14.11.1972
Sameinað þing: 15. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 692 í B-deild Alþingistíðinda. (409)

64. mál, skipulag vöruflutninga

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Hv. 2. þm. Vestf. ber fram fsp. í nokkrum liðum um framkvæmd á þál. frá 5. apríl 1971 um skipulag vöruflutninga og jöfnun flutningskostnaðar. Þál. sú, sem spurzt er fyrir um, var flutt af Vilhjálmi Hjálmarssyni o.fl., sbr. þskj. 60 á 91. löggjafarþingi. Lagt var til í þessari till., að Alþ. kysi 5 manna milliþn. til þess að athuga vöruflutninga landsmanna og gera till. um bætta skipan þeirra. Skyldi stefnt að því að gera flutningakerfið sem hagkvæmast og hraðvirkast, en án óhæfilegs tilkostnaðar og leita leiða til jöfnunar á flutningskostnaði, svo að allir landsmenn gætu setið við sama borðið í þeim efnum, eftir því sem við yrði komið. Eins og hv. fyrirspyrjandi gat um, var nokkur breyt. í meðferð málsins, því að allshn. Sþ., sem fékk málið til athugunar, gerði þá brtt., að í stað 5 manna milliþn. skyldi ríkisstj. falið, að láta fara fram hina umbeðnu athugun. Var till. þannig samþ. á Alþ. 5. apríl 1971 og send samgrn. 21, apríl 1971.

Hér er, eins og öllum má vera ljóst, um allmikið grundvallarmál að ræða, en erfiðleikar og mismunandi kostnaður landsmanna við aðdrætti nauðsynja spretta að mínu áliti ekki fyrst og fremst af ástandi samgöngukerfisins, heldur af því innflutnings- og verzlunarfyrirkomulagi, sem landsmenn búa við. Nægir í því sambandi að benda á, að samkv. hagskýrslum mun a.m.k. 3/4 alls innflutnings landsmanna, miðað við verðmæti, vera landað í Reykjavík, en vörunum síðan dreift þaðan út um landsbyggðina. Þetta mundi vera svo, hvernig sem samgöngukerfinu væri háttað.

Eins og réttilega er rakið í grg. með nefndri þáltill., hefur verið komið á jöfnunarverði á ýmsum vörutegundum, t.d. olíum og benzíni, tóbaki, áfengi, sementi og tilbúnum áburði, og einnig er flutningskostnaður innlendra landbúnaðarvara jafnaður út, eins og hv. fyrirspyrjandi gat um. Í öllum þessum tilfellum er um að ræða einkasöluvörur að meira eða minna leyti. Um almennar vörur gegnir allt öðru máli, þar sem þá er oftast um að ræða fjölmarga framleiðendur, innflytjendur eða seljendur sömu vörutegunda. Verðjöfnun verður þar vart komið við á sama hátt nema með óæskilega ströngum og víðtækum ríkisafskiptum, sem ég hygg, að allir yrðu ekki sammála um, og jafnvel gætu orðið til að draga úr nauðsynlegri samkeppni framleiðenda og seljenda bæði um verð og vörugæði.

Af ríkisins hálfu hefur verið reynt að jafna þennan aðstöðumun, sem er milli fólks eftir fjarlægð frá aðalinnflutningshöfnum landsins. Með því að stuðla að ódýrum vöruflutningum á sjó hefur Skipaútgerð ríkisins haft það hlutverk í áratugi, einnig hefur Alþ. í vaxandi mæli styrkt rekstur flóabáta og í þriðja lagi styrkt nokkuð vöruflutninga með bifreiðum, einkum til þeirra byggðarlaga, sem ekki verður þjónað sjóleiðis. Til slíkra mála eru veittar á yfirstandandi ari 24.7 millj. kr. til flóabáta og vöruflutninga með bílum og 37.5 millj. kr. til greiðslu rekstrarhalla strandferðaskipanna, eða alls 62.2 millj. kr. Þetta er það framlag, sem Alþ. og ríkisstj. hafa ákveðið til jöfnunar á flutningskostnaði, en að öðru leyti hefur ekki verið mörkuð nein ákveðin stefna af hálfu Alþ. né neinnar ríkisstj. í máli því, sem þáltill. fjallaði um.

Hinn 11. júlí s.l. sumar skilaði þriggja manna n. áliti til rn., en henni hafði verið falið að kanna umkvartanir Eimskipafélags Íslands h/f vegna misræmis, sem félagið taldi vera í skattheimtu hins opinbera af flutningum með skipum annars vegar og flugvélum og bifreiðum hins vegar. N. kannaði nokkuð flutningskostnað vara með skipum annars vegar og bifreiðum hins vegar til ýmissa staða á landinu. Hún sá fram á, að hér væri um miklu viðameira verkefni að ræða en svo, að umboð hennar næði til að framkvæma slíka athugun út í æsar. Taldi n. auk þess, þar sem n. var falið að rannsaka umkvartanir Eimskipafélagsins og félagið áttí þar að auki einn af þremur fulltrúum í n., að hún væri ekki fær um að vinna verkið á hlutlausum grundvelli. í framhaldi af þessu skipaði því rn. tvo embættismenn, Ólaf S. Valdimarsson skrifstofustjóra í samgrn. og Helga Ólafsson deildarstjóra í Framkvæmdastofnun ríkisins, en þeir áttu báðir sæti í ofangreindri n., og fól þeim að vinna að og skila grg. um, hvaða skipting milli vöruflutninga á landi, sjó og í lofti væri hagkvæmust frá þjóðhagslegu sjónarmiði, svo og hvaða ráðstafanir þyrfti að gera til að ná þessu marki, og skyldi þá höfð í huga mismunandi aðstaða fólksins í dreifbýlínu úti um landið Þessir menn voru skipaðir til starfans í septembermánuði, og hafa þeir fyrir nokkru byrjað athugun sína á þessu umfangsmikla og vandasama máli. Að sjálfsögðu munu þeir leita upplýsinga og samstarfs við helztu aðila flutningakerfisins, en öðruvísi verður svona athugun að sjálfsögðu ekki unnin. Hins vegar er hér um tímafreka og víðtæka athugun að ræða, ef gagn á að verða af niðurstöðunum, og verður því á þessu stigi ekki fullyrt um, hvenær þessir menu geta lokið þessu starfi. En það er mín skoðun, að þetta mál verði ekki fyrst og fremst leyst með umbótum eða breytingum á samgöngukerfinu, heldur sé þarna þörf á því að umbreyta verzlunar og viðskiptaháttum í landi okkar og jöfnuður fáist ekki að fullu, fyrr en svo hefur verið gert.