15.11.1972
Neðri deild: 13. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 723 í B-deild Alþingistíðinda. (442)

16. mál, Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins

Frsm. meiri hl. (Garðar Sigurðsson):

Herra forseti. Eins og fram kemur á þskj. 85, 87 og 89, varð sjútvn. þessarar hv. d. ekki alveg sammála um afgreiðslu á frv. um Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins. Þarna er um að ræða ákvæði til bráðabirgða, svo sem hv. þm. geta kynnt sér á þskj. 16. N. sendi frv. til umsagnar til ýmissa aðila, og bárust umsagnir frá eftirtöldum aðilum, sem allir hafa beinna hagsmuna að gæta í þessu máli, og eigendum sjóðsins og stjórnendum.

Umsögn Landssambands ísl. útvegsmanna er prentuð í heild á þskj. 89, og þar geta menn lesið þá umsögn, en ég vil þó aðeins leyfa mér að lesa niðurstöður úr umsögn Landssambandsins. Þær eru svo hljóðandi:

„Að fengnum þessum upplýsingum frá sjútvrh. um afstöðu ríkisstj., var haldinn fundur í stjórn Landssambands ísl. útvegsmanna, þar sem skýrt var frá afstöðu stjórnvalda. Niðurstaða þess fundar var á þá leið, að fallizt var á, að tekið yrði fé úr verðjöfnunarsjóði til að hækka fiskverð um 15%, en talið var, að sú hækkun mundi kosta sjóðinn um 60 millj. kr. til áramóta, og hagur vinnslunnar yrði bættur tír sjóðnum um 28 millj. kr. til áramóta, miðað við, að álíka fiskmagn komi á land til áramóta og var síðustu 3 mánuðina s.l. árs. Á ársgrundvelli mundu þessar breytingar kosta um 880 millj. kr.

Þessi afstaða stjórnar Landssambands ísl. útvegsmanna er byggð á því, að hér sé um bráðabirgðaráðstöfun að ræða til næstu áramóta, eins og frv. gerir ráð fyrir. Stjórn L.Í.Ú. treystir því, að verðjöfnunarsjóði verði ekki eytt á næsta ári, heldur verði gerðar þær efnahagsráðstafanir fyrir framtíðina, er tryggi, að verðjöfnunarsjóður og hugmyndin að baki verðjöfnunarsjóðs fái að standa.“

Þá ætla ég að leyfa mér að lesa umsögn frá sjávarafurðadeild Sambands ísl. samvinnufélaga. Niðurstöður þeirrar umsagnar eru svo hljóðandi:

„Frv. þetta er byggt á samkomulagi á milli sjútvrh. og fulltrúa í Verðlagsráði sjávarútvegsins vegna nýs fiskverðs frá 1. okt. s.l. Vér féllumst á það samkomulag á sínum tíma, og stendur það að sjálfsögðu óbreytt.“ Og að lokum: „Vér leyfum oss að benda á, að greiðslur vegna nefnds samkomulags áttu að hefjast fyrir um það bil mánuði síðan, og er því brýn nauðsyn, að þetta frv. nái fram að ganga sem allra fyrst “

Umsögn frá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna hljóðar svo:

„Vér höfum móttekið bréf yðar, dags. 2. þ.m., þar sem óskað er umsagnar um frv. til l. um breyt. á I. nr. 72, um Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins. Við mælum eindregið með því, að umrætt frv. verði samþykkt. Við viljum nota þetta tækifæri til að vekja athygli á, að vinnslustöðvarnar greiða hækkað fiskverð frá 1. okt. s.l., sem byggist á, að þær fái þá hækkun endurgreidda úr verðjöfnunarsjóði. Allur dráttur á afgreiðslu málsins er því mjög bagalegur og skapar fjárhagsvandræði hjá vinnslustöðvunum.“

Þarna eru komnar umsagnir frá útvegsmönnum og fiskiðnaðinum, og að lokum les ég hér, með leyfi forseta, umsögn frá sjómönnum, þ.e. frá Sjómannasambandi Íslands, sem hljóðar á þessa leið:

„Sjómannasambandið hefur móttekið bréf sjútvn. Nd. Alþ., þar sem óskað er umsagnar sambandsins um hjálagt frv. Stjórn Sjómannasambandsins hefur kynnt sér framangreint frv. og lýsir sig eindregið fylgjandi því, að það verði samþykkt.“

Eins og þessi upplestur umsagna ber með sér, eru umsagnir allar á þann veg, að mælt er með samþykkt frv. Treystum við, sem ritum undir nál. á þskj. 85, okkur ekki til þess að ganga á móti svo samdóma áliti umsagnar aðila, og eins og stendur á þskj. 85, leggjum við til, að frv. verði samþykkt.