14.11.1972
Sameinað þing: 16. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 716 í B-deild Alþingistíðinda. (430)

44. mál, leiga og sala íbúðarhúsnæðis

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Þessi till. um leigu og sölu íbúðarhúsnæðis hefur verið til umr. öðru hvoru undir þessum umr., en meiri tími farið í að ræða um vandræði nemenda utan af landi, um húsnæðisskort í Reykjavík, en það er kapítuli út af fyrir sig.

Út af því, sem hv. 5. þm. Vesturl. sagði hér áðan, að það hefði verið talað um leiksýningu, vil ég taka alveg undir það. Hér hefur farið fram frá hans hendi leiksýning með þeim hætti, að nemendur úr skólum eru boðaðir niður í Alþ. til að hlusta á þennan mann tala utan dagskrár um vandamál nemenda. En það hafa verið miklar raunir hjá Jónasi Árnasyni í allan dag. Ég hygg, að fáir menn hafi vaknað jafnglaðir í morgun og hann til að hafa leiksýningu með miklum „bravör“. En það fór á annan veg. Hann rak sig á, að það var ekki hægt að komast að utan dagskrár, því að forseti fylgdi dagskránni um fsp: tíma, eins og dagskráin segir til um, af sinni alkunnu röggsemi. Jónas gekk hér eirðarlaus inn og út um þingsalinn og gangana í allan dag. Það er ekki fyrr en þetta tækifæri gefst, þegar till. hv. þm. Ragnars Arnalds um leigu og sölu íbúðarhúsnæðis kemur á dagskrá, að hann getur loksins farið að leika sitt hlutverk. Hann er búinn að hafa marga nemendur á pöllunum í allan dag til þess að bíða eftir þessum leikstúf, sem hann loksins flutti, og ég hygg, að flestir þessara nemenda muni þegar þeir þurfa að fara að læra í kvöld, muna hann Jörund í framtíðinni fyrir að hafa eytt svona fyrir sér deginum.

Mér finnst eðlilegt, að samtök námsmanna sendi Alþ. bréf, eins og þessi samtök hafa gert, með því að senda þetta bréf frá 1. nóv. s.l. Þar vitnar þetta fólk í, að eins og kunnugt sé af blaðaskrifum hafi húsnæðisskortur hjá námsfólki utan af landi, er stundar nám á Reykjavíkursvæðinu, mjög gert vart við sig að undanförnu. Það segir ekki, að þessi húsnæðisskortur hafi verið í mörg ár. Það segir í upphafi bréfsins, eins og ég las, að þessi skortur hafi mjög gert vart við sig að undanförnu. Svo býsnast hv. 5. þm. Vesturl. yfir því, að hér hafi ekki verið gerð bragarbót fyrir mörgum árum. Ég spyr: Hvað hefur hann flutt margar till. til að bæta úr húsnæðisskorti námsfólks, sem kemur úr strjálbýlinu og stundar nám hér í Reykjavík? Hann er búinn að sitja hér 10 þing samkvæmt þm.- tali. Ég man ekki eftir till. hans til úrbóta í þessum efnum. Ég man ekki heldur eftir því, að hann hafi flutt till. um stærðarkokkhús við Lækjargötuna fyrir nemendur í menntaskólum og öðrum skólum hér í Reykjavík, því að mér skyldist, að þeir ættu að fá fæði selt á bankastarfsmannaverði, eins og honum varð tíðræddast um. Ég hef ekki orðið var við þennan áhuga, fyrr en þetta bréf kemur frá þessu unga fólki og hann býður hér til leiksýningar í dag með þessum hætti og raunum, sem því hafa fylgt, eins og ég hef áður lýst.

Hv. flm. þessarar till. segir í lok till., að jafnframt skuli skipulag fasteignasölu í landinu tekið til athugunar og að því stefnt í ákvæðum frv. að stemma stigu við hömlulausum hækkunum verðlags á íbúðarhúsnæði. Já, bragð er að, þá barnið finnur, að stemma stigu við hömlulausum hækkunum verðlags á íbúðarhúsnæði. Hann er einn af aðalstuðningsmönnum ríkisstj., og hækkanir hafa verið svo hömlulausar, að kostnaðurinn við byggingu íbúðarhúsa hefur hækkað um 20% á 9 mánuðum. Á meðgöngutíma hefur sem sé kostnaður við íbúðabyggingar hækkað um 20%. En það segir ekki alla söguna, frá því að hann varð stjórnarsinni. Hækkunin er mun meiri. Þessi hv. þm. hefur áður haldið því fram, þegar hann sat hér á þingi, að fyrstu einkenni óðaverðbólgu væru óhófleg hækkun á íbúðarhúsnæði. Það hefur sýnt sig, frá því að þessi ríkisstj. kom til valda, að það var fyrsta einkenni óðaverðbólgu, þessi gífurlega hækkun á verði á húsnæði í landinu, sem er auðvitað afleiðing þeirrar stjórnarstefnu, sem upp var tekin, þegar öllum var boðið upp í dans og enginn mátti vera að því að gæta að sér og sjá, að hverju stefndi. Svo segir þessi maður nú, að við verðum að taka upp strangt aðhald við þá, sem eiga og leigja fasteignir. Þetta segja sömu menn og margfaldað hafa kostnað fasteignaeigenda á s.l. ári, sett á háa fasteignaskatta, yfir 50% heimild til sveitarfélaga, sem velflest notuðu sér heimildina vegna þess, hvað hart var að þeim gengið, að hækka fasteignaskattana um 50%. Ríkisstj. hefur neitað mönnum, sem leigja íbúðir, um að hækka leiguna, þrátt fyrir það að kostnaðurinn við þessar fasteignir hefur stóraukizt.

