17.10.1972
Sameinað þing: 3. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 77 í B-deild Alþingistíðinda. (41)

Stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Góðir hlustendur. Í þessum umr. hafa margir vitnað til landhelgismálsins, og er það mjög að vonum. Það var einn af stóratburðum íslenzkrar stjórnmálasögu, þegar Alþb., Framsfl. og SF sammæltust um það að gera stækkun landhelginnar í 50 mílur að aðalmáli í síðustu kosningum, unnu eftirminnilegan sigur og fengu umboð þjóðarinnar til þess að mynda nýja ríkisstj. og framkvæma þá landhelgisstækkun, sem nú er staðreynd. Menn segja, að það sé þjóðareining um þessa framkvæmd, einnig hér á Alþ. Það er ekki síður söguleg breyting. Það er ástæðulaust, að menn gleymi því, að enn eru ekki tvö ár liðin síðan einn valdamesti ráðh. viðreisnarstjórnarinnar sagði hér í þessum ræðustóll í útvarpsumr. frá Alþ., að það væri siðleysi í utanríkismálum að stækka landhelgina í 50 mílur, það væri siðleysi í utanríkismálum að ganga í berhögg við uppgjafarákvæði samninganna frá 1961.

Í sögunni verða ríkisstj. ekki aðeins dæmdar fyrir það, sem þær gera, heldur ekki síður fyrir hitt, sem þær láta ógert. Mér kæmi það ekki á óvart, þótt í Íslandssögunni yrði viðreisnarstjórnarinnar ekki sízt minnzt fyrir það, að í heilan áratug hreyfði hún hvorki legg né lið til þess að stækka landhelgina, hún taldi það siðleysi í utanríkismálum. Á sama tíma jókst rányrkjan og ofveiðin umhverfis landið, þar til nú er svo komið, að þorskafli okkar hefur minnkað um nær þriðjung á tveimur árum og minnkaði um tæpan helming 4 sumarmánuðina í ár í samanburði við sömu mánuði í fyrra. Ég óttast, að íslenzka þjóðin kunni að eiga í miklum erfiðleikum um langt árabil vegna þess, að landhelgin var ekki stækkuð fyrr af tillitssemi við erlenda hagsmuni og erlent vald. Og þaðan stafa mestu efnahagsvandamál okkar.

Í þessum umr. hefur einnig verið mikið talað um efnahagsmál, og því hefur verið haldið fram, að ríkisstj. hafi aukið svo tilkostnað atvinnuveganna, að þeir séu að sligast, auk þess sem ríkisstj. hafi sóað sjóðum og sólundað almannafé. Hvað merkja þessi ummæli á skiljanlegu máli? Ekki verður því haldið fram, að ríkisstj. hafi íþyngt atvinnuvegunum með verðbólgu. Tvö síðustu ár hefur verðlag hækkað minna hérlendis en í flestum nálægum löndum. Við, sem í tíð viðreisnarinnar höfðum árvisst heimsmet í dýrtíð erum nú mun neðar á þeim lista. Um það kalla ég til vitnis þúsundir íslendinga, sem sjálfir hafa rekið sig á þá staðreynd, að æ fleiri vörur eru nú ódýrari á Íslandi en í nágrannalöndum okkar. Það er ekki lengur hægt að skipuleggja kaupstaðarferðir til Glasgow, eins og gert var í tíð viðreisnarstjórnarinnar. En hvað eiga þeir Jóhann og Gylfi þá við með því, að framleiðsluatvinnuvegunum hafi verið íþyngt með of miklum tilkostnaði? Þeir telja, að ríkisstj. hafi gengið of langt í því að bæta kjör láglaunafólks með afstöðu sinni til kjarasamninganna í fyrra, með því að koma á 40 stunda vinnuviku og fjögurra vikna orlofi. Þeir telja, að láglaunafólkið í frystihúsunum hafi of mikið kaup. Þeir telja, að láglaunafólkið í iðnfyrirtækjum hafi of góða afkomu. Bjargráð þeirra er að skerða kjör láglaunafólksins á nýjan leik, eins og gert var hvert einasta ár í tíð viðreisnarstjórnarinnar. Og hvað eiga valdamenn Sjálfstfl. og Alþfl. við með sóun? Það ámæli var borið á ríkisstj., þegar það var fyrsta verk hennar að mæla fyrir um hækkun á lífeyrisbótum almannatrygginga. Í tíð núv. ríkisstj. hafa bætur almannatrygginga til þeirra einstaklinga, sem ekki hafa aðrar tekjur, hækkað úr 4900 kr. á mánuði í 11200 kr. eða um 128%. Það er fyrst og fremst þetta, sem stjórnarandstæðingarnir eiga við, þegar þeir tala um sóun úr opinberum sjóðum, enda hefur Morgunblaðið komizt svo að orði, að þessar greiðslur ýti undir leti og ómönnsku hjá öldruðu fólki og öryrkjum. Umtalið um of þunga byrði á atvinnuvegunum og eyðslustefnu þýðir á mæltu máli, að ráða eigi fram úr efnahagsvandamálunum með því að skerða kjör láglaunafólks, aldraðs fólks og öryrkja. Það var stefna viðreisnarstjórnarinnar, en það er ekki stefna núv. ríkisstj.

