15.11.1972
Neðri deild: 13. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 735 í B-deild Alþingistíðinda. (451)

16. mál, Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég kvaddi mér hljóðs til þess eins að andmæla því eindregið, að ég hafi haft í frammi nokkrar persónulegar árásir á hæstv. sjútvrh. og viðskrh. Slíkt er víðs fjarri mér. Jafnframt andmæli ég því, að í orðum mínum hafi falizt nokkur ádeila á hæstv. ráðh. fyrir vanrækslu hans í störfum sem ráðh. eða sem þm. Slíkt er einnig víðs fjarri mér. Ég kann ekkert síður að meta starfshæfni hæstv. ráðh., bæði sem ráðh. og þm., en ýmsir aðrir, sem hafa haft náin kynni af honum, og hef unnið með honum í ríkisstj., enda skil ég ekki, hvernig nokkur heiðarlegur maður gat hlustað á þau orð, sem ég mælti áðan, og túlkað þau nokkrum mínútum síðar þannig, að í þeim hafi falizt persónuleg árás á ráðh. eða það, að ég væri að draga í efa starfshæfni hans sem ráðh. eða þm. Ekkert orð féll í þá átt, sem með réttu hefði mátt túlka þannig. Ég var að vekja athygli forseta þingsins á nýrri reglu, sem tekin var upp á síðasta þingi, hefur verið endurtekin nú og ég man ekki til. að komið hafi til framkvæmda áður í meira en aldarfjórðung, að ráðh. sé við störf sín í stjórnarráðinu, en mæti ekki hér á hinu háa Alþ. Þetta er nýbreytni. Ég vakti ekki máls á þessu í fyrra. Ég lét það fram hjá fara, þó að ég vissi, að ýmsir þm. töluðu mikið um það sem nýja og varhugaverða reglu. Þegar það kemur fyrir í annað skipti, hef ég ekki séð mér annað fært en vekja athygli þingforseta á því, einkum og sér í lagi vegna þess, að einmitt sömu dagana, sömu vikurnar er verið að ræða í mesta bróðerni sameiginlegar reglur um að takmarka fjarvistir þm. Ég er hér að vekja athygli á mikilvægu atriði varðandi nýsamþykkt þingsköp og starfsreglur þingsins, og í því getur með engum sanngjörnum hætti talizt nokkur persónuleg árás á hæstv. ráðh. né heldur það, að verið sé að draga starfshæfni hans í efa. Þegar starfsbróðir eða flokksbróðir ráðh. leyfir sér, nokkrum mínútum eftir að hafa hlustað á orð mín, að túlka þan á þennan hátt, sýnir það það eitt, að honum virðist fyrirmunað að fara nokkuð fram í sannleiksást.