Ég held, að það sé skynsamlegra að játa staðreyndir hverju sinni, leyfa, að það sé hækkað, þegar á mönnum er hækkað, þannig, að það sé ekki níðzt á eignarréttinum.

Mér fannst hv. þm. Ragnar Arnalds vera óheppinn, þegar hann sagði: Sá, sem á hamar, á eignarréttinn á honum. — Ég get bætt við af gefnu tilefni: Sá, sem kaupir skyr, má sletta því á menn. Hann fær þá sérstakt samtal í ríkisútvarpinu og myndir af sér í blöðunum. En þeir, sem eiga fötin, verða auðvitað að þrífa þau. En sá, sem á hús, á engu að ráða. Það eru aðrir, sem eiga að ráða fyrir hann. Það á að ráðast þar á eignaréttinn, en ekki á manninn, sem á hamarinn eða kaupir skyr til þess að sletta því á aðra. Þetta er kenning, sem ég get aldrei sætt mig við.

Ég hygg og get alltaf fallizt á það, hverjir sem stjórna, að ríkið eigi að hafa eftirlit með því, að óhóflegur gróði eigi sér ekki stað á kostnað almennings. Það get ég fúslega sætt mig við, en ég get engan veginn sætt mig við það, þegar ríkið gengur á undan með lítið fögru fordæmi, og íþyngir þeim, sem eitthvað hafa eignazt og komið sér upp húsi, — níðist á þeim á öllum sviðum. Það er atriði, sem ég kann ekki við og get ekki sætt mig við.

Hv. 5. þm. Vesturl. sagði, að við hv. 5, þm. Norðurl. e. hefðum ekki borið fram þá till., sem hv. 5. þm. Norðurl. e. gat um í ræðu sinni áðan, fyrr en við hefðum séð, að leiksýningin átti að fara fram. Ég skal segja þessum hv. þm. og öðrum það, að eftir að þetta bréf kom til okkar þm., stungum við tveir saman nefjum um það, að við ættum að flytja um þetta hógværa þáltill. og stefna að því, að þarna verði gerðar úrbætur eins fljótt og auðið er. Við ræddum þessa till. í þingfl. okkar s.l. miðvikudag og svo aftur á fundi í gær, og þá gengum við endanlega frá till., og fyrri flm. till. lagði hana hér inn nákvæmlega kl. 1.30 í dag. En þó að ég ætti að detta hér dauður niður, vissi ég alls ekki um leiksýninguna, fyrr en fundur hafði verið settur í Sþ., sem var eftir kl. 2 í dag. Ég vona, að hv. þm. verði svolítið hughægra við þetta. Og jafnvel þó að við hefðum vitað um leiksýninguna kl. 2, hefðum við alls ekki lokið af, þó að við séum afburðamenn báðir, að semja till. og grg. og leggja hana inn til prentunar kl. 1.30.

Hitt er svo annað mál, að menn hafa mismunandi aðferðir til þess að vekja á sér athygli eða sínum málflutningi. Sumir telja rétt að senda bréf inn í skóla, þar sem fólk er, og segja, að áhugamenn hafi rætt við ákveðinn mann, sem sé sniðugur og skemmtilegur ræðumaður og hafi marga góða hæfileika til þess að berjast fyrir ákveðnu máli. Svo eru aftur aðrir, sem eru, eins og sagt var á lélegri íslenzku í gamla daga, svo „sveitó“, að þeir telja betra að setjast niður og semja till. og grg., leggja hana með eðlilegum hætti fyrir hv. Alþ., fylgja henni á sínum tíma úr hlaði, reyna að vinna henni brautargengi og gleðjast auðvitað yfir stuðningi allra manna, líka þeirra, sem telja leiksýningar betri en þessa aðferð.