09.11.1972
Sameinað þing: 14. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 643 í B-deild Alþingistíðinda. (363)

52. mál, kavíarverksmiðja á Norðausturlandi

Flm. (Bragi Sigurjónsson):

Herra forseti. Till. sú, sem hér er til umr., skýrir sig, að ég vona, sjálf, en þó langar mig til að drepa aðeins á nokkur atriði.

Eins og allir vita, er einna mest framleitt af grásleppuhrognum fyrir Norðurlandi og sérstaklega Norðausturlandi, og þessi framleiðsla hefur löngum undanfarið verið flutt svo til öll út óunnin, en aðrar þjóðir haft af því bæði atvinnuaukningu hjá sér og tekjuaukningu að setja hana í neytendaumbúðir eða umbreyta henni í neytendavörur.

Nú hagar svo til á Norðausturlandi og raunar Norðurlandi öllu, að oft á vetrum vantar vetrarvinnu fyrir marga vinnandi hönd í sjávarplássunum, og því er þessi till. gerð, að þess verði freistað, að einmitt þetta hráefni verði notað til atvinnuaukningar á þessum stöðum. Þó að hér sé fyrst og fremst gert ráð fyrir, að ein verksmiðja verði stofnuð til þessarar framleiðslu og hún rekin með sem mestum myndarbrag og nákvæmni og myndugleik til að byrja með, þá má ætla, þegar fyrstu byrjunarörðugleikarnir hafa verið yfirstignir, að þetta geti orðið atvinnugrein á fleiri stöðum en einum, þó að ég telji heppilegast, og við flm., að það verði byrjað á einhverjum einum stað, meðan verið er að koma þessu vel á laggirnar.

Ég hef svo ekki fleiri orð um þetta mál, en óska eftir því, að umr. verði frestað og málinu vísað til atvmn.