14.11.1972
Sameinað þing: 15. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 681 í B-deild Alþingistíðinda. (400)

274. mál, orkumál Norðurlands

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Eins og hv. þm., Magnús Jónsson, tók fram, kom óskin um skipun n. til að taka upp byrjunarviðræður við Norðlendinga um raforkumál fjórðungsins fyrst fram fyrir rúmu ári, svo að mér finnst fsp. hv. þm. nokkuð síðbúin. Ég vil segja honum það, að ég legg ekki í vana minn að draga í heilt ár afgreiðslu mála, sem til mín er beint. Ástæðan fyrir því, að n. hefur ekki verið skipuð, er sú og sú ein, að þróunin hefur orðið miklu örari en Fjórðungssamband Norðlendinga gerði sér hugmyndir um í fyrra, og samráð stjórnvalda við ráðamenn á Norðurlandi eru komin miklu lengra en kemur fram við eina nefndarskipun.

Núverandi ríkisstj. hefur, sem kunnugt er, beitt sér fyrir skipulagsbreytingu í raforkuiðnaðinum í þá átt að gera vald og áhrif heimamanna í hverjum landsfjórðungi miklu meiri en verið hefur til þessa. Þannig er gert ráð fyrir því, að í hverjum landsfjórðungi starfi sérstakt fyrirtæki að öflun raforku og meginflutningi hennar. Þessi fyrirtæki verði í eigu heimamanna að hálfu á móti ríkinu. Á sviði orkudreifingar hefur ríkisstj. mótað þá stefnu að stórauka áhrif heimamanna á stjórn og rekstur Rafmagnsveitna ríkisins og gera á þeim nauðsynlegar skipulagsbreytingar í því skyni. Er þess vænzt, að með því séu sköpuð skilyrði til þess, að dreifiveitur í eigu sveitarfélaga sjái sér hag í því að sameina héraðsveitur nágrannahéraða, eftir að heimamenn eru orðnir svo miklu ráðandi um rekstur þeirra. Þessum dreifiveitum yrði að sjálfsögðu í sjálfsvald sett, hvort þær notfæra sér slíkt tækifæri til aukinnar hagkvæmni í rekstri, enginn yrði til þess neyddur. Reynslan frá nágrannalöndunum bendir hins vegar eindregið í þá átt, að þróunin hér yrði eftir þessa skipulagsbreytingu í átt til stærri og hagkvæmari rekstrareininga í raforkudreifingunni. Það er markmið stefnumótunar ríkisstj. á þessu sviði að stuðla að þessari þróun og búa í haginn fyrir hana.

Eitt megineinkennið á stefnu núv. ríkisstj. í raforkumálum og það, sem einkum greinir þá stefnu frá því, sem tíðkaðist í tíð fyrrv. ríkisstj., er einmitt, hversu mikið áhrif heimamanna í einstökum landsfjórðungum munu aukast frá því, sem verið hefur. Sú breyting er miklu stórfelldari en sú gamla hugmynd að skipa eina litla n. í mótun á stefnu sinni í einstökum atriðum leggur ríkisstj. áherzlu á að hafa sem nánast samstarf við heimamenn í hverjum landshluta. Þannig voru að tilhlutan iðarn. hafnar viðræður á s.l. sumri við aðila raforkuiðnaðarins á Norðurlandi og við fulltrúa Norðlendinga, þ. á m. Fjórðungssambands Norðurlands. Viðræður þessar hafa tveir embættismenn annazt af hálfu rn. Árni Snævarr ráðuneytisstjóri í iðnrn. og Jakob Björnsson prófessor, sem um næstu áramót mun taka við embætti orkumálastjóra. Þetta sýnir áherzlu þá, sem rn. leggur á samband við heimamenn í stefnumótun sinni, því að viðræður á þessu stjórnunarstigi fela vitanlega í sér miklu nánari tengsl stjórnvalda við íbúa Norðurlands en nokkur nefndarskipun. Þessum viðræðum er ekki lokið, en þess má geta, að undirtektir heimamanna hafa hvarvetna verið mjög jákvæðar, ekki aðeins á Norðurlandi, þar sem þessar viðræður eru hafnar, heldur einnig á Vestfjörðum og Vesturlandi, en ég hef í haust haft tækifæri til að ræða við forustumenn sveitarfélaga í þeim landshlutum.

Ríkisstj. hefur, sem kunnugt er, tekið ákvörðun um að leggja orkuflutningslínu frá væntanlegri Sigölduvirkjun til Norðurlands. Sigölduvirkjun mun um tíma hafa orku aflögu frá markaðinum hér Sunnanlands, sem þá verður notuð til að mæta aukinni orkuþörf á Norðurlandi. Nú s.l. sumar var hafizt handa um samtengingu Norðurlands eystra og vestra í eitt raforkukerfi. Lýkur því verki áður en langt um líður. Með því er mest allt Norðurland orðið einn raforkumarkaður, og orkan frá Sigöldu kemur því að gagni öllum Norðlendingum, sem vantar orku. Ef þessi ákvörðun hefði ekki verið tekin, hefði orðið að vinna að tveimur virkjunum á Norðurlandi samtímis Sigöldu, sem allar hefðu haft ónotaða orku nokkurn tíma eftir lúkningu. Allir sjá, að slík vinnubrögð eru molbúaháttur, hvernig sem á málin er litið. Í þess stað er lögð áherzla á að koma þeim virkjunum, sem gerðar eru, sem allra fyrst í fulla nýtingu til þess að halda raforkuverði niðri. Það táknar, að hafa verður raforkumarkaðinn sem stærstan með samtengingu einstakra hluta landsins. Svo hefur verið farið að í öllum þróuðum löndum. Slíkar samtengingar geta leitt til miðstjórnar og ofstjórnar, ef ekki er verið á verði og skipulagsháttum raforkumála þannig fyrir komið, að ekki sé hætta á slíku. Stefnumótun ríkisstj. miðar einmitt að þessu, að nýta út í æsar kosti stórra kerfa og samrekstrar undir lýðræðislegum stjórnarháttum, er tryggja, að allir íbúar landsins njóti góðs af og geti haft sín áhrif.

