægari aftur. Þessum áhrifum er hugsanlega unnt að breyta með ýmis konar hliðaraðgerðum, þ.e. að draga úr skaðlegum áhrifum á umhverfið, en slíkar aðgerðir kosta peninga og verka þannig til hækkunar orkukostnaðar og draga því úr efnahagslegum ávinningi virkjunarinnar. Endanlegt val stífluhæðar við Norðlingaöldu verður því málamiðlun milli óskanna um sem minnst óæskileg áhrif á Þjórsárver annars vegar og um efnahagslegan ávinning af virkjun hins vegar. Þarna verður að koma til mat alveg eins og á mörgum öðrum sviðum. Þannig eru t.d. öryggiskröfur við smíði skipa fram komnar sem málamiðlun milli óskanna um örugg skip og ódýr skip. Fullkomlega öruggt skip yrði svo dýrt, að enginn hefði efni á að láta smíða það. Algerlega ósnert umhverfi yrði líka svo dýrt, að enginn hefði efni á því. En við svona mat skiptir vitanlega öllu máli, að efnahagsávinningur af mismunandi stífluhæð og umhverfisáhrif mismunandi stífluhæðar liggi ljós fyrir í einstökum atriðum. Að afla þeirra upplýsinga er einmitt tilgangur rannsóknanna í Þjórsárverum, bæði vistfræðirannsóknanna og annarra.

Eins og rakið hefur verið hér að framan, eru vistfræðirannsóknir þáttur í virkjunarrannsóknum Orkustofnunar. Það er fyrst, þegar þessum virkjunarrannsóknum er lengra komið en nú er, þ. á m. vistfræðiþættir þeirra, að unnt er að gera sér betri grein fyrir vatnsorku landsins en nú er, þ. á m. út frá vistfræðisjónarmíðum. Eina leiðin til að hraða slíkri endurskoðun er að hraða þeim rannsóknum, sem hún verður að byggjast á. Orkustofnun telur fyrir sitt leyti ekki skipta miklu máli í því sambandi, hvort þáltill. er samþ. eða ekki. Orkustofnunin er að sjálfsögðu reiðubúin til að ræða þetta mál nánar.

Allra virðingarfyllst.

Í fjarveru orkumálastjóra,

Jakob Björnsson.“

Þetta er hin almenna umsögn Orkustofnunar, sem ég bað hana að semja í tilefni af þessari þáltill. En jafnframt fylgdi með frá Orkustofnun útdráttur úr grg. um fjárveitingatillögur Orkustofnunar fyrir 1973, og ég tel rétt að skýra frá því líka, svo að mönnum sé það ljóst, að Orkustofnun ber vissulega að vinna að fjölmörgum atriðum þessa máls. Þar koma fram þessi atriði:

1. Umhverfisrannsóknir: Þjórsárver. Efniviður vegna rannsókna.

2. Þjórsárver, Samningur við Náttúrufræðistofnun. Hér er um að ræða samning við Náttúrufræðistofnun Íslands um rannsóknir á Þjórsárverum, sams konar og þann, sem gerður var 1971 og 1972. Hér er um framhald þeirra rannsókna að ræða.. Þar taka til eftirfarandi: 1. Fæðuhátta gæsa, 2. Varpárangurs, 3. Gróðurs og gróðursamfélaga, 4. Rústa, 5. Vatnalíffræði, 6. Frumframleiðslu, 7. Veðurs. Rannsóknum þessum þarf að halda áfram 1974, ef að líkum lætur.

3.. Þjórsárver. Erlendur ráðunautur um vistlíkan. Markmið Þjórsárverarannsókna er að gera mögulegt að hanna miðlunarvirkin þar á þann hátt, að þau spilli umhverfinu sem allra minnst. Til þess þarf að vera unnt að segja fyrir um áhrif mismunandi hönnunar á vistkerfi Þjórsárvera með og án hugsanlegra bætandi aðgerða. Þetta er flókið mál. Þess er vænzt, að vistlíkan og eftirlíking af því geti reynzt veruleg hjálp í þessu efni. því er ráðgert að leita til erlends ráðunautar um slíkt líkan, þar eð hér á landi eru engir með reynslu í þessum efnum. Fyrr en nú hefur ekki verið tímabært að gera þetta, þar eð gögn þau, sem svona vistlíkan verður að byggjast á, fást fyrst með þeim rannsóknum, sem nú standa yfir.

