17.10.1972
Sameinað þing: 3. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 73 í B-deild Alþingistíðinda. (40)

Stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana

Jón Árnason:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Greinilegt er, að núv. stjórnarflokkar hafa gefizt upp við að telja fólki trú um, að viðskilnaður fyrrv. ríkisstj. í efnahagsmálum hafi ekki verið góður. Það var aðeins hæstv. sjútvrh., sem reyndi hér áðan að krafsa lítið eitt í bakkann, en ekkert vitnar betur um, hvað aðkoman var góð að þeirra dómi, en sjálfur stjórnarsáttmálinn, þar sem þeir töldu þegar í upphafi, að óhætt væri að lofa launþegum 20% kaupmáttaraukningu á næstu tveim árum. Það talar einnig sínu máli, að hin nýja ríkisstj. sá sér fært að ráðstafa úr ríkissjóði hundruðum millj. kr. þegar á sínum fyrstu dögum. Það var einnig ánægjuleg staðreynd, að vegna góðrar afkomu ríkissjóðs var mögulegt að láta lög um almannatryggingar, sem samþ. voru á Alþ, þann 6. apríl 1971 og fólu í sér auknar bætur á ellilífeyri og örorku koma til framkvæmda nokkrum mánuðum fyrr en annars hefði orðið. Allt þetta talar sínu máli um góðan viðskilnað fyrrv. ríkisstj.

Mönnum er enn í fersku minni sá áróður, sem fyrrv. stjórnarandstöðuflokkar héldu uppi á viðreisnarstjórnina fyrir stefnu hennar í efnahagsmálum og að þeirra dómi óhóflega útþenslu í ríkiskerfinu með síhækkandi fjárl. Hverjar eru svo efndir vinstristjórnarmannanna um að draga úr útþenslu í ríkisbálkninu og lækka álögur á þjóðina? Aldrei fyrr í íslenzkum stjórnmálum hefur slík kollsteypa átt sér stað hvað viðkemur útþenslu í ríkiskerfinu og auknum álögum á allan almenning. Aðeins 16 mánuðum eftir valdatökuna skilar ríkisstj. fjárlagafrv., sem er að upphæð yfir 20 þús. millj kr., og hefur þannig hækkað ríkisútgjöldin um sem næst 100% á þessum tíma.

Nú kemur hæstv. forsrh. fram fyrir þjóðina og er næsta hreykinn yfir þessu heimsmeti, sem stjórn hans hefur sett. Stefnan er óbreytt, segir ráðh. Áfram skal halda í sömu átt. Það þýðir að sjálfsögðu meiri verðbólgu og meiri álögur á þjóðina. Við afgreiðslu fjárl. fyrir árið 1972 vöruðu stjórnarandstæðingar alvarlega við þeirri geigvænlegu hækkun, sem þá var stefnt að og vitað var, að gat ekki leitt til annars en ofþenslu og stóraukinnar verðbólgu í landinu. Það hlaut því að leiða til þess, að atvinnuvegirnir og þá sérstaklega sjávarútvegurinn og allt atvinnulíf í landinu yrði í mikilli hættu. Á þetta var ekki hlustað, stefnunni var ekki breytt og allt keyrt í gegn án þess að líta til hægri eða vinstri.

Ekki leið á löngu, að áhrif þessarar óhappastefnu færu að segja til sín. Hæstv. forsrh. sagði í ræðu sinni hér áðan, að aflaminnkunin ásamt verulegum hækkunum á tilkostnað í landinu hefði þrengt svo mjög að afkomu sjávarútvegsins á síðustu mánuðum, að ekki hefði verið hægt að komast hjá því að gefa út brbl. um tímabundnar efnahagsráðstafanir, sem í fólst verðstöðvun til áramóta og binding á kaupgjaldsvísit. Þannig er þá ástandið um þær mundir, sem ríkisstj. gat haldið upp á sitt fyrsta ársafmæli. allt fyrir það, sem ég hef nú sagt um stóraukin útgjöld ríkisins og hækkandi fjárlög, er mér fyllilega ljóst, að ætli ríkisstj. að halda óbreyttri stefnu í efnahagsmálum, þá vantar enn allverulega á, að fjárlagafrv. sýni rétta mynd af því, sem koma skal, áður en fjárlög verða afgreidd. Það er vitað, að án áframhaldandi verðstöðvunar eða hliðstæðrar ráðstöfunar fyrir sjávarútveginn hefur hann engan rekstrargrundvöll og hlýtur að stöðvast. Þar til viðbótar kemur sá kostnaður, sem leiðir af hækkuðu fiskverði og söluverð afurðanna getur ekki staðið undir, en verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins stendur nú undir til bráðabirgða. Þá kemur til 6% kauphækkunin 1. marz n.k. samkv. gerðum kjarasamningum. Augljóst mál gr. að miðað við óbreyttar aðstæður er sjávarútvegurinn engan veginn fær um að hæta þeim kostnaði á sig. Aðeins þessir þrír þættir, sem ég hef nú nefnt, munu vera metnir að upphæð, sem nemur ekki undir 2500 millj. kr., og til að mæta þeirri upphæð eru engar till. í fjárlagafrv. Það er ekki að ástæðulausu, að hæstv. forsrh. taldi ekki ástæðu til þess hér áðan í sinni ræðu að ræða um fjármálin í sínum boðskap.

