15.11.1972
Efri deild: 13. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 719 í B-deild Alþingistíðinda. (433)

78. mál, tollskrá o.fl.

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj. 82 er frv. til l. um breyt. á l. nr. 1 11. febr. 1970, um tollskrá o.fl. Ástæðan til þess, að þetta frv. er flutt, er sú, að það á að samræma tollskrá þeim breytingum, sem gerðar hafa verið á Brussel-tollskránni frá 1968. Eins og kunnugt er, er íslenzka tollskráin gerð eftir tollskrárfyrirmynd Tollsamvinnuráðsins í Brussel, hinni svonefndu Brussel-tollskrá, eins og hún var árið 1959. En upphaflega Brussel-tollskráin er frá 1950 og samþykktin um hana frá sama tíma. Á árunum 1959–1968 voru samþykktar á Brussel-tollskránni 13 breytingaskrár, nr. 4–16, og hefur íslenzku tollskránni verið breytt í samræmi við þær. Enn hafa verið samþykktar breytingar á Brussel-tollskránni og segir í bréfi Tollsamvinnuráðsins, dags. 25. nóv. 1971, að breytingar þessar séu gerðar til þess, að Brussel-tollskráin megi fylgja þeirri tækniþróun, sem orðið hefur á síðustu árum, og þeim breytingum í alþjóðaviðskiptum, sem þessari þróun hafa verið samfara. Voru þær breytingar samþykktar í Tollsamvinnuráðinu 9. júní 1970.

í 1. gr. þessa frv. eru teknar upp í íslenzku tollskrána þær breytingar, sem gerðar voru á Brussel-tollskránni samkvæmt fyrrnefndri samþykkt. Hér er fyrst og fremst um að ræða skýringargreinar í athugasemdum við flokka og kafla tollskrárinnar ásamt breytingum einstakra tollskrárnúmera.

Ég vil geta þess í sambandi við þetta frv., að þess er vænzt, að hv. þm. leyfi því að ganga í gegn án breytinga, því að það er ekki gert ráð fyrir, að neinar tollskrárbreytingar séu samþykktar í sambandi við það. Tekjuöflun ríkisins er hins vegar í endurskoðun, og eins og kunnugt er, þarf að breyta tollskránni um áramótin 1973–1974 vegna EFTA-samninganna, og fyrir þann tíma verða þau mál komin hér til meðferðar, en þess er vænzt, að hv. alþm. geti látið þetta frv. ganga í gegn án breytinga, því að það er ekki nema staðfesting á því, sem orðið er.

Ég legg svo til, herra forseti að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjh: og viðskn.