13.11.1972
Neðri deild: 12. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 659 í B-deild Alþingistíðinda. (380)

36. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Það er nú búið að þæfa þetta mál alllengi hér í þingi og umr. sundurslitin, þannig að ef víkja ætti að því rækilega, þá krefðist það langrar og leiðinlegrar upprifjunar, þannig að ég mun aðeins stikla á því stærsta.

Margt fróðlegt hefur komið fram undir umr., og verð ég að segja, að mér þótti aðalmálsvari andstæðinganna, hv. 2. þm. Sunnl., Ágúst Þorvaldsson, halda drengilega og lipurlega á því, sem ég vil nú reyndar nefna lélegan málstað. Hið sama verður ekki sagt um hv. 4. þm. Norðurl. e., og mun ég víkja að því síðar. En fjmrh. lagði áherzlu á tvö atriði sérstaklega, og hann ítrekaði þá áherzlu sína í báðum þeim ræðum, sem ég heyrði hann flytja um málið. Og það var í fyrra lagi um hreinlætiskröfur, að ekki yrði slakað á í þeim efnum, og í öðru lagi, að kostnaði yrði haldið í skefjum.

Ef við víkjum að hreinlætiskröfunum, fyrra atriðinu, þá vil ég benda á, að þetta frv. út af fyrir sig haggar ekki neinu í því atriðl, nema síður sé, þar sem sérstaklega er tekið fram, að samþykki hlutaðeigandi heilbrigðisyfirvald skuli liggja fyrir, ef veita á mjólkursöluleyfi. Og það er öðru nær, — ég vil segja þvert á móti, að þetta frv. gefi neitt tilefni til þess, að verði slakað á klónni í þeim efnum, enda hafa allir fyrir augum hina brýnu nauðsyn, sem á því er að viðhalda hinum ströngustu kröfum um fyllsta hreinlæti. Ég geri þess vegna ráð fyrir, að þetta atriði, hið fyrra, sem hann nefndi og lagði höfuðáherzlu á, eigi ekki að þurfa að verða þrætuepli í þessu sambandi. Og þá er hið síðara, um kostnaðarhliðina, að þess yrði gætt, að kostnaði við dreifinguna yrði haldið í lágmarki, og vitanlega bæri að leggja alla áherzlu á það. Það er hagur neytendanna ekki sízt.

Nú skal ég ekkert um það segja, enda ekki því kunnugur, hvernig upphaflega var til þess stofnað, að Mjólkursamsalan sjálf hóf að reka mjólkurverzlanir. Ég geri ráð fyrir því, að þannig hafi verið í pottinn búið, að þá hafi ekki verið yfirleitt um dreifingaraðila hér í þéttbýlinu að tefla, sem gátu tekið slíkt að sér, m.a. vegna hreinlætiskrafna. Ég geri ráð fyrir því. Þessu er allt öðruvísi varið í dag en þá. En hv. 2. þm. Sunnl., Ágúst Þorvaldsson, fitjaði upp á því m.a., að ef til þess kæmi, að fleiri aðilar önnuðust dreifinguna, t.d. hér í þéttbýlinu, mundi þurfa að leggja í ýmsan kostnað, t.d. bifreiðakostnað, sem hann taldi mikinn, vegna þess og dreifingin yrði öll dýrari. Ég hef að vísu ekki fyllstu upplýsingar, en nokkrar upplýsingar hef ég í höndum, sem ég aflaði mér og gefa innsýn f, hver rekstrarkostnaðurinn er að nokkru hjá Mjólkursamsölunni í Reykjavík, án þess þó að ég hafi haft tök á því sérstaklega að kryfja þær upplýsingar til mergjar.

Í árslok 1971 munu verzlanir í Reykjavík, sem Mjólkursamsalan rak, hafa verið 50 talsins, og á Reykjavíkursvæðinu, trúi ég, Kópavogi og Hafnarfirði og þar, störfuðu 202 stúlkur, þar af 58, sem nefndar eru hálfs dags stúlkur. Eftir því sem næst verður komizt, en þó lauslega áætlað, má gera ráð fyrir, að laun þessara stúlkna nemi um 50 millj. kr. á ári. Mjólkursamsalan á samtals 56 búðir, þar af 37 í Reykjavík. Aðrar eru dreifðar um landið allt vestur á Snæfellsnes, til Vestmannaeyja og viðar. Nú skal ég engum getum að því leiða, hvaða fjármagnskostnaður er þarna á ferðinni, hvað snertir þessar verzlanir. En hann er mjög mikill, og til að mynda má geta þess, að fyrir einum 4–5 árum, er reist var ein nýjasta verzlunin hér í Reykjavík, mun kostnaður við hana hafa farið fram úr 1.5 millj. kr. Ef reynt væri að gera sér grein fyrir söluverði þessara verzlana, ef ætti að selja þær, þá mætti segja mér, að það kynni að vera 70–80 millj. kr. Allt eru þetta lauslegar tölur, sem ég aðeins nefni, til þess að þetta mál verði rannsakað sérstaklega og þá af þeirri n., sem menn gera sér vonir um, að hæstv. landbrh. skipi til rannsóknar á öllu málinu, því að það er ástæðulaust, enda þótt málið sé viðamikið — og þess vegna aðallega, að flaustra að neinu í þessum efnum.