Þá er Orkustofnun með fjárbeiðni í sambandi við Jökulsá á Fjöllum: Álitsgerð um landbrot. Aurburður Jökulsár á Fjöllum hefur verið mældur um nokkur ár. Við virkjun Jökulsár stöðvast verulegur hluti þessa aurburðar og nær ekki til sjávar. Við það er í einhverjum mæli raskað jafnvægi milli eyðingar strandarinnar af öldu og straumum og aðburði fyllingarefnis. Áformað er að fá álit landmótunarfræðings um það, hversu víðtæk eyðing geti orðið á ströndinni af þessum sökum.

Þá er annað atriði, sem varðar Jökulsá á Fjöllum, álitsgerð um lífræn áhrif. Enda þótt Jökulsá beri ekki mikið fram af lífrænum efnum, þykir samt rétt að fá álitsgerð sérfræðings á því, hvort virkjun árinnar geti hugsanlega haft einhver áhrif á lífsskilyrði í sjónum. Jafnframt er ráðgert að fá álitsgerð um breytingu þá á möguleikum til fiskræktar í Jökulsá, sem leiða kann af virkjun árinnar.

Þá er beiðni, sem snertir Austurland, álitagerð um landbrot. Þar er um að ræða sams konar athugun á áhrifum minnkaðs aurburðar á ströndina og að framan er lýst um Jökulsá á Fjöllum.

Þá er farið fram á fjárframlag til rannsókna á Eyjabökkum á Austurlandi. Eyjabakkar mundu fara undir eitt af uppistöðulónum Austurlandsvirkjunar, ef til kemur. Ekki er vitað til, að þar séu nein þau náttúruverðmæti, sem eftirsjá sé að. Þó þykir rétt að kanna, að svo sé ekki. Hafa Náttúruverndarsamtök Austurlands m.a. sent Orkustofnun erindi um nauðsyn slíkrar rannsóknar. Er vonazt til þess, að með rannsókn á þessu nú á frumstigi undirbúnings megi komast hjá deilum síðar.

Þá er enn í sambandi við Austurlandsvirkjun álitsgerð um veiðiáhrif, en þar er um að ræða sams konar eða svipaða álitsgerð og áður var á minnzt fyrir Jökulsá á Fjöllum. Enn fremur er í sambandi við Austurlandsvirkjun álitsgerð um hreindýr. Sú skoðun hefur komið fram, að Austurlandsvirkjun kynni að hafa óheppileg áhrif á hreindýrastofninn. áformað er að fá álitsgerð sérfræðings á því Þá er atriði, sem snýr að Þjórsá og Hvítá, álitsgerð um ströndina. Þar er um að ræða svipaða álitsgerð og áður er lýst um Jökulsá á Fjöllum, þ.e.a.s. um landbrot. Aðstæður eru þó á ýmsa lund aðrar við suðurströndina. Þar er mikill sandflutningur.

Loks er svo hitadreifing í uppistöðulónum. Ein af þeim áhrifum, sem uppistöðulón geta haft á lífsskilyrði vatnafiska neðan í ánum, er röskun á hitafari ánna vegna hitamiðlunar í lónunum. Hafa má mikil áhrif á þetta hitafar, eftir að lánið er komið, með því að taka vatn úr því á mismunandi dýpi og þar með á mismunandi hitastigi. Til þess þarf hitastigsdreifing í lóninu að vera þekkt. Nýlega hafa komið fram erlendis afreikniforskriftir til að áætla hitadreifinguna út frá veðrinu. Hefur Orkustofnun fengið eina slíka, og er ætlunin að reyna hana við hérlendar aðstæður.

