09.11.1972
Sameinað þing: 14. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 648 í B-deild Alþingistíðinda. (369)

52. mál, kavíarverksmiðja á Norðausturlandi

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Ég vil láta það í ljós, að ég tel ekkert nema gott eitt um það að segja, að slík athugun fari fram sem till. sú gerir ráð fyrir, sem hér er til umr. Það hafa verið uppi umr. um niðurlagningu grásleppuhrogna víðar á landinu en í Norðurl. e. og er það einnig svo t.d. í mínu kjördæmi, og ég hygg, að það sé hvarvetna, þar sem um verulega grásleppuveiði er að ræða. Þó að till. þessi sé bundin við Norðurl. e. og sú könnun, sem þar er gert ráð fyrir, hlýtur þó árangur könnunarinnar, ef hann verður einhver, að koma einnig öðrum landshlutum til góða. Ég vil einnig segja það, að í nokkuð mörg ár hefur verið talað um slíkan verksmiðjurestkur eða slíkan fiskiðnað á Skagaströnd, og þar kæmi slík vinnsla vissulega mjög til greina, ef grundvöllur reyndist hagstæður. Í þessu sambandi vil ég jafnframt minna á, að um þessar mundir er Framkvæmdastofnun ríkisins að vinna að sérstakri landshlutaáætlun fyrir Norðurl. v. í atvinnumálum, og þessi þáttur fiskvinnslu er vissulega meðal þeirra þátta, sem þar hljóta að koma til álita.

Að öðru leyti vil ég taka undir það, sem hér hefur komið fram, að það hlýtur að vera okkur til hagsbóta, ef unnt er að vinna sem mest úr því hráefni, sem við öflum úr sjónum kringum landið, ekki einasta á stærri sviðum, eins og í bolfiskafla og loðnu, heldur einnig þeim hluta aflans, sem er í minna magni, eins og vissulega hrognin eru. Allt um það, þá er hér um mikil verðmæti að ræða, og þarf að kanna það til hins ýtrasta, hvort ekki er fjárhagslegur grundvöllur fyrir því, að fullvinnsla fari fram í landinu, og hvort ekki sé um leið grundvöllur fyrir því að fullvinna þessa vöru alla innanlands og loka þannig fyrir markað á söltuðum hrognum til erlendra aðila, sem taka þessa vöru til vinnslu hjá sér og flytja þannig til sín arðinn af vinnslu vörunnar, um leið og við töpum honum.

Þetta mál allt, vil ég, að verði skoðað, og gildir þá einu, hvort staðsetning slíks fyrirtækis er bundin við þennan stað eða hinn, enda þótt viðkunnanlegra hefði verið með tilliti til ágætrar samvinnu okkar Norðlendinga á ýmsum sviðum, þ. á m. í Fjórðungssambandi Norðlendinga, að binda þetta við Norðurland í heild. Þrátt fyrir það, að slíkt hefði verið viðkunnanlegra, geri ég ekki fleiri aths. þar við.