13.11.1972
Neðri deild: 12. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 657 í B-deild Alþingistíðinda. (379)

36. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Umr. um mjólkursölumál hafa tekið bróðurpartinn af starfstíma hv. d. í vikutíma, þannig að þær eru nú orðnar nokkuð langar, og skal ég reyna að koma máli mínu þannig fyrir, að þær lengist ekki úr hófi fram, þó að ég taki hér til máls. Ástæðan til þess, að ég taldi mig knúinn til þess, var sú, að þessar umr. hafa fyrst og fremst snúizt um tilhögun á mjólkursölu á mjólkursamsölusvæðinu hér á Suðvesturlandi, en sáralítið snúizt um, hvernig ástandið er á landsbyggðinni.

Sannleikurinn er sá, að þótt eitthvað megi að ástandinu í mjólkursölumálum finna hér á samsölusvæðinu, þá kastar fyrst tólfunum, þegar kemur út á landsbyggðina. Ég vil minna á það, að stefna fyrrv. landbrh. í þessum málum var sú að auka frjálsræði í mjólkursölu, án þess að kæmi til lagabreytingar. Sú stefna bar þann árangur, að hér á mjólkursölusvæðinu var þetta framkvæmt að nokkru leyti. Ýmsar einkaverzlanir fengu hér mjólk til dreifingar. En úti á landsbyggðinni reyndist þetta torsóttara, t.d. eins og í Ólafsfirði kom skýrast í ljós, þar náði þessi stefna alls ekki fram að ganga. Ég vil minna á þetta í sambandi við það, sem hæstv. landbrh. sagði hér, að hv. 1. þm. Sunnl. hafi verið í ráðherrastóli í 12 ár og ekkert aðhafzt í þessu máli. Ég held, að þarna sé ekki farið rétt með. Hans stefna var sú að koma fram umbótum í þessu efni, bæði fyrir neytendur og framleiðendur, innan ramma þeirrar löggjafar, sem fyrir var. Nú hefur hins vegar komið í ljós, að það hefur ekki tekizt vegna andstöðu ýmissa aðila, sérstaklega úti á landsbyggðinni, og hér hefur hæstvirtur 2. þm. Sunnlendinga, Ágúst Þorvaldsson, lýst því yfir f.h. stjórnar Mjólkursamsölunnar, að mér skildist, í fyrra við umr. um þessi mál, að mjólkursamsölustjórn væri andvíg breytingum í þessum efnum, hún teldi, að hún mundi ekki ljá máls á neinum breytingum í þessum málum, nema til kæmi lagabreyting. Þess vegna yrði að koma til kasta löggjafans, ef breytingar ættu að verða í þessum málum.

Ástæðan fyrir því, að þetta frv., sem hér er til umr., er borið fram, er sem sagt þessi, að það virðist ljóst, að stefna fyrrv. landbrh. að auka frjálsræðið í þessum málum nái ekki fram að ganga, bæði vegna þessarar yfirlýsingar, sem ég vitnaði til áðan, frá hv. 2. þm. Sunnl. og eins vegna andstöðu ýmissa aðila, sérstaklega úti á landsbyggðinni.

En þá vil ég aðeins víkja að því, hvernig ástandið er í þessum málum á landsbyggðinni. Þar er það svo, að á mörgum stöðum, t.d. Bolungarvík, Ísafirði, Ólafsfirði, Seyðisfirði og víðar, er mjólkursalan á höndum eins aðila, og þrátt fyrir eftirsókn frá einkaverzluninni hefur ekki tekizt að fá mjólk til dreifingar til baga bæði fyrir neytendur og fyrir þessa verzlun. En ég vil minna á í þessu sambandi, að hér hefur verið mikið talað um, að það sé einkum tvennt, sem sé gegn því að auka frjálsræðið í mjólkursölu, það sé, að ekki megi slaka á hollustuháttum, og það megi ekki gera þetta vegna þess, að þá þurfi e.t.v. að loka mjólkurbúðum og það auki dreifingarkostnaðinn. Þetta voru þau atriði, sem hæstv. Landbrh. lagði alla áherzlu á og taldi vera kjarna þessa máls. Ég vil benda á, að hvorugt þetta atriði á við úti á landsbyggðinni. Það er ekkert erfiðara að líta eftir hollustuháttum hjá einkaverzlun en kaupfélagsverzlun, og það eykur dreifingarkostnað ekki nokkurn skapaðan hlut á landsbyggðinni, þótt einkaverzlun fái mjólkursölu. Það þarf ekki að loka þar neinum mjólkurbúðum og einkaverzlunin býðst til þess viðast hvar að taka mjólk til sölu með nákvæmlega sömu álagningu og kaupfélagsverzlanir, þannig að á landsbyggðinni er alls ekki til að dreifa þeim mótbárum, sem hér hafa eingöngu verið bornar fram gegn þessu máli.

Hæstv. ráðh. sagði, að það væri síður en svo, að einokun ætti sér stað í mjólkursölumálum. Þetta á líka við eingöngu hér á samsölusvæðinu. Hér er nokkurt frjálsræði í mjólkursölu. En víða á landsbyggðinni er ekki hægt að segja annað en um einokun sé að ræða. Ég held því, að það sé brýn nauðsyn á því, að löggjafinn láti þetta mál til sín taka. Hæstv. ráðh. tók því ekki illa í fyrri ræðu sinni, sem hann flutti, að skoða þetta mál. Hann dró að vísu nokkuð í land í seinni ræðunni, en þó hygg ég, að það sé vilji hans, að mál þetta verði skoðað af sanngirni með hag beggja fyrir augum, bæði framleiðenda og neytenda. Og það er það, sem vakir fyrir okkur flm. þessa frv., að það verði gert. Ég lýsi mig reiðubúinn til þess að skoða málið á þann hátt, að samstaða geti náðst um það, ef það verður til þess, að frjálsræði verður aukið á þessu sviði með hag beggja fyrir augum, bæði framleiðenda og neytenda.