14.11.1972
Sameinað þing: 15. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 698 í B-deild Alþingistíðinda. (417)

64. mál, skipulag vöruflutninga

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það er greinilegt, að það kemur við kaunin á hv. stuðningsmönnum fyrrv. ríkisstj., þegar er minnzt á það hér á hv. Alþ., hvað þeir hafa vanrækt á þeim rúma áratug, sem þeir sjálfir voru í ríkisstj., en koma nú hér upp og kvarta undan. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara að karpa mikið um þetta mál. Þetta hefur brunnið jafnmikið á dreifbýlisfólkið þau 12 ár, sem viðreisnarstjórnin var við völd. (Gripið fram í.) Það dregur enginn í efa, hvað sem hv. þm. Sverrir Hermannsson segir um það, og ég tek það vel upp hjá honum. Hann er að hlaupa undir bagga með sínum samþingmanni, hv. 2. þm. Vestf., sem fékk ekki að tala áðan, og ég er ekkert að taka það illa upp fyrir honum. En þetta er staðreynd. Það var ekkert gert til að létta þennan mun, meðan viðreisnarstjórnin sat að völdum í 12 ár, og nú koma þessir menn upp og kvarta undan aðgerðaleysi núverandi stjórnvalda um þetta. Það má vel vera, að þessum mönnum hafi snúizt hugur, og það er vel, og ég trúi því, að Sverrir Hermannsson sé einn af þeim.