09.11.1972
Sameinað þing: 14. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 646 í B-deild Alþingistíðinda. (366)

52. mál, kavíarverksmiðja á Norðausturlandi

Jón Árnason:

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að ræða þetta mál mikið eða hafa á móti því að þessi till. nái fram að ganga eða málið verði athugað, eins og þar er lagt til. En ég hélt, að þeir í Norðurl. e. væru þessum málum nokkuð kunnugir, vegna þess að það eru, eins og hér hefur verið upplýst, hvorki meira né minna en þrjár verksmiðjur fyrir hendi einmitt í þessu kjördæmi. Á Húsavík er verksmiðja, en það er einmitt Kaupfélag Þingeyinga eða fisksölusamlagið þar, sem keypti vélarnar, sem Samband ísl. samvinnufélaga var búið að starfa með hér sunnanlands í þó nokkurn tíma, og verksmiðjan á Húsavík hefur flutt lítils háttar út af kavíar. Það er ekki komin verksmiðja enn þá á Dalvík, það er rétt, sem hv. þm. segir, en þar er verið að framkvæma þessa hluti, og það er sýnilegt, að þar verður haldið áfram. Það er búið að undirbúa málið töluvert, eins og hv. þm. upplýsti, og að sjálfsögðu verður því haldið áfram.

Varðandi fjármögnun í þessu efni, þá er ýmislegt erfiðara en að fást við það, vegna þess að iðnþróunarsjóðurinn ræður yfir miklu fé, og það er einmitt iðnþróunarsjóðurinn, sem á að koma til hjálpar í slíkri uppbyggingu sem þessari, og hann hefur gert það. Hitt er annað mál, að það eru ekki fyrst og fremst verksmiðjurnar, þó að þær kosti mikla peninga, sem okkur vantar í þessum efnum, til þess að hér sé hægt að byggja upp öflugan atvinnuveg til að veita mörgum atvinnu og auka verulega útflutningsverðmæti hráefnis okkar, eins og var vikið réttilega að áðan, að æskilegt væri. Við eigum, eins og hv. þm. vita, við keppinauta að etja í þessum efnum, t.d. í EBE-löndunum, þar sem markaðurinn er að mjög miklu leyti í Frakklandi, Vestur-Þýzkalandi og fleiri löndum, og þar verðum við að borga af fullunnu vörunni 30% toll. Þeir fá hins vegar grásleppuhrognin, bæði héðan frá Íslandi, Noregi, Grænlandi, Kanada og viðar, inn tollfrjálst sem hráefni handa þessum verksmiðjum þar. Það er þessi aðstöðumunur, sem gerir okkur erfitt um að gera þennan atvinnuveg öflugan. Það er enginn vafi á því, að Samband ísl. samvinnufélaga með þá fjármögnun, sem það ræður yfir í þessum efnum, væri annars búið að ná hér verulegum árangri fyrir löngu, því að það lagði í verulegan kostnað hér suður í Hafnarfirði við svokallaða tilraunastöð í þessu skyni og rak hana um árabil, en stórtapaði á því fé. Þess vegna hætti það framleiðslunni.

Ég held, að þeim í Norðurl. e. yrði ekki mikill greiði gerður með því að fjölga verksmiðjum, á meðan ekki er komið lengra.

Hv. síðasti ræðumaður vildi leggja sérstaklega áherzlu á að breyta þessari till., það ætti að setja fleiri slíkar verksmiðjur á stofn í þessu kjördæmi. Ég held, að það verði ekki leiðin til eflingar þessari atvinnugrein, því að sannleikurinn er sá, og það vita allir, sem eitthvað þekkja til í þessum efnum, að það er útilokað að fara út í þessa framleiðslu án þess að leggja í verulegan kostnað í sambandi við vélakaup og uppbyggingu. Þess vegna verður ekki um það að ræða að hugsa sér að gera þetta í mjög smáum stíl. Það verður að kaupa ákveðnar vélar, og varan verður að vera fyrsta flokks. Án þess er vonlaust, að við getum haldið uppi samkeppni og náð nokkurri verulegri sölu á þessari vöru á erlendum markaði.

Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa fleiri orð um þetta, en vildi þó vekja athygli á því, sem ég hef tekið fram við þessa umr. um málið.