Það er ljóst, að m.a. með hinum glæsilegu nýju kjörbúðum, sem víða er að finna, t.d. í þessari borg, og hæstv. ráðh. minntist sérstaklega á, er aðstaðan orðin allt önnur en áður var. Og ef við hugsuðum okkur t.d., að almennar verzlanir tækju við mjólkurdreifingunni allri, sem ekki er vitanlega í boði, þá er alveg ljóst, að það mundi krefjast aukins mannskapar þar, enda þótt víða sé sjálfsafgreiðslufyrirkomulag. En það er alveg óhætt að fullyrða, að það mundi ekki krefjast 202 starfsstúlkna í viðbót í þeim verzlunum, sem þetta mundu taka að sér og mundu vafalaust að öðru leyti vera í stakkinn búnar til þess að annast þessa þjónustu alveg, nema e.t.v. á einstöku stað, þannig að það er um verulegan sparnað að tefla.

Þetta, sem ég segi, á að öllu leyti við þéttbýlið, og það er eins og hv. síðasti ræðumaður, hv. 5. þm. Norðurl. e., nefndi, að málin horfa allmikið öðruvísi við, þegar út á landsbyggðina kemur, — allmjög öðruvísi við. Og það er ekki um það að tefla, að nokkur vafi leiki á því, að það mundi auka kostnaðinn við dreifinguna, þótt öðruvísi væri að málum staðið heldur en við höfum fyrir augum viðast hvar um landið.

Hv. 4. þm. Norðurl. e., Stefán Valgeirsson, ræddi um forréttindi kaupmannastéttarinnar.

Hann getur úr flokki talað undan handarjaðri KEA við Eyjafjörð. Það má svo sem auðvitað finna fleiri dæmi um forréttindi, sem kaupmenn hafa haft í hans kjördæmi. Til að mynda skilst manni, að Kaupfélag Suður-Þingeyinga hafi lifað í rúmlega 80 ár á góðgerðastarfsemi, meðan kaupmenn lifðu á Húsavik í vellystingum praktuglega, þeir Guðjohnsen t.d. En sleppum því. Og minni verður góðgerðastarfsemin hjá þessum félögum, eftir því sem keppinautum þeirra fækkar, og minnst þar, sem enginn keppinauturinn er og kaupmenn hafa notið þeirra forréttinda að fara á höfuðið. En það er fjöldi dæma um, hvernig þessum málum er háttað úti á landsbyggðinni, og eins og hv. síðasti ræðumaður tók fram, jaðrar við, að kallazt geti einokun í þessu efni.

Ég vil benda á, að eigi alls fyrir löngu birtist grein í Morgunblaðinu eftir kaupkonu á Seyðisfirði. Hún hefur allmarga viðskiptamenn, sem stunda útgerð, og það er á ýmsum tímum, sem bátar þurfa að taka kost fyrir skipverja sína, og í þessu efni hefur kaupfélag á staðnum e.t.v. ekki staðið sem skyldi, en einstaklingurinn telur það ekki eftir sér. Málum er þann veg háttað þar, að hún varð að kaupa mjólkina í smásölu kaupfélaginu og endurselja hana vitanlega álagningarlaust. Látum það vera. En það hefur harðnað á dalnum í þessum efnum, þannig að í dag er svo komið, að ef yfirmanninn þar grunar, að fólk sé á ferðinni, sem er að kaupa mjólk í kaupfélaginu á vegum þessara verzlana, þá er það umyrðalaust rekið á dyr. Sjá allir, að á okkar rímum fær þetta ekki staðizt, og verður að ráða bót á. Enginn kostnaðarauki kemur til greina við að láta þessa glæsilegu verzlun þarna á staðnum hafa mjólk til sölu einnig jafnhliða kaupfélaginu. Svipaða sögu er viðar af þessum málum að segja. Virðuleg samtök eins og mjólkursamsölur og samlög geta ekki verið þekkt fyrir, að þetta spyrjist.

Vitanlega er þetta gert með því markmiði, svo að talað sé alveg hreinskilningslega, að mjólkin er sú vara, sem notuð er dags daglega, og fólk leitar í þær verzlanir, þar sem hún fæst. Vitanlega birgir það sig upp af annarri vöru um leið, og að sjálfsögðu er þetta eitt aðalatriðið í því að draga til sín viðskiptavini. Um þetta þarf ekkert að fara í grafgötur. Og það er þessi samkeppnisaðstaða, sem ekki má haldast miklu lengur en orðið er. Þessi dæmi hafa verið nefnd af Ísafirði, þau hafa verið nefnd hér í þessum umr. af Ólafsfirði og víðar.

Ég tek undir það með hæstv. ráðh., að þetta mál verði skoðað rækilega ofan í kjölinn, þessir tveir höfuðþættir, sem hann nefndi og verði skipuð n., eins og manni skildist, að hefði staðið til fyrir einu ári, til þess að grandskoða það. Hann lofaði því, að sú n. skyldi ekki verða einsýn. Því ber einnig að fagna. Málið er mikils virði. Þetta er mikils virði fyrir neytendur ekki sízt. Það er auðvitað mjög mikils virði fyrir framleiðandann, þegar við höfum kostnaðarhlið málsins í huga. Enginn vafi er á því, að þetta mundi ekki draga úr sölu á mjólkurafurðum, heldur þvert á móti. Ég heyrði ekki betur en allir þeir, sem um málið ræddu, enda þótt þeir í ýmsu væru á það gagnrýnir, hvettu til þess, að málið væri grandskoðað ofan í kjölinn og reynt að ná samkomulagi, skynsamlegu samkomulagi um úrbætur. Þetta heyrði ég á máli hv. 2. þm. Sunnl. og jafnvel hv. 4. þm. Norðurl. e., þótt hann hefði í öðru orði alleinkennilegar fullyrðingar í frammi, en sleppum því. Aðalatriðið er, að hafinn verði undirbúningur að rannsókn þessa máls, þannig að úr megi bæta, eftir því, sem hér er lagt til með þeim frv.-flutningi, sem við nokkur saman stöndum að.