15.11.1972
Neðri deild: 13. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 731 í B-deild Alþingistíðinda. (448)

16. mál, Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég hefði óskað þess, að hæstv. forseti hefði beðið með svar sitt og hugsað sig dálítið betur um en hann hefur auðsjáanlega haft tíma til að gera, áður en hann svaraði, því að svar hans var að sumu leyti rangt og að öðru leyti út í hött. Það hefði ekki hvarflað að mér að gagnrýna fjarvistarleyfi hæstv. sjútvrh., ef því hefði opinberlega verið borið við, að hann væri á förum í embættiserindum til útlanda. Það var algerlega rétt, sem hæstv. forseti sagði, að það hefur tíðkazt í áratugi, að þm., ráðh, jafnt sem aðrir, fengju fjarvistarleyfi, ef þeir þurfa að gegna embættisstörfum erlendis, þ.e. fara til útlanda í opinberum erindagerðum. Fjarvistarleyfi hæstv. ráðh. var ekki rökstutt á þennan hátt. Það er mergurinn málsins. Það var rökstutt með embættisönnum hans, með önnum hans og þá væntanlega hér í Reykjavík. Ég hefði ekki heldur gert þetta að umtalsefni nema af því, að þetta er í annað skipti, sem slíkt kemur fyrir þennan hæstv. ráðh. Þetta kom fyrir í fyrra, og nær allan þann tíma var hann að störfum í skrifstofu sinni nokkur hundruð metra frá þinghúsinu, en neitaði að mæta hér á hinu háa Alþ.

Ég vil fyrir hönd okkar þm. ekki láta þetta líðast, án þess að athugað sé rækilega, hvort þetta raunverulega samrýmist þingsköpum eða ekki. Ég tel það ekki samrýmast þeim. Ef ráðh. er að störfum erlendis, er sjálfsagt að skilja og afsaka og réttlæta fjarvist hans frá sölum Alþingis, en ef hann er í skrifstofu sinni, er honum skylt að mæta hér einnig og gegna sínum embættisstörfum á Alþ., sem eru ekki síður mikilvæg en þau, sem hann gegnir í stjórnarráðinu. Þess vegna endurtek ég þá áskorun mína til hæstv. forseta, að hann hugsi sig betur um og svari skynsamlegar næst.