Ríkisstj. bíður nú eftir leiðsögn þeirra sérfræðinga, sem hún hefur fengið sér til aðstoðar til þess að komast út úr þeim ógöngum, sem hún hefur leitt þjóðina í. Vonandi finna þeir ráð, sem dugar, en þá er eftir að vita, hvort ríkisstj. her gæfu til að hlíta leiðsögn þeirra. Hinar miklu sveiflur í sjávarútvegi, bæði á sviði verðlagsmálanna og einnig í aflamagninu, hafa kennt Íslendingum, að það eru hyggindi, sem í hag koma, að leggja nokkuð til hliðar, þegar vel árar, og eiga til uppbóta, þegar í móti blæs. Með skynsamlegum ráðum og ráðstöfunum hafði fyrrv. ríkisstj. byggt upp varasjóði sjávarútvegsins í góðæri, á meðan afurðaverð stóð vel. Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins var stofnsettur með l. nr. 72 28. maí 1969. Það fer ekki milli mála, að afkoma sjávarútvegsins stendur mjög höllum fæti í dag. Oftar en einu sinni hefur til þess komið, að einstökum greinum hans lægi við að stöðvast, og nú um s.l. mánaðamót var viðurkennt, að óhjákvæmilegt væri að hækka fiskverð verulega til þess að jafna launakjör sjómanna við launakjör annarra stétta í landinu og til þess að bæta kjör útgerðarinnar. Þá var einnig upplýst af n., sem sjútvrh. hafði skipað, að staða frystihúsanna hafði versnað á ársgrundvelli um 200–250 millj. kr. Úrræði hæstv. ríkisstj. til lausnar þessum vanda, sem m.a. er til kominn vegna hinnar hömlulausu verðbólgu, sem á sér stað og enginn sér fyrir endann á, eru þau að láta verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins greiða brúsann. Með þessu er verðjöfnunarsjóðnum beint inn á aðrar brautir en ætlað var, og ef áfram verður haldið á þeirri braut, munu verðbólgan og ríkisstj. verða fljót að tæma þennan sjóð eins og aðra þá sjóði, sem handbærir voru frá stjórnartímabili viðreisnarstjórnarinnar. Nú munu vera í verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins um 1100 millj. kr. Gert er ráð fyrir, að bráðabirgðaráðstafanirnar til áramóta muni kosta um 88 millj. Þegar verðlagsráð ákvað nú 15% hækkun fiskverðs, lagði það til grundvallar viðmiðunarverð, sem er verulega hærra en það bezta, sem til þekkist í heiminum.

Af þessu dæmi verður bezt séð, út á hve hálan ís íslenzkt efnahagslíf er komið. Segja má, að það sé verðjöfnunarsjóðurinn, sem í dag er það haldreipi, sem fleytir þjóðarskútunni áfram og forðar í augnablikinu sjávarútveginum frá þeirri stöðvun, sem við blasti. því verður ekki trúað, þegar til þess kemur um næstu áramót að leysa þennan vanda að nýju, að ríkisstj. leiti ekki annarra ráða til úrlausnar en að halda áfram að brenna þennan sjóð á báli verðbólgunnar.

Á s.l. sumri, þegar veiðar togaranna voru að stöðvast vegna taprekstrar á karfavinnslunni, kom hæstv. sjútvrh. með þá lausn að fella niður útflutningsgjöld af frystum karfaflökum, sem annars áttu að ganga til vátryggingasjóðs fiskiskipa. Þessi ráðstöfun var algerlega óraunhæf, þar sem vitað var, að vátryggingasjóðinn stórvantar fjármagn, til þess að hann geti staðið við sínar skuldbindingar. Á árinu 1971 var halli vátryggingasjóðsins 54 millj. kr. Á yfirstandandi ári er áætlað, að hallinn verði 96 millj. kr. Er nú svo komið, að sjóðurinn er orðinn á eftir með greiðslur sínar sem nemur um 9–10 mánuðum og auk þess er skuld hans við Seðlabankann um 40 millj. kr. Þegar þetta er athugað, er augljóst mál, hvað hér hefur verið um óraunhæfar ráðstafanir að ræða, og vil ég leyfa mér að spyrja ræðumann Alþb., hæstv. iðnrh., sem talar hér á eftir, hvort honum sé kunnugt um, að nokkrar ráðstafanir séu fyrirhugaðar af hendi hæstv. sjútvrh. til þess að bæta stöðu vátryggingasjóðs fiskiskipa, því að á því er vissulega full þörf.