Ég sagðist áðan hafa áhyggjur af minnkandi afla og versnandi afla, og ég hygg, að allur þorri landsmanna taki þátt í þeim áhyggjum. Reynist þetta ástand varanlegt, getur enginn mannlegur máttur komið í veg fyrir, að það bitni á afkomu þjóðanheildarinnar. En um leið ber okkur að hefja gagnsókn á öðrum vettvangi með því að renna sem fyrst fleiri stoðum undir íslenzkt atvinnulíf.

Á vegum iðnrn. er nú verið að fullgera iðnþróunaráætlun fram til ársins 1980, og var það verk hafið í tíð núv. ríkisstj. Meginmarkmið hennar eru þau, að framleiðni í iðnaði tvöfaldist á þessu tímabili og framleiðsluverðmætið meira en þrefaldist, en þá yrði meiri hlutinn af útflutningi Íslendinga orðinn iðnaðarvarningur. Slík þróun mundi gerbreyta atvinnuháttum á Íslandi og stórauka öryggið, þótt að sjálfsögðu yrði áfram lögð áherzla á að fá sem mestan arð af sjávarútvegi og landbúnaði. Þessi iðnþróunaráætlun á ekkert skylt við hugmyndir Jóhanns Hafsteins og viðreisnarfélaga hans, en þeir töldu hlutskipti Íslendinga eiga að vera það að leggja erlendum stóriðjufyrirtækjum til ódýra orku og erlendum fyrirtækjum í léttum iðnaði ódýrt vinnuafl. Við íslendingar eigum ekki að lúta að svo lágu. Við eigum að treysta sjálfum okkur til að framkvæma iðnþróun, sem verði undir Yfirráðum landsmanna sjálfra, jafnt stór sem smá fyrirtæki.

Ég hef heyrt menn bera fram spurningar um það, hvort markmið þessarar iðnþróunar séu raunsæ, hvort unnt verði að koma þessum skýjaborgum niður á jörðina. Og um það langar mig að fara nokkrum orðum.

Samkv. áætluninni á heildarframleiðsla iðnaðarins að vera komin upp í 40 milljarða árið 1980. Árið 1970 var heildarframleiðslan rúmir 12 milljarðar. Þá var framleiðni í iðnaði hins vegar 30–50% lægri en í Noregi. Aðeins með því að auka framleiðni, með bættri stjórn og skipulagi væri hægt að koma framleiðslunni upp í 20 milljarða án nýrrar fjárfestingar og án nýs mannafla. Og hvar ættu að vera rökin fyrir því, að við gætum ekki náð jafngóðum tökum á iðnaðarframleiðslu og frændur okkar, Norðmenn. Á áratímabilinu 1970–1980 fjölgar mönnum á vinnumarkaði um 17–18 þús. Áætlunin gerir ráð fyrir því, að 8 þús. fái vinnu í iðnaði. Með sömu framleiðni mundi þessi mannaflaaukning koma framleiðslunni yfir 30 milljarða. Þar við bætast svo áform okkar um stórátök í nýjum iðngreinum tengdum orkulindum okkar. Þegar á næstu mánuðum munum við verða að taka ákvarðanir um stórframkvæmdir á vegum landsmanna sjálfra, sjóefnaverksmiðju á Suðurnesjum og um járnblendiverksmiðju í tengslum við Sigölduvirkjun. Það er engin ofætlun, að iðnþróunaráform af þessu tagi geti fært okkur útflutningsverðmæti, sem nema 7–8 milljörðum kr. á árinu 1980, og þá er markinu náð. Að sjálfsögðu þarf mikla einbeitingu til þess að framkvæma slíka stefnu, skipulagshyggju og áætlunarvinnubrögð í stað happa og glappa. En við ekki aðeins getum framkvæmt slíka stefnu, okkur er nauðugur einn kostur að gera það, ef við ætlum að halda veldi sem sjálfstæð þjóð. Og þetta er stærsta efnahagsvandamálið, sem nú blasir við okkur.

