14.11.1972
Sameinað þing: 15. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 686 í B-deild Alþingistíðinda. (404)

275. mál, friðun Bernhöftstorfu

Fyrirspyrjandi (Ellert B. Schram):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. menntmrh. svarið. Það kemur í ljós í svari hans, sem reyndar kemur mér ekki á óvart, að hann hefur á því ríkan skilning, að vernda þurfi slík verðmæti sem felast í þessum húsum, sem hér eru á dagskrá. Ég vænti þess eins, að hann fylgi þessari skoðun sinni eftir í þeirri aðstöðu, sem hann er í sem ráðh., og taki ákvörðun, sem hann hefur lögum samkvæmt umboð til, að þessi hús skuli friðuð. En það er ekki hægt að skilja þetta svar hæstv. ráðh. öðruvísi en svo, að enn þá sé eftir að taka ákvörðun um framtíð þessara húsa. Það væri vel, ef svo væri. En því er ekki að neita, að ég hef rökstuddan grun um, að sú ákvörðun sé þegar tekin og þá á annan veg en hugur okkar hæstv. ráðh. stendur til. Ég hef hér í fórum mínum bréf, dags. 26. júlí, sem forsrn. hefur sent borgarráði og undirritað er af hæstv. forsrh. Í þessu bréfi er minnt á ákvörðun ríkisstj., sem tekin var í maí 1964, þar sem segir, með leyfi hæstv. forseta:

Ríkisstj. hefur ákveðið að gefa Árbæjarsafni tvö þessara húsa, Bernhöftsbakarí ásamt tilheyrandi geymsluhúsum og hús það, sem nefnt er Gunnlaugsenshús og Smithshús. Ríkissjóður mun kosta flutning og uppsetningu húsa þessara við Árbæ. Gert er ráð fyrir, að húsin megi flytja á næsta ári, og verður flutningi og framkvæmdum hagað í samráði við forstöðumenn Árbæjarsafnsins.“

Þetta er sem sé ákvörðun frá 1964, en síðar segir í þessu bréfi, sem dags. er í júlí 1972: „Væntir rn. heiðraðs svars borgarráðs um afstöðu þess til téðrar ákvörðunar ríkisstj. við fyrsta hentugleika, enda stendur framangreint boð: Samkvæmt þessu bréfi fer ekki milli mála, hver tilgangur ríkisstj. eða hæstv. forsrh. er í þessu máli. Hann leiðréttir mig þá, ef ályktunin er röng hjá mér.

Ég skal ekki orðlengja þetta frekar, enda er ekki aðstaða til þess í stuttum fsp.-tíma. Ég vil aðeins láta þess getið, að ég hef í hyggju að fylgja þessu máli eftir á þann veg að bera hér fram þáltill. um, að hæstv. ríkisstj. endurskoði afstöðu sína eða ákvörðun um að reisa stjórnarráðsbyggingu á þessum stað. Ég geri ráð fyrir, að það standi helzt í mönnum, hvar byggja skuli þessa stjórnarráðsbyggingu. Það hefur legið fyrir ákvörðun um, að hún skuli staðsett á þessari umræddu lóð. Ef Alþ. tjáir vilja sinn í því efni, að vel megi færa til og byggja stjórnarráðshúsið annars staðar en á umræddri lóð, sé ég ekkert því til fyrirstöðu, að hægt sé að fylgja eftir skoðunum okkar hæstv. ráðh. um, að friða megi Bernhöftstorfuna.