Hæstv. forsrh. gerði nokkra grein fyrir frv., sem snerta landbúnaðinn og ríkisstj. hyggst leggja fram á þessu þingi. Er þar efst á blaði frv. til framleiðsluráðslaga, sem fram kom á siðasta þingi, en á nú að endurflytja. Hér er um heilmikinn lagabálk að ræða, sem engin samstaða náðist um á siðasta þingi, og vonandi dagar frv. uppi enn, verði það flutt í sömu mynd og áður og fáist ekki breytt. Það er vitað, að um frv. eru mjög skiptar skoðanir, enda orka sum ákvæði þess tvímælis og stríða á móti hagsmunum bænda. Þá er væntanlegt frv. til l. um orlof bænda, en það mun vera í frammaldi af þáltill., sem nokkrir sjálfstæðismenn fluttu á siðasta þingi og var samþ. þá. Hér er vissulega um mikilsvert mál að ræða, en Norðmenn munu vera ein Norðurlandaþjóða, sem komið hefur á slíkri löggjöf hjá sér. Varðandi framlög til byggingar íbúðarhúsa í sveitum, að þau hafi hækkað úr 60 þús. kr. í 120 þús. kr. nú, þá er þar aðeins um framkvæmdaratriði að ræða á löggjöf, sem sett var í tíð fyrrv. ríkisstj. Hinu láðist ráðh. að skýra frá, að ekki hefur tekizt að afla veðdeild Búnaðarbankans þess fjármagns, sem talið var að þyrfti, og var áætlun veðdeildarinnar skorin niður um 70 millj. kr. Það leiddi svo aftur til þess, að stöðva varð lánveitingar til vinnslustöðva landbúnaðarins og takmarka lán til dráttarvélakaupa, en slíkt hefur ekki átt sér stað á undanförnum árum.

Um landhelgismálið vil ég segja það, að Íslendingar standa þar saman sem einn maður, sem ein órofa heild, og eru ákveðnir í að hopa hvergi, þótt við ofurefli verði að etja. Þjóðinni er ljóst, að um lífsafkomu og framtíð hennar er að ræða. Greinilegt er, að um ofveiði á þorskstofninum er að ræða og veltur nú allt á okkur Íslendingum sjálfum, að við rányrkjum ekki fiskimiðin, eftir að landhelgin hefur verið færð út. Það er álit margra sjómanna og útgerðarmanna, að þær tili., sem settar voru og boðaðar hafa verið af sjútrn. um friðun fiskimiða á hrygningarsvæðum og uppeldisstöðvum ungfisks, séu alls ófullnægjandi og algert kák, ef ekki verður meira að gert í þeim efnum. Það var hins vegar alltaf vitað, að þær þjóðir, sem hér telja sig eiga mikilla hagsmuna að gæta vegna langvarandi fiskveiða þeirra hér við land, mundu halda uppi andófi og jafnvel yfirgangi, svo sem dæmi eru um, þegar til þess kæmi, að landhelgin yrði færð út. En að láta sér koma til hugar, að ef samningurinn við Breta, sem gerður var 1961, þegar landhelgisdeilan var þá til lykta leidd, hefði ekki verið gerður, þá hefði útfærsla landhelginnar í 54 sjómílur nú átt sér stað átakalaust, eru draumórar, sem engum heilvitamanni kemur í alvöru til hugar. Þeir einir halda þessu fram, sem gáfust upp við að koma því máli heilu í höfn, en kusu heldur að hlaupast á brott úr ríkisstj. og gefast upp við þann vanda sem og önnur erfið viðfangsefni, sem þá blöstu við íslenzku þjóðinni. Það væri þessum mönnum sæmara að gera þjóðinni grein fyrir því, hvers vegna þeim tókst ekki á árinu 1958 að færa landhelgina út í 12 sjómílur mótþróalaust. Þá var ekki samningnum frá 1961 um að kenna.

Ég vil að lokum segja það, að það var Alþingi til sóma, þegar alþm. allir sem einn maður stóðu saman, þegar landhelgismálið var afgreitt á Alþ. 15. febr. s.l. Það ætti einnig að vera sómi íslenzku ríkisstj. og einstakra ráðh. innan hennar að vera ekki með sífelldan meting sín í milli um vinnubrögð eða hverjum beri að þakka þann árangur, sem náðst hefur í samningum eða endanlega lausn þess, sem því miður virðist enn vera alllangt undan landi. — Góða nótt.