Það er stundum sagt, að þessi ríkisstj. hafi færzt of mikið í fang, og kvartað undan því, að við ráðh. séum allt of mikið í sviðsljósinu. Það má vel vera, að þetta sé rétt. En á móti vil ég minna á verkefni, sem við ráðh. erum ekki farnir að sinna af neinni alvöru. Það er fyrirheitið um endurskoðun eða uppsögn varnarsamningsins svokallaða í því skyni, að bandaríski herinn hverfi af landi brott á þessu kjörtímabili. Það er rétt, sem Einar Ágústsson utanrrh. tók fram áðan, að við höfum látið þetta verkefni biða vegna landhelgismálsins og vegna þess, að kosningar eru fram undan í Bandaríkjunum. En nú verður hafizt handa um framkvæmd þessa skýra fyrirheits, vegna þess að það er einn af hornsteinum stjórnarsamstarfsins. Um það er enginn ágreiningur innan ríkisstj., að við þetta fyrirheit verður staðið eins og önnur, sem samið var um. Ríkisstj. mun standa eða falla með stefnu sinni í þessu máli.

ríkisstj., sem nú er við völd á Íslandi, hefur á flestum sviðum gerbreytt um stefnu frá tíð viðreisnarinnar, eins og rakið hefur verið að nokkru í þessum umr: Hún hefur hafið til öndvegis stefnu þjóðlegs fullveldis á sviði stjórnmála og efnahagsmála, stefnu vaxandi jafnaðar á sviði félagsmála. Það verður æ ljósara, að íhaldsöflin í landinu una hlutskipti sínu illa. Þau vilja ríkisstj. feiga og þau gera sér vonir um, að e.t.v. eigi hún ekki langt eftir ólifað. Ríkisstjórnir koma og ríkisstjórnir fara segja menn, og það er vissulega alveg rétt. En sú stefna sjálfstæðis og félagshyggju, sem er rauði þráðurinn í störfum ríkisstj., er ekkert einangrað fyrirbæri í heiminum, heldur hluti af stærri heild. Það voru sömu viðhorfin, sem ollu því, að meiri hluti norsku þjóðarinnar hafnaði nýlega aðild að Efnahagsbandalaginu þvert gegn vilja allra valdastofnana í þjóðfélaginu, en kaus í staðinn þann vanda og þá vegsemd að vera sjálfstæður. Það eru sömu viðhorf, sem ollu því, að mikill meiri hluti unga fólksins í Danmörku snerist gegn Efnahagsbandalaginu, þótt þar yrðu valdastofnanirnar ofan á. Það eru sömu viðhorf, sem valda því, að ekki aðeins fer andstaðan gegn Efnahagsbandalaginu nú vaxandi í Verkamannaflokknum í Bretlandi, heldur og kröfurnar um afnám allra bandarískra herstöðva, um úrsögn Breta úr Atlantshafsbandalaginu og um hlutleysi. Það er þetta sama viðhorf, sem einkennt hefur stjórnmálaþróunina í Bandaríkjunum undanfarin ár, andstaða gegn valdstefnu í alþjóðamálum og valdhroka í innanlandsmálum, krafan um jafnrétti þegnanna án tillits til kynferðis eða hörundslitar. Þessi stefna er ekkert stundarfyrirbæri, heldur mun hún halda áfram að eflast einnig hér á landi.

Það rætist að sjálfsögðu á okkur sjömenningunum, að ríkisstj, koma og fara. En ég er sannfærður um það, að ef íhaldsöflunum tækist að steypa núv. ríkisstj., þá tryggði þjóðin, að við tæki önnur ríkisstj. með sömu meginstefnu, enn öflugri, þróttmeiri og samstæðari en þessi. Þeir, sem stunda valdatafl, kunna að ímynda sér, að þeir geti hnikað stjórnmálaþróuninni að eigin geðþótta. En ef þeir ganga í berhögg við grundvallarviðhorf okkar tíma, við stefnu þjóðlegs fullveldis og vaxandi jafnaðar, munu þeir enda sem fiskar á þurru landi ekki síður en meiri hluti norska stórþingsins um þessar mundir. — Góða nótt.