14.11.1972
Sameinað þing: 15. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 674 í B-deild Alþingistíðinda. (393)

265. mál, framhald á gerð Norðurlandsáætlunar

Fyrirspyrjandi (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram á þskj. 40 eftirfarandi spurningar til hæstv. samgrh. um framkvæmd samgönguþáttar Norðurlandsáætlunar:

„a. Hve miklu fjármagni hefur verið varið til að framkvæma samgönguþátt Norðurlandsáætlunar á yfirstandandi ári? b. Hvað dvelur framkvæmdir ýmissa áætlaðra verkefna, t.d. á Ólafsfjarðarvegi norðan Hörgár? c. Hvað er áformað að framkvæma á Akureyrarflugvelli næsta ár? Verður viðbótarbygging við flugskýli tekin þá í notkun?“

Út af a-lið fsp. tel ég rétt að minna á, að við afgreiðslu framkvæmda- og fjáröflunaráætlunar á s.l. vori lagði ríkisstj. til, að varið yrði til þess að framkvæma samgönguþátt Norðurlandsáætlunar einungis 100 millj. kr. Þá var einnig gert ráð fyrir því í þessum till., að áætlunin skyldi aðeins ná til vegaframkvæmda á yfirstandandi ári. Hér var í fyrsta lagi um algera stefnubreytingu að ræða frá því, sem heimamenn og fyrrv. stjórnvöld höfðu markað um undirbúning áætlunargerðarinnar, sem var miðaður við, að samgönguþátturinn næði einnig til hafna- og flugmála auk vegamála. Í annan stað var hér um stórkostlegan niðurskurð að ræða frá því, sem Efnahagsstofnunin og síðar Framkvæmdastofnun ríkisins höfðu lagt til, að varið yrði til framkvæmdar samgönguþáttar Norðurlandsáætlunar árið 1972.

Í tíð fyrrv. ríkisstj. var gengið út frá þeirri stefnu, að 45% framkvæmdaþarfar í vegamálum á Austfjörðum skyldi verða sú viðmiðun, sem fjáröflun á áætlunartímabilinu miðaðist við. Í samræmi við það var gert ráð fyrir að afla 300 millj. kr. til Austfjarðaáætlunar á 4 árum eða 75 millj. kr. á ári. En í till. ríkisstj. var, eins og ég sagði áðan, aðeins ætlað að verja 100 millj, kr. til hliðstæðra framkvæmda í Norðurlandsáætlun, sem þó nær yfir tvö kjördæmi auk Strandasýslu. Megn óánægja kom fram á síðasta þingi um þessa stefnu ríkisstj., og fékkst samþykkt heimild til að afla 120 millj. kr. til Norðurlandsáætlunar, þó þannig, að settar voru á lið, sem hlaut nafngiftina óskipt, 20 millj. kr. Ég vænti þess að fá greinargóð svör um það frá hæstv. ráðh., hvort þessu fé hefur verið varið til framkvæmda eða ekki á yfirstandandi ári.

Út af lið b vil ég taka fram, að alls er áætlað að verja 14 millj. kr. á yfirstandandi ári, bæði samkv. Norðurlandsáætlun og vegáætlun, til þess að endurbyggja Ólafsfjarðarveg frá Hörgá að Reistará. Ekki verður annað séð en hér hafi eitthvað annað en fjármagnsskortur hamlað framkvæmdum, þar sem sáralítið hefur verið gert á þessum vegarkafla í sumar. Því er spurt: Hvað dvelur þessa framkvæmd?

Í þriðja lagi hef ég leyft mér að spyrja hæstv. ráðh. um framkvæmdir á Akureyrarflugvelli. Enn þá heyrir slíkt að vísu ekki undir Norðurlandsáætlun formlega, en ég vænti þess, að þessu sé auðsvarað engu að síður, þar sem fjáröflunar- og framkvæmdaáætlunin hlýtur að vera vel á veg komin fyrir næsta ár. Á Akureyri er í smíðum viðbótarbygging við flugstöð, sem er hin brýnasta framkvæmd, því að þrengsli há nú allri afgreiðslu á flugvellinum. Um Akureyrarflugvöll fara nú yfir 50 þús. manns á yfirstandandi ári, að því er talið er, og aukning hlutfallslega meiri þar í farþegafjölda en víðast annars staðar á landinu.