Þótt Norðurl. og Suðurl. verði þannig tengd saman, táknar það alls ekki, að ekki verði virkjað á Norðurlandi. Þvert á móti er nú lögð áherzla á virkjunarrannsóknir á Norðurlandi, Orkustofnun vinnur nú að rannsóknum og athugunum á virkjun Jökulsár á Fjöllum, Dettifoss, Skjálfandafljóts hjá Ísólfsvatni, Jökulsánna eystri og vestri í Skagafirði og virkjun Blöndu í Blöndudal, þ.e. í eigin farvegi aftur, þar eð virkjun hennar niðri í Vatnsdal er talin munu hafa óæskileg umhverfisáhrif. Auk þess hefur Orkustofnun nýlokið ítarlegri áætlun um jarðgufuvirkjanir á Kötlusvæðinu. Sumar þessara virkjana, svo sem Dettifoss og Blanda, eru taldar mjög álitlegar, en vel má vera, að um fleiri reynist svo einnig. Sameiginlegt flestum þessara virkjana er þó það, að þær mundu eiga mjög örðugt uppdráttar með norðlenzka raforkumarkaðinn einn sökum þess, hve stórar sumar þeirra yrðu. Þetta gerbreytist með tengingu við Suðurlandið með 10 sinnum stærri markað. Þá er það ekki lengur vandkvæðum bundið að fullnýta stórar og hagkvæmar virkjanir á Norðurlandi. Ríkisstj. hefur þannig með ákvörðun sinni um samtengingar beinlínis skapað grundvöll undir hagkvæmar stórvirkjanir á Norðurlandi. Af þessu má sjá, að hið væntanlega norðlenzka virkjunarfyrirtæki, sem ég geri mér vonir um, að verði stofnað fljótlega, mun ekki skorta verkefni, eftir að skilyrði hafa verið þar sköpuð.

Nú er unnið af kappi að undirbúningi línulagningarinnar norður. Kappkostað verður að vanda sem bezt til hönnunar þessarar línu þvert yfir hálendi Íslands. Margar leiðir verða kannaðar, og hefur verið unnið að því síðan í fyrra. Vegna mikilvægis þessarar línu verður undirbúningur hennar að ýmsu leyti vandaðri en tíðkazt hefur um ýmsar háspennulínur hér á landi til þessa, og eru línurnar á Suðvesturlandi þar ekki undantekningar. Þannig verður í hönnun stuðzt við beinar mælingar á aðstæðum á sjálfu línustæðinu, á ísingu og veðurfari. Slíkt hefur ekki áður verið gert hér á landi. Tekið hefur verið upp samband við norska aðila, sem hafa langa reynslu af lagningu lína um hálendi, þ. á m. til vesturstrandarinnar í Noregi. Nú á næstunni munu ung hjón taka sér bólfestu í mælingarstöð á brún Eyjafjarðardals í nálega 900 metra hæð. Munu þau dveljast þar fram á næsta sumar og athuga daglega ísingarmyndun og veðurfar. Auk þessa eru áformaðar ýmsar athuganir á öðrum stöðum á hálendinu. Það verður því ekki á neinn hátt flaustrað af þessari línulagningu, þvert á móti verður hún rækilegar undirbúin en flestar eða allar aðrar línur hér á landi.

Orkustofnun vinnur að athugun á samrekstri kerfanna norðanlands og sunnan, eftir að samtengingin er komin á. Verða rækilega kannaðir þeir möguleikar til nýtingar á orkuvinnslugetu, sem tengingin hefur í för með sér. Fljótlega þarf að gera sér grein fyrir því, hvernig virkjunum sunnanlands og norðan verður skynsamlega skipað í tímaröð, eftir að tenging er komin á. Þetta er m.a. nauðsynlegt til þess að ákveða, hver flutningsgeta línunnar eigi að verða í fyrsta áfanga, hvort betur borgi sig að hafa þá flutningsgetu sem mesta þegar frá upphafi eða auka við hana síðar. Margir möguleikar koma til greina um röð virkjana, svo sem: Sigalda, Dettifoss, Sultartangi, Hrauneyjarfoss, Blanda eða: Sigalda, Sultartangi, Hrauneyjarfoss, Dettifoss — eða: Sigalda, Jökulsárnar í Skagafirði, Sultartangi, Hrauneyjarfoss, Dettifoss — eða: Sigalda, Sultartangi, Dettifoss, Hrauneyjarfoss o.s.frv. Þetta verður nauðsynlegt að kanna ítarlega og ræða, þótt of snemmt sé á þessu stigi málsins að fara nánar út í þessi efni.

Eins og ljóst verður af því, sem hér hefur verið rakið, hefur ríkisstj. nú þegar tekið upp stefnu, sem felur í sér það markmið, sem rætt er í fyrirspurninni, þ.e. mjög náið samstarf við heimamenn norðanlands um raforkumál. Þessi er stefna ríkisstj., og þær ráðstafanir, sem ég hef rakið, ganga miklum mun lengra í þessu efni og á myndarlegri hátt heldur en sú till., sem fyrirspurnin fjallar um.