14.11.1972
Sameinað þing: 15. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 688 í B-deild Alþingistíðinda. (405)

275. mál, friðun Bernhöftstorfu

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Svar mitt við fsp. hv. þm. er þetta:

Þegar ég tók við störfum, lágu fyrir óafgreiddar í menntmrn. ýmsar till. frá húsafriðunarnefnd um friðun húsa í Reykjavík. Þar á meðal er húsaröðin meðfram Lækjargötu milli Hverfisgötu og Bókhlöðustígs, að undanteknu Gimli. Um þessi hús segir húsafriðunarn. m.a.:

„Þarna er um einstaka byggðarheild að ræða, allt frá stjórnarráðshúsinu gamla og suður að Bókhlöðustig 2. Næsta hús við stjórnarráðshúsið er Bernhöftshúsið með bakaríinu, eitt fornfegursta hús sinnar gerðar, smíðað 1838. Síðan tekur við vörugeymsluhúsið, fallegt og stílhreint í einfaldleik sínum. En þá kemur Gimli, sem er það eina af þessum húsum, sem brýtur mjög í bága við byggðarheildina og tilheyrir allt öðrum tíma en hin húsin. Sunnan við Gimli er síðan húsið, sem Stefán Gunnlaugsson bæjarfógeti reisti og bjó í og síðar Guðmundur Björnsson landlæknir. Hann lét reisa turninn sunnan við húsið, sem að vísu er framandi þar, en er teiknaður af Rögnvaldi Ólafssyni arkitekt, fyrsta menntaða íslenzka arkitektinum, sem starfaði hér heima, og í sjálfu sér mjög smekkleg bygging. Sunnan við Amtmannsstíginn tekur síðan við í þessari sömu röð menntaskólinn, glæsilegasta timburhús og hin sögulegasta bygging, sem til er hérlendis, þar sem í er t.d. alþingissalurinn gamli. Sunnan menntaskólans er svo bókhlaðan, merkilegt steinhús og nátengt skólanum. En þessi röð endar síðan á húsinu Bókhlöðustíg 2, sem nýlega hefur verið gert við mjög smekklega og ætlunin er að láta standa til frambúðar. Þessi húsaröð er elzta ósnerta húsaröðin í Reykjavík. Húsin eru öll frá svipuðum tíma, frá því um miðja síðustu öld, að stjórnarráðshúsinu undanskildu og Gimli, en þar sem það er nú, stóð ekkert hús áður. Þessi hús hafa alla tíð sett mjög sterkt svipmót á Reykjavík, og velflestar gamlar yfirlitsmyndir af Reykjavík eru teknar með það fyrir augum, að þessi hús sjáist á henni.“

Eins og áður sagði, er till. um friðun þessarar húsaraðar ein af mörgum, sem húsafriðunarn. hefur gert og ekki hefur enn verið tekin endanleg afstaða til. Ég tel ekki rétt að taka eina af þessum till. út úr og lýsa afstöðu til hennar í umr. hér á Alþ., heldur mun ég fjalla um málið í heild og birta síðan niðurstöðurnar sem formlegar ákvarðanir í samræmi við ákvæði húsafriðunarkafla þjóðminjalaganna.

Hins vegar vil ég við þetta tækifæri láta í ljós það almenna sjónarmið, að mér þykir hafa gætt nokkurrar sjónskekkju í almennum umræðum um friðun gamalla húsa. Ég tel, að þar hafi ýmsir lagt um of áherzlu á sögufrægð einstakra bygginga eða tilkomumikið útlit. Hins vegar hefur legið um of í láginni almennt menningargildi þess, að einkum í þéttbýli séu varðveitt mannvirki að því marki, að umhverfið veiti íbúunum og þá ekki sízt uppvaxandi kynslóð staðgóða hugmynd um byggingarsögu staðarins, samhengið í þróun verklegrar menningar, lifnaðarhátta og lífskjara í átthögum sínum. Án þessa umhverfisþáttar fæst ekki það lifandi samhengi hverrar kynslóðar við uppruna sinn og fyrirrennara, sem er forsenda þess, að rótfesta skapist. Til þess þarf umhverfisívaf, sem bendir aftur til fyrri kynslóða, engu síður en tengsl við bóklega menningu. Í breytingasamfélagi okkar daga er þörfin á að huga að varðveizlu mannvirkja — og þá frekar samstæðna en einstakra bygginga — ríkari en nokkru sinni fyrr. Hagkvæmnissjónarmið verða auðvitað að fá að njóta sín, en þau mega ekki vera einráð. Friðunarstarf í þágu lífandi menningarsöguþáttar í umhverfi okkar og eftirkomendanna tekst ekki, svo að vel fari, nema almennur skilningur skapist á því, að tilhlýðileg ræktarsemi við mannvirki frá líðinni tíð sé ekki sízti þátturinn í umhverfisvernd. Það er engum hollt, hvorki einstaklingi né samfélagi, að vilja ekki kannast við uppruna sinn.