14.11.1972
Sameinað þing: 15. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 697 í B-deild Alþingistíðinda. (415)

64. mál, skipulag vöruflutninga

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Ég vil, að það komi alveg skýrt fram, hvað það er, sem ég er að harma. Ég er ekki að undrast, að það taki tíma að vinna þessi mál, heldur er ég að harma það, hversu mér virðist vera seint við brugðið. Mér virðist fyrrv. stjórn alls ekki hafa sinnt þessum verkefnum með skipun n. til þess að vinna að þeim, því að það er ekki einasta þessi þál., sem hér er rætt um, sem lá fyrir þá, heldur einnig þál., sem samþ. var ári áður og flm. var Björn Jónsson, um að athuga sérstaklega þessi mál með tilliti til atvinnurekstrar úti á landi. Eftir því sem ég skildi hæstv. ráðh., er það ekki fyrr en í sept. s.l., að það eru settir menn til að athuga þetta, og það harma ég. Ég er alveg sammála um, að það verður ekkert áhlaupaverk að koma hagkvæmu skipulagi á vöruflutninga innanlands. T.d. þarf að hefja vöruflutninga á sjó til eðlilegs hlutverks, eðlilegrar þátttöku, ef svo mætti segja, en með afnámi framhaldsfarmgjaldanna, sem ég vék að áðan, dró úr sjóflutningum með ströndum fram. Flutningarnir færðust yfir á aðrar leiðir, sem ég fullyrði að séu þjóðfélaginu óhagkvæmari. Sömu áhrif höfðu þær ráðstafanir, sem gerðar voru á sinni tíð að selja strandferðarskipin, áður en nýrra strandferðarskipa var aflað. Það olli oft og tíðum óreglu í ferðum og strjálli ferðum. Og einnig sá endalausi dráttur á úrbótum við höfnina í Reykjavík, á aðstöðu strandsiglinganna þar, í áratugi, liggur mér við að segja, átti sinn þátt í því að draga úr vöruflutningum á sjó og þoka þeim yfir í aðra farvegi.

Hér ber allt að sama brunni, neikvæðar aðgerðir og aðgerðaleysi.

Ég held, að menn verði að horfast í augu við þá staðreynd, að hliðstæður atvinnurekstur, t.d. við útgerð og fiskvinnslu, t.d. í iðnaði og landbúnaði, hvar sem hann er rekinn á landinu, verður að búa við svipuð flutningakjör, ef vel á að fara, og slíkt hið sama fólkið sjálft, sem þetta land byggir víðsvegar. Ég held, að það þýði ekkert annað en að horfast í augu við það, þó að það hafi gengið til á annan hátt um hríð, og einnig hitt, að auðvitað verðum við að gera okkur ljóst, að við íslenzka staðhætti verðum við að leggja mikla alúð við það og það kostar mikla vinnu og mikla fyrirhyggju í skipulagi að koma þessum málum í það horf, að viðunandi sé.