18.10.1972
Efri deild: 4. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 88 í B-deild Alþingistíðinda. (46)

14. mál, fiskeldi í sjó

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Ég get að vísu vísað í fjölmargt það, sem hv. síðasti ræðumaður sagði hér áðan. Ég hygg, að við séum allir sammála um, að hér er hreyft afar mikilvægu máli eða raunar einum þætti í mjög mikilvægu máli, fiskeldi. Fiskeldi hefur ekki þróazt hér á landi að mínu viti eins og nauðsynlegt er, og erum við þar orðnir mjög langt á eftir, ekki sízt með fiskeldi í sjó, en á því sviði hafa orðið mjög athyglisverðar framfarir á erlendum vettvangi, sem við erum aðeins að byrja að kynnast og þó lítillega. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar, að það væri æskilegra að líta á þessi mál betur í heild sinni, og hef vissar efasemdir um það frv., sem hér liggur fyrir. Mér er ekki fyllilega ljóst, hvað af því muni leiða, að leyfi þurfi til hvers konar fiskeldis í sjó, — tek undir það, sem kom fram hjá síðasta ræðumanni, að það er mjótt á milli fiskeldis í fersku vatni og í sjó. Laxfiskaseiði færast úr fersku vatni í sjó, og virðist þá komið á laust stig, þegar svo fer. Er æskilegt að binda slíkar framkvæmdir allar leyfum, eða ef svo er, er þá ekki nauðsynlegt, að leyfis sé einnig krafizt til fiskeldis í fersku vatni?

Fiskeldi getur verið litil framkvæmd og getur einnig verið mjög stór, eins og hæstv. ráðh. minntist á, þegar fjörðum er lokað, sem ég hygg, að sé reyndar minna um nú en áður, því að nýjar aðferðir hafa komið fram, sem eru kostnaðarminni en slíkar framkvæmdir. En það er annað mál. Með þessu skilst mér, að bónda, sem á land að sjó og á samkv. gömlum reglum líklega um 60 faðma lögsögu, getum við sagt, fyrir sínu landi, sé ekki heimilt að dæla vatni úr þessum sjó upp í tjörn til að ala þar fisk án leyfis frá sjútvrn. Er ekki verið að setja þarna upp of mikið „apparat“, ef ég má kalla það svo, í þessu sambandi? Mér er ljóst, að til meiri háttar framkvæmda eins og að loka fjörðum eða þess háttar, þarf vitanlega að koma einhver aðstoð a.m.k. eða þátttaka hins opinbera í flestum tilfellum. Þá yrði málið skoðað og slík aðstoð veitt að undangenginni rannsókn. Mér lízt betur á þá hugmynd, að skyldað sé að stofna veiðifélag um slíkt svæði, eins og kom fram sjá síðasta hv. ræðumanni.

Ég er einnig í nokkrum vafa um þá víðtæku heimild til eignaupptöku, sem fram kemur í 7. gr., og er nátengt því, sem ég sagði hér áðan um heimild einstaklings til þess að nota við skulum segja eigin sjó og eigið land til minni háttar framkvæmda á þessu sviði. Mér skilst, að samkv. 7. gr. væri heimilt að taka slíkt eignarnámi af bóndanum eða öðrum eiganda þessa landssvæðis og afhenda öðrum til fiskeldis í sjó. Ég hef mínar efasemdir um það.

Eins og kom fram hjá hæstv. ráðh., var þetta frv. rætt í n. í þessari hv. d. Það var sent út til umsagnar, og umsagnir bárust, en svo seint, að það var ekki unnt að afgreiða málið. Þær umsagnir, sem bárust, voru, ef ég man rétt, mjög neikvæðar, sérstaklega frá bændasamtökunum, og ég vil leyfa mér að spyrja hæst. ráðh., hvort þeir, sem sömdu þetta frv., hafi fengið þær umsagnir og þá tekið þær til meðferðar og skoðað frv. með tilliti til þeirra, áður en það var lagt fram hér að nýju.