Mér þótti rétt að greina frá þessum atriðum, vegna þess að Orkustofnun hefur nú þegar með höndum ákaflega víðtækar vistfræðilegar athuganir, og hafa þær aukizt til mikilla muna á síðustu árum. Mér er raunar til efs, að nokkur stofnun hérlendis hafi lagt jafnmikla áherzlu á það að flétta vistfræðilegar rannsóknir inn í almennar athuganir sínar eins og Orkustofnun hefur gert. Hins vegar er það alveg vafalaust, að þar má gera enn betur og þarf að gera enn betur.

Hv. þm. Eysteinn Jónsson greindi áðan frá því samstarfi, sem náttúruverndarráð hefur haft frumkv. að við Orkustofnun og við iðnrn., og ég vil fagna því alveg sérstaklega, að hann hefur gert ráðstafanir til þess, að starfandi verði sameiginleg n. iðnrn. og náttúruverndarráðs til þess að fjalla um þessi mál í heild frá umhverfissjónarmiðum. Í sambandi við þessa till., eins og ég sagði áðan, þá fagna ég henni, en mér finnst hún vera fullþröng. Mér finnst hún vera þröng, ekki aðeins vegna þess, að þarna er um að ræða ákaflega lítinn þátt af mjög umfangsmiklu vandamáli, sem kom fram í ræðum frummælenda hér í dag, heldur vegna hins, að þarna er rætt um nýtingu íslenzkra orkulinda til raforkuframleiðslu. Það er einvörðungu rætt um orkuframleiðsluþáttinn, en ekki um það, til hvers orkan er notuð. Og þetta eru liðir, sem ég tel, að tengja verði saman í slíkri rannsókn. Það er að minni hyggju algert úrslitaatriði, að það sé líka kannað og metið af fullri gagnrýni, hvernig sú orka, sem við kunnum að vinna úr vatnsföllum og hverum, er notuð og hver áhrif orkunnar kunna að verða á umhverfið.

Ég hef haft hug á því að flytja brtt. við þessa þáltill., en ég hef ekki komið því í verk enn þá. Hins vegar voru þau atriði, sem ég hef verið að velta fyrir mér, þess eðlis, að Alþ. álykti að fela ríkisstj. að láta gera og leggja fyrir Alþ. áætlun um nýtingu íslenzkra orkulinda til stuðnings og eflingar velferð á Íslandi og að þar eigi m.a. að leggja áherzlu á eftirtalin atriði:

1. Að íslenzka þjóðin hafi á hverjum tíma úrslitavald yfir efnahagslífi sínu og nýtingu orkulinda. Hugsanleg samvinna við erlenda aðila komi aðeins til greina að því marki, sem hún samrýmist þessu höfuðmarkmiði.

2. Að nýting orkulindanna dragi úr hagsveiflum og stuðli þannig að staðfestu í efnahagslífi þjóðarinnar.

3. Að nýting orkulindanna stuðli að æskilegri búsetudreifingu í landinu eftir landshlutum.

4. Að nýting orkulindanna sé gerð með þeim hætti, að hún hafi sem allra minnst skaðleg áhrif á umhverfið, bæði að því er tekur til sjálfra orkuvinnslumannvirkjanna og einnig þeirra atvinnutækja, sem nýta orkuna.

Þetta eru þau atriði, sem ég hefði helzt hug á að koma á framfæri við þá hv. n., sem fær þessa till. til meðferðar, og ef ég kem því í verk að semja þessa till., þá vænti ég þess, að n. líti á brtt. mína líka ásamt hinni upphaflegu till.

