15.11.1972
Neðri deild: 14. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 736 í B-deild Alþingistíðinda. (455)

77. mál, lántaka Fiskveiðasjóðs Íslands o.fl.

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ég sé, að n. hefur haft fullan hraða á að afgreiða þetta mál, og má það sennilega teljast mjög eðlilegt, þar sem þarna er um allveigamikið mál að ræða fyrir sjávarútveginn.

Af því að hér er um sjávarútvegsmál að ræða, vil ég nota tækifærið og flytja hér þakkir eða lýsa ánægju minni yfir þeirri yfirlýsingu, sem fram kom hjá hæstv. forsrh áðan, þar sem hann lýsti því yfir, að vandamál sjávarútvegsins og fiskvinnslunnar mundu ekki verða leyst um n.k. áramót með því að ganga á fé Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins, eins og hér hefur áður verið rætt um. Ég vildi láta þetta koma fram hér strax, vegna þess að ég tek þessa yfirlýsingu hæstv. forsrh. ekki sem neina persónulega yfirlýsingu, heldur sem yfirlýsingu hans sem forsrh. og forsvarsmanns ríkisstj, og tel hana gefna jafnvel fyrir hönd stjórnarinnar allrar. Þetta hreinsar vissulega andrúmsloftið hjá þeim aðilum, sem hér eiga hlut að máli, og verður til þess að auðvelda þeim störf sín, þegar til þess aðalfundar kemur, sem ég minntist á áðan. Ég taldi nauðsynlegt að nota þetta tækifæri, sem hér gafst, þótt það snerti ekki beint það frv., sem hér er til umr., til þess að láta það koma fram, að ég tel yfirlýsingu hæstv. forsrh. svo mikilvæga, að mér finnst ástæða til að þakka honum fyrir hana og lýsa ánægju minni yfir, að hún skyldi koma fram þegar við þessa 2. umr., sem ég hafði þó varla búizt við.