14.11.1972
Sameinað þing: 15. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 690 í B-deild Alþingistíðinda. (407)

275. mál, friðun Bernhöftstorfu

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Í sambandi við þessa fsp. vil ég gjarnan segja örfá orð. — Eins og fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda, er það nær tveggja áratuga gömul ákvörðun, að stjórnarráðsbygging skuli rísa á lóðum ríkisins við Lækjargötu. Nokkurt fé hefur á hverju Alþingi hin síðari ár, að ég ætla, verið veitt til þessarar byggingar með þá ákvörðun í huga, þó að það hafi ekki verið tekið beinlínis fram í sambandi við fjárveitinguna, að á þessum stað skyldi stjórnarráðsbygging rísa. Munu nú vera í þeim sjóði um 20 millj. kr. Það hefur aldrei, svo að ég viti til. komið fram nokkur aths. á Alþ. um staðsetningu fyrirhugaðs stjórnarráðshúss. Hæstv. fyrrv. ríkisstj. lét teikna og gera líkan að stjórnarráðshúsi á þessum stað, sem hún bað formenn stjórnarandstöðuflokkanna líka að líta á. Það gerði ég fyrir mitt leyti, og lagði ég yfir hana blessun mína. Mér er ekki kunnugt um, að aðrir hafi gert við hana neinar aths.

Viðvíkjandi þeim húsum, sem þarna standa, er þess að geta, að árið 1964 skrifaði hæstv. fjmrh., sem þá var, borgarstjórn Reykjavíkur og bauð henni að gefa húsin tvö, sem þarna standa, og flytja þau borginni að kostnaðarlausu upp í Árbæ. Þessu boði tók Reykjavíkurborg, og er fyrir hendi í stjórnarráðinu skriflegt svar frá Reykjavíkurborg, þar sem hún þiggur þetta boð með þökkum. Nú í sumar var spurzt fyrir um, hvort Reykjavíkurborg vildi ekki enn þiggja þessi hús með sömu skilmálum og áður.

Þó gerð hafi verið teikning að þessu húsi og ég hafi engar sérstakar athugasemdir við hana að gera, vil ég lýsa því yfir, að ég fyrir mitt leyti er reiðubúinn til þess að láta gera nýja teikningu af stjórnarráðshúsi á þessum stað í samráði við skipulagsyfirvöld borgarinnar, þannig að tryggt sé, eftir því sem bezt verður á kosið, að þarna rísi fögur bygging, sem á við það umhverfi, sem er í kring. Hitt liggur í augum uppi, að það er ekki hægt fyrir ríkisstj. að leggja í þann kostnað að nýju, nema ákvörðun borgarstjórnar Reykjavíkur liggi fyrir um, að á þessum stað muni hún leyfa stjórnarráðsbyggingu eins og gengið hefur verið út frá áratugum saman.

Úr því að verið var að spyrja um afstöðu manna, en ekki leita eftir upplýsingum, eins og ég held að fyrirspurnir eigi að fjalla sérstaklega um, vil ég láta afstöðu mína koma hér alveg skýrt og undandráttarlaust í ljós. Hún er sú, að ég vil halda fast við fyrri ákvarðanir um byggingu stjórnarráðshúss á lóðum ríkisins við Lækjargötu, og þá verða þessi hús að víkja. Ég er þess vegna andvígur friðun þessara húsa á þessum stöðum. Ég verð að segja það frá mínu leikmannssjónarmiði, þó að það hljómi kannske einkennilega í eyrum þeirra fagurkera, sem telja sig hafa vit á þessu öðrum fremur, að mér er engin eftirsjá að þessum húsum. Ég sé enga borgarprýði í þeim. Það er ástæðulaust annað en að segja þetta hreint út, og þetta meina miklu fleiri en láta í ljós. Þetta er skoðun yfirgnæfandi meiri hluta Reykvíkinga. Ég veit það.

Ég tel, að þessi hús séu engin borgarprýði og það mundi fara ólíkt betur á því og verða myndarlegra við Lækjargötu, ef þarna risi fögur, smekkleg stjórnarráðsbygging, sem færi vel við þær byggingar, sem þá stæðu henni hvor til sinnar handar, annars vegar menntaskólinn og hins vegar gamla stjórnarráðsbyggingin. Ég tel það í sjálfu sér góðra gjalda vert af hv. fyrirspyrjanda að boða hér flutning þáltill. um þetta efni. Ég álít nefnilega, að það sé sjálfsagt, að Alþ. láti í ljós á ótvíræðan hátt, ef það hefur skipt um skoðun, breytt um stefnu í þessu frá því, sem verið hefur síðustu tvo áratugi. Ég hef hér lýst skoðun minni alveg afdráttarlaust, og mér þætti það æskilegt, að formenn annarra stjórnmálaflokka stæðu hér upp og lýstu skoðun sinni á því, hvort þeir hafa breytt um skoðun í þessu efni, t.d. þeir, sem sátu í fyrrnefndri hæstv. ríkisstj. og létu þá gera og ganga frá teikningu og líkani af þessum lóðum.

Ég hef ekki lengri tíma hér og ekki tækifæri til þess að ræða þetta nánar í sambandi við þá þáltill., sem hv. flm. boðar. En ég vil taka það alveg skýrt fram, hver afstaða mín er í þessu efni, svo að það þurfi enginn að vera í vafa um hana. Ég vænti þess, að talsmenn annarra stjórnmálaflokka hér á Alþingi láti skoðun sína líka koma skýrt fram, hvort þeir hafa horfið frá þeirri stefnu, sem mörkuð var hér fyrir tveimur áratugum og hefur hvað eftir annað verið samþ. óbreytt á hv. Alþ.