Ég nefndi þarna áðan orðið velferð, en með því á ég við ekki aðeins efnahagslegar framfarir, hagvöxt og festu í efnahagslífi, heldur einnig mál eins og sjálfsákvörðunarrétt þjóðarinnar og þroskavænlegt umhverfi, því að þetta tvennt er sannarlega ekki minna velferðarmál þjóðarinnar en t.d. hagvöxtur. Í þeim atriðum, sem ég nefndi, felst það m.a., að nýting orkulindanna verður að vera með þeim hætti, að það valdi eigi óeðlilegri röskun, þenslu eða spennu í íslenzku efnahagslífi með tilliti til framboðs og eftirspurnar eftir vinnuafli, búsetudreifingar í landinu og annarra slíkra þátta. Þetta táknar aftur, að nýtingu orkulindanna verður að skipuleggja með hliðsjón af og í samræmi við væntanlega þróun þess atvinnulífs, sem fyrir er í landinu. Það verður m.ö.o. að skoða nýtingu orkulindanna sem hluta af allsherjaráætlun um þróun íslenzks efnahagslífs, en ekki sem einangrað fyrirbæri. Enda þótt meginmarkmiðið með nýtingu orkulindanna sé efnahagslegs eðlis, þá má ekki gleyma því, að efling efnahagslífs og hagvöxtur eru engin markmið í sjálfu sér, heldur leiðir að marki eða tæki til þess að ná því. Það mark hlýtur að vera að efla lífshamingju og þroska þess fólks, sem á Íslandi býr og mun búa hér í framtíðinni. Því verður að haga nýtingu orkulindanna og efnahagslegri uppbyggingu á þann veg, að eigi sé rifið niður með annarri hendinni jafnframt því, sem byggt er upp með hinni. Umhverfi mannsins hefur mikil áhrif á lífshamingju hans. Það er tilgangslaust að efla hamingju hans eftir efnahagslegum leiðum, ef henni er jafnframt spillt með eyðileggingu umhverfis. Þetta tvennt, hagvöxtur og efnahagsframfarir annars vegar og þroskandi umhverfi hins vegar, verður því að haldast í hendur.

Fyrsta skilyrði áætlunar af þessu tagi er, að gerð sé könnun á áhrifum ýmissa hugsanlegra orkunýtingaráforma á þjóðarbúskapinn með tilliti til þeirra atriða, sem ég minntist á áðan, þ.e.a.s. með tilliti til valds þjóðarinnar yfir efnahagslífi sínu, hagsveifludreifingar, áhrifa á vinnuafl, áhrifa á búsetudreifingu, umhverfisáhrifa o.s.frv. Einhver könnun mun hafa verið gerð með tilliti til sumra þessara þátta í fáeinum stóriðjumöguleikum svonefndum, en engin með tilliti til þeirra allra. En það er þó alger nauðsyn, ef nothæf heildarmynd á að fást. Það er þetta, sem verður að byrja á.

Á undanförnum árum hefur mikið verið rætt um stóriðju og hagnýtingu íslenzkra orkulinda í því sambandi. Talsvert áberandi einkenni á þeim umr. er það, að þær hafa stundum verið æði loftkenndar, ef svo má að orði komast, hrifningar- og draumórakenndar. Ástæðan til þess er tvímælalaust sú, að nýting orkulindanna hefur ekki verið skoðuð sem hluti af heildarmynd af íslenzkri atvinnuþróun, heldur utan og ofan við hana oft og tíðum. Það er einmitt tilgangur áætlunargerðar af því tagi, sem ég hef minnzt hér á, að bæta úr þessu, að skapa forsendur fyrir raunhæfara mati á möguleikum þeim, sem felast í orkulindum landsins. Það leikur tæplega nokkur vafi á því, að þeir möguleikar eru miklir, og ekki heldur á því, að mikil þörf er á að nýta þá, ekki hvað sízt til að draga úr hagsveiflum og til að stuðla að staðföstu efnahagslífi. En slík hagnýting er engan veginn vandalaus fyrir þjóð, sem hefur takmarkað fjármagn og óskar að hafa sjálf úrslitavald í efnahagslífi sínu og búa í óspilltu umhverfi. Þessi leið er vandasöm, en hún er framkvæmanleg. Vandinn má ekki leiða til uppgjafar eða handahófsvinnubragða. Fyrsta skrefið er að gera sér sem gleggsta grein fyrir málinu í einstökum atriðum og ég vænti þess, að sú þáltill., sem hér liggur fyrir og n. á eftir að athuga, geti orðið upphaf eða vísir að slíkri heildarathugun.