14.11.1972
Sameinað þing: 15. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 691 í B-deild Alþingistíðinda. (408)

64. mál, skipulag vöruflutninga

Fyrirspyrjandi (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Á þingi 1970 var borin fram till. til þál. um skipulag vöruflutninga og jöfnun flutningskostnaðar. Flm. þessarar till. voru helmingur af þm. Framsfl. Þessi till. hlaut afgreiðslu síðla þess þings og var samþ. á Alþ. 5. apríl, efnislega eins og hún var flutt. Eina breyt., sem gerð var á till. í meðförum þingsins, var sú, að í staðinn fyrir að kjósa 5 manna milliþn. til að athuga þessi mál var ályktað að fela ríkisstj. að láta fara fram athugun í sambandi við þetta mál. Þar sem ég hef ekki heyrt neitt um framkvæmd þessarar till., þó að liðið sé rúmlega eitt og hálft ár frá því, að hún var samþ. hér af hv. Alþ., hef ég leyft mér að leggja fram fsp. í fjórum liðum:

1. Hvað hefur verið gert til þess að framkvæma þál. frá 5. apríl 1971 um skipulag vöruflutninga og jöfnun flutningskostnaðar?

2. Hverjir eru það, sem vinna að framkvæmd þessa máls og með hvaða hætti?

3. Hefur verið leitað samstarfs við helztu aðila flutningakerfisins og, ef svo er, hverjar eru undirtektir þeirra?

4. Hefur ríkisstj. tekið ákvörðun um að leggja ákveðnar till. fyrir Alþ. það, sem nú situr, til jöfnunar á flutningskostnaði, svo að allir landsmenn sitji við sama borð í þessum efnum?“

Ég ætla ekki að gera þessi mál að frekara umræðuefni, en bíða svars frá hæstv. ráðh. Ég vil aðeins, áður en ég lýk máli mínu, minna á það, að flutningur á vörum út á land er sífellt að verða þungbærari fyrir landsbyggðina á öllum sviðum. Það er mjög eftirtektarvert, þegar landbúnaðarafurðir eru fluttar úr strjálbýli inn í þéttbýlið, er þar um jöfnun flutningskostnaðar að ræða. Þar er sama verð, þó að búið sé að flytja þær vörur hundruð km.

Þá spyr ég, hversu lengi á það fólk, sem býr úti á landi, að búa við það, að á þær vörur, sem fluttar eru úr þéttbýlinu og út um dreifðar tryggðir landsins, bætist óhæfilega hár flutningskostnaður á flestum sviðum.

Eitt, sem till. fjallaði um, er skipulag flutninga, sérstaklega flutninga frá erlendum höfnum beint út á landsbyggðina. Við búum nú á árinu 1972 við það, að það eru nær engar fastar áætlunarferðir millilandaskipa frá erlendum höfnum til hafna úti á landsbyggðinni, og það ástand hefur farið ört versnandi á